14.03.1929
Neðri deild: 22. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (2336)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Ólafur Thors:

Jeg hefi þegar sagt það um þetta mál, sem jeg hefi ætlað að segja. Jeg stend því upp nú einungis til þess að gera smávægilegar athugasemdir. Jeg sje ekki ástæðu til að gera leik að því, að deila við minn ágæta flokksbróður, hv. 1. þm. Reykv., en jeg get ekki neitað mjer um að benda honum á rökvilluna í því, sem hann hefir sagt um þetta mál. Því verður nefnilega ekki neitað, að talsverður aðstöðumunur er fyrir hæstv. fjmrh. að ljetta af slíkum skatti, þegar sjeð er um afkomu síðasta árs. Ef útlitið er sjerstaklega ískyggilegt, þá er mun meiri ástæða til að safna í kornhlöðu. En hitt er alveg rjett, að ef þetta hefði komið fyrir í tíð fyrverandi stjórnar, þá er ekki minsti vafi um, hvernig núverandi dómsmrh. hefði tekið í málið. Hann hefði áreiðanlega reynt að gera sjer mat úr því. Jeg get sett mjer fyrir hugskotssjónir hinar gleiðletruðu greinar í núverandi stjórnarblaði, sem það hefði birt út af hinu ægilega hneyksli, sem íhaldsstjórnin hefði gert sig seka í. Látið burgeisana kúga sig eða múta sjer til að gefa þeim eftir hálfa miljón króna, úr hálftómum ríkissjóðnum! Það hefði verið sama rollan og hjá hv. þm. Ísaf. En slíkt skiftir mig engu máli. Mín afstaða til málsins er mörkuð af því, hvað rjett er og satt, en ekki af hinu, þótt gera mætti pólitískan mat úr því fyrir minn flokk. Hins vegar er það ekki af hreinskilni mælt, þegar hv. þm. Dal. talar um mig sem „fyrverandi“ stjórnarandstæðing. Eða álítur hv. þm., að maður eigi altaf að lofa alt, sem frá manns eigin flokki kemur, og skamma alt, sem frá andstæðingunum kemur, án nokkurs tillits til þess, hvort slíkt sje rjettmætt eða ekki. Nei, í slíku andrúmslofti væri ekki líft; maður myndi beinlínis kafna. Og jeg vildi þá ekki lengur eiga sæti í þessum sal. Mjer þykir þess vegna næsta hart, að þurfa að sæta dylgjum frá öðrum eins drengskaparmanni og hv. þm. Dal.

Það er rjett athugað hjá hv. 1. þm. Reykv., að verið hefði óneitanlega viðfeldnara, að einhverjir aðrir en útgerðarmenn hefðu orðið til þess að taka upp hanskann fyrir stjórnina í þessu máli. Það hefði t. d. staðið honum nær að gera það, eða a. m. k. bregðast betur við því, en raun ber vitni um. Þessi mjög svo rangláti skattur kemur ekki eingöngu niður á útgerðinni, því hún er yfirleitt svo illa stæð, að hún kemst ekki í verulegan skatt í ár. Það eru hinsvegar ýmsir kjósendur hv. þm. (M. J.) sem hagnast á þessari eftirgjöf. Hv. þm. er það líka vel kunnugt, að þau afskifti, sem jeg hefi haft af skattamálum alment, hafa öll miðað að því, að hnekkja tilraunum jafnaðarmanna til þess að sliga atvinnuvegina með ákaflega háum beinum sköttum. Það er alkunnugt, að tilgangur þeirra með þessum háu beinu sköttum, er enginn annar en sá, að eyðileggja alla möguleika til atvinnurekstrar. Þetta er eitt helsta vopn þeirra til þess að ryðja þjóðnýtingunni braut.

Viðvíkjandi ræðu hv. þm. Ísaf. skal jeg taka það fram, að þá ræðu hefi jeg heyrt hann flytja áður, og mjer leiðast endurtekningar. En jeg er sammála honum um það, að lausn vinnudeilna með afskiftum ríkisins sje tvíeggjað sverð, einmitt vegna þess, að slíkt gefur báðum aðiljum undir fótinn, eins og hv. þm. tók fram. Í kaupdeilum ala báðir aðiljar tálvonir í brjósti, og hið eina, sem getur gert slíkar tálvonir að engu, er vinnudómurinn. Menn berjast í von um að geta kúgað hinn aðiljann. Um leið og vinnudómur kveður upp dóminn, verða þessar tálvonir að engu. Með vinnudómi er verkföllum og verkbönnum af ljett fyrir fult og alt.

Vjer þökkum! Hv. þm. Ísaf. sagði, að við útgerðarmenn ásamt stjórninni hefðum tekið okkur vald til að breyta þvert ofan í fyrirætlanir síðasta Alþingis. Hv. 4. þm. Reykv. sagði í ræðu um daginn, að þýðingarlaust væri að hyggja á þjóðnýtingu hjer á landi í náinni framtíð vegna þess, að Ólafur Thors fengist ekki til að veita fyrirtækjunum forstöðu. Og nú segir annar hv. þm., að jeg hafi átt verulegastan þátt í að breyta skattalöggjöfinni frá síðasta Alþingi. Jeg hlýt, eftir þessu, að vera orðinn ærið voldugur hjer í þessu landi, voldugri en jeg hefi gert mjer grein fyrir. Og jeg er eins og flestir, mjer þykir gott lofið, og því þakka jeg þeim hv. þm. sem nú svo ríkulega hefir látið það í tje.

Annars vildi jeg taka það fram, að ef hæstv. forsrh. hefir gert þetta, þá ber hann ábyrgð á því, en ekki jeg. Hann hafði aðstöðu sem fjármálaráðherra til þess að gera það í þessu máli, sem honum þóknaðist. Jeg hafði hinsvegar enga aðstöðu til þess að knýja fram neitt í þessu máli, hvorki slíka eftirgjöf eða annað.

Það er næsta broslegt að heyra hv. þm. vera að tala um hið ægilega vald útgerðarmanna á þessu landi, og að þeir hefðu knúið hæstv. forsrh. til þess að víkja frá stefnu flokks síns. Jeg minni á það, að það er ekki stefna Framsóknar að beita þessum beinu sköttum svo óvægilega eins og hjer átti að gera, samkvæmt heimildarlögunum. Það var ekki Framsókn heldur jafnaðarmenn, sem áttu frumkvæðið að þessari löggjöf, og það voru þeir, sem neyddu Framsókn til þess að samþykkja hana vegna þess, að Framsókn þurfti í svipinn að koma í gegn öðru tekjuaukafrv., og þurfti til þess á stuðningi þeirra að halda. Þannig er þessu þá varið. Það eru sósíalistar, sem hafa þetta ægilega vald, og það eru þeir, sem hafa teymt Framsókn nauðuga inn á þessa braut. En það erum þá við íhaldsmennirnir, sem eigum að hafa beint Framsókn inn á rjetta braut, eftir að jafnaðarmenn voru búnir að leiða á villigötur. Það eigum þá að vera við, sem með litlu átaki ljettum kúguninni af.

Það var talað um hið ægilega vald útgerðarmannanna í kaupdeilum. Þeir hafa að vísu vald til þess að hætta að leggja fje í útgerðina og láta skipin hætta veiðum. En þeirra vald er sannarlega ekki ægilegra en vald jafnaðarmanna — og sjómannaleiðtoganna, sem kúga sjómennina til þess að fara ekki út í skipin til þess að gegna störfum sínum. Þar má þá maður manni segja.

Annars skal jeg taka undir það með hv. þm. Ísaf., að rjettlátara hefði verið að ljetta af tollinum á kolum og salti. Það hefði komið miklu jafnar og rjettlátar niður á hinum ýmsu útgerðarfyrirtækjum, og auk þess munaði miklu meira um það. Skal jeg gjarnan þiggja aðstoð hans og hans flokksmanna til þess að fá þessa tolla afnumda, ef þeir annars vilja bjóða hana. Er það þó ekki venja okkar íhaldsmanna, að vilja leggja lag okkar við jafnaðarmenn að neinu leyti. Það var rjettilega tekið fram, að þessi tekjuskattstilslökun er mjög lítils virði fyrir ýmsa útgerðarmenn, en það er heldur ekki upphæðin sjálf, sem er hjer aðalatriðið. Jeg gat þess við 1. umr. þessa máls, og endurtók það núna í byrjun ræðu minnar, að afturköllun ríkisstjórnarinnar á tekjuskattsviðaukanum væri alment álitin stefnubreyting hjá hæstv. stjórn í skattamálunum. Hún áliti of langt gengið í því að afla ríkissjóði tekna með beinum sköttum, og vildi nú reyna að bæta úr þessu. Útgerðarmenn, og líka hinir smáu, því að nú eru menn aldrei slíku vant farnir að tala um smáa og fátæka útgerðarmenn, taka allir þessum tíðindum með fögnuði. Slík stefnubreyting er miklu nauðsynlegri og meira gleðiefni heldur en þótt ljett sje af tollum, sem meira munar um í bili. Ef útgerðin á að eiga sjer nokkra framtíð, þá verður að ljetta af einhverju af beinu sköttunum, því að það eru þeir, sem alt kæfa niður, þegar annars gengur sæmilega.

Það var haft eftir mjer, að tekjuskatturinn væri órjettlátastur allra skatta hjer á landi, Það voru ekki mín orð. Jeg talaði um skattskalann en ekki skattinn sjálfan. Það er skattskalinn, sem er helber vitleysa, og hann verður að laga hið bráðasta. Það, sem gerst hefir í þessu máli, virðist vera spor í þá átt, og vildi jeg óska, að svo yrði haldið áfram.