21.03.1929
Efri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í C-deild Alþingistíðinda. (2362)

89. mál, almennur ellistyrkur

Jón Baldvinsson:

Það hefir oft verið bent á og mun af öllum viðurkent, að ellistyrktarsjóðirnir sjeu of lítilfjörlegir. Og það hafa oft verið uppi raddir um það, að lögunum þurfi að breyta og finna ráð til að hækka styrkina.

Eitt aðalmeinið við núverandi fyrirkomulag er það, hve menn eru rjettlausir gagnvart sjóðunum. Þó menn hafi lagt á sig gjöld til þeirra, þá eiga þeir engan rjett á styrk. Það er fátækrastjórnin, sem kveður á um það, hverjir styrk skuli hljóta. En það verður tíðast handahóf, því margir koma til greina. — Það hafa því komið fram ýmsar uppástungur til að ráða bót á þessu. Sumir hafa stungið upp á, að menn á vissum aldri gyldu háa upphæð árlega, eða í eitt skifti fyrir öll, og ættu svo rjett á tilteknum ellistyrk. En hætt er við, að það yrði ekki framkvæmanlegt. Því margar ástæður koma til greina, sem gera mönnum ókleift að greiða í einu stóra fjárhæð.

Það er því góðra gjalda vert, þegar komið er fram með breytingar, sem eiga að vinna bót á því ranglæti, er nú ríkir. En mjer virðist það vafasamt, hvort ekki hafi verið byrjað á skökkum enda, með því að hjer er farið fram á að hækka nefskattinn og auka ríkisframlag, í stað þess að byrja á bæjum og sveitarfjelögum. Jeg tel rjett, að framlögin til ellistyrktarsjóðanna komi frá þessum þrem aðiljum: ríkinu, sveitarfjelögum og einstaklingum, þótt gjöldin yrðu náttúrlega mismunandi há frá hverjum þessara aðilja, og sannarlega ættu einstaklingarnir ekki að bera þyngstu byrðarnar.

Það er sjálfsagt að taka vel slíkum frv. sem þessu og sjá, hvort ekki má kippa einhverju í lag þannig, að sjóðirnir geti orðið það, sem þeir eiga að verða, og láta þá fá styrk úr þessum eftirlaunasjóðum, sem komnir eru yfir tiltekið aldurstakmark. Annars mun þetta mál vera undir rannsókn hjá landsstjórninni, og vildi jeg því nota tækifærið til að spyrja hv. forsrh., hvað gert hafi verið, og hvað rannsókn þessi sje komin langt áleiðis. Nauðsyn ber til að halda þessu máli vakandi, því að þörfin er mikil, og hv. flm. eiga þakkir skilið fyrir þessa viðleitni sína, enda þótt þeir hafi máske ekki hitt á rjetta leið, en málið mun nú verða sent til nefndar, og þá má efalaust kippa því í lag, sem miður kann að fara. Að endingu vil jeg geta þess, að jeg minnist 3 eða 4 þáltill., sem samþyktar hafa verið um þetta efni, en jeg hefi ekki sjeð árangurinn af þeim, en vonandi fer nú að rakna fram úr því og stjórnin að skila árangri rannsókna þeirra, er gerðar hafa verið.