03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í C-deild Alþingistíðinda. (2383)

89. mál, almennur ellistyrkur

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Meiri hl. fjhn. leggur til, að frv. þetta verði samþ. með þeim breytingum, sem hún ber fram á þskj. 414. Brtt. fara yfirleitt í þá átt, að færa frv. nær því, sem það var, þegar það var borið fram. Það var borið þannig fram, að tekjum sjóðanna af iðgjöldum og ríkissjóðstillagi var ætlað að hækka um 100%. Hinsvegar var engin tillaga gerð um að breyta í neinu hlutfallinu á milli úthlutaðs styrks og vaxtar sjóðanna, svo að við tillögur frv. óx jafnt það, sem úthluta átti og það, sem sjóðirnir höfðu eftir til vaxta. Það voru gerðar þær breytingar í Ed., í fyrsta lagi, að felt var niður, að ríkissjóðstillagið hækkaði, en tekinn upp nýr gjaldandi, nefnilega bæjar- og sveitarsjóðir. Sú upphæð, sem á þennan hátt kæmi niður á bæjar- og sveitarsjóðum, mundi nema rúmum 90 þúsund krónum. Auk þess var gerð sú breyting, að iðgjaldið skyldi hækka um aðeins 50%, og loks var gert ráð fyrir því, að úthluta meiri hluta teknanna en gert er í upphaflega frv. Meiri hl. fjhn. felst á þá hugsun, að efla sjóðina að tekjum, en vildi ekki fallast á að taka inn þessa nýju gjaldendur, nema þeim væri jafnhliða sjeð fyrir tilsvarandi tekjustofni. Það hefir verið venja á þingi nú um alllangt skeið að ákveða sveitar- og bæjarsjóðum ný útgjöld, án þess að ætla þeim tekjustofna á móti, og meira að segja hefir jafnframt verið gengið á þann eina tekjustofn, sem þau hafa, sem sje „efni og ástæður“, með tekju- og eignarskattslögunum frá 1921. Það má vel vera, að þegar róttækar breytingar verða gerðar, megi ætla bæjar- og sveitarsjóðum að leggja fram fje til sjóðanna, en þá verður um leið að sjá þeim fyrir tekjustofni. Tillögur meiri hl. fjhn. fara nær frv. eins og það var borið fram, en þó leggur n. ekki til, að hækkaðar sjeu tekjur sjóðanna nema um 50%, jafnt á báðum aðiljum, ellistyrktarsjóðsgjaldendum og ríkissjóði, og í öðru lagi leggur n. til, að stærri hluta teknanna sje úthlutað, en verið hefir. Þetta er bygt á því, að þörf samtíðarinnar sje meiri en þörf framtíðarinnar.

Jeg skal nú gefa stutt yfirlit um það, hverjar tekjur sjóðanna myndu vera eftir lögunum sjálfum, frv. flm., frv. Ed. og tillögum meiri hl. fjhn., og einnig um úthlutun og vöxt sjóðanna og hag þeirra. Jeg hefi þetta sumpart eftir því, sem fram kom í umræðunum í Ed., og sumpart eftir Hagstofunni, og er það bygt á skýrslum við árslok 1927.

Í árslok 1927 voru sjóðirnir að upphæð kr. 1027000. Standa þeir á vöxtum í Söfnunarsjóði á 5,9% að því er jeg veit best. Yfirlitið er þannig:

Tekjur þús. kr.

Úthlutun þús. kr.

Vöxtur þús. kr.

Lögin 173

97,7

75,3

Frv.

flm 286

165,4

120,6

Frv.

Ed 297

222,3

75,5

Till.

fjhn. Nd. 229

176,7

52,8

Eftir till. n. er vöxtur sjóðanna 52,8 þús., sem þá svarar til fullra innlánsvaxta af sjóðnum. Það virðist vera viðunandi vöxtur. Jeg skal geta þess, að jeg hefi í þessu yfirliti talið vaxtatekjurnar 60 þús. krónur í öllum tilfellum.

Það kynni helst að vera haft á móti frv. og till. n., að lítil ástæða væri að gera breytingu á lögunum nú, þar sem stæðu fyrir dyrum róttækar breytingar á þessum tryggingum, og vísað til þess, að í fyrra var samþ. þál. um að fela hæstv. stjórn að undirbúa þetta mál. Í nál. fjhn. um annað mál er einnig lögð áhersla á, að hæstv. stj. láti rannsaka málið og leggja fyrir næsta þing tillögur um það. En þó að ekki líði á löngu áður en róttækar breytingar verða gerðar í þessu efni, verða þó minst tvö ár þar til þær geta komið til framkvæmda, enda er ekki víst, að frv. um þetta næði samþykki á því sama þingi, sem það er fram borið. Menn mundu þurfa alllangan tíma til að hugsa og ræða málið og samræma skoðanir sínar. Til dæmis verður allvandasamt að ráða af, hvað á að gera til að afla fjár til sjóðanna. Ef hjer yrði um tryggingar að ræða, sem allir sextugir menn ættu rjett á, yrðu þær mjög fjárfrekar, ef þær ættu að koma að verulegu liði. Með það fyrir augum, að stutt verði til róttækra breytinga, höfum við líka lagt til, að þetta frv. gangi í gildi nú þegar.

Jeg held, að jeg hafi ekki meira að segja í bráðina, en jeg vil að endingu geta þess, að sá hluti n., sem að breytingunum stendur, leggur ríka áherslu á, að ekki verði nú með lögum lagðar þungar byrðar á sveitar- og bæjarfjelög þeim að óvörum.