03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í C-deild Alþingistíðinda. (2384)

89. mál, almennur ellistyrkur

Hannes Jónsson:

Það er auðheyrt á umræðum um þetta mál hjer á þingi, að mjög er ríkjandi sú skoðun, að efla verði þessa sjóði svo, að þeir, sem styrks njóta úr þeim, þurfi ekki að sækja á náðir hins opinbera. Á síðasta þingi var flutt og samþ. þál. um að undirbúa löggjöf um þetta mál. Eftir upplýsingum frá hæstv. stj., var þegar hafin rannsókn, og hæstv. stj. gerir ráð fyrir, að hægt verði að leggja þegar fyrir næsta þing fullkomna löggjöf um ellitryggingar. Það ætti því öllum að geta komið saman um að fresta öllum breytingum í þessu efni þangað til. Ýms atriði þessa máls eru líka mjög á reiki í hugum manna hjer á þingi. Það sem menn verða að gera sjer grein fyrir, er það, hve miklu þurfi að úthluta, hve miklu að safna í sjóði, og á hvern hátt þetta fje verði fengið inn. Um öll þessi atriði hafa þeir, sem starfað hafa að frv., verið mjög ósammála. Eins og hv. frsm. meiri hl. n. tók fram, hafa flm. ekki haft annað fyrir augum en að tvöfalda alla þessa liði. Það er sjáanlegt, að það er gert alveg út í bláinn með það eitt fyrir augum, að þörf sje á að úthluta meiri styrk en gert hefir verið.

Hv. frsm. gaf okkur yfirlit yfir hag sjóðanna. Jeg er hræddur um, að eitthvað sje bogið við þá reikninga, en það skiftir ekki miklu máli.

Til þess að gera málið ljósara, hefi jeg búið til skýrslu, sem sýnir tekjur sjóðanna, styrkveitingar og sjóðaukningu, alt auk vaxta, samkv. lögunum, frv. og þeim brtt., sem fram hafa komið. Þessi skýrsla er samin með tilliti til framlags ríkisins 1927 samkv. Landsreikningnum það ár, og má vel vera, að þar muni einhverju, en varla svo að teljandi sje. Þessi skýrsla er þannig:

Tekjur

Úthlutað

Vöxtur

þús. kr.

þús. kr.

þús. kr.

Lögin

143,1

85,8

57,3

Frv. flm......

286,2

171,6

114,6

Frv. Ed. .....

243,4

182,5

60,9

Till. fjhn. Nd. 214,6

185,8

28,8

Af þessari skýrslu sjest þegar, að eitthvað er bogið við það, er hv. frsm. (HStef) telur, að árið 1927 hafi verið 45 þús. gjaldendur hjer á landi, þar sem ríkissjóðstillagið hefir hinsvegar numið rúmum 57 þús. kr., en svo er ákveðið, að greidd sje úr ríkissjóði 1 króna á hvern gjaldanda.

En það, sem skýrslan ber ljósast með sjer, er það, hve skoðanir manna eru mjög á reiki í þessu efni. Flm. frv. vilja auka tekjurnar um 100%, fjhn. Ed. færir hækkunina niður í 70% og fjhn. Nd. í 50%. Sjóðaukninguna vilja flm. frv. auka um 100%, fjhn. Ed. vill láta hana sitja við sama og áður hefir verið, en fjhn. Nd. vill lækka sjóðatill. frá því sem áður var um 50%. Helst virðist vera samræmi í hækkun á úthlutun styrksins. Hana vilja flm. hækka um 100%, eins og hina liðina. Þar við bætir fjhn. Ed. 11000 kr., en fjhn. Nd. vill lækka þennan lið um 14000 kr. frá till. flm. En auk þessa er og mjög mikill ágreiningur um gjaldstofnana. Við þá tvo, sem áður hafa gilt, nefnilega ríkissjóðstillagið og einstaklingstillagið, vill Ed. bæta þeim þriðja: sveitar- og bæjarsjóðum. Meiri hl. fjhn. Nd. virðist ekki geta felt sig við þetta, og færir sem ástæðu, að þegar sje svo hlaðið gjöldum á sveitar- og bæjarfjelög, að ekki sje við bætandi. Jeg býst við, að þetta geti orðið mjög mikið ágreiningsatriði, ekki einungis hjer í deildinni, heldur og alment. Mjer hefir heyrst á sumum hv. þm. úr meiri hl., að þeir gætu ekki fylgt frv., ef þetta ákvæði hjeldist.

En hvers vegna á þá að vera að grauta í þessari löggjöf, þegar aðeins er um eitt ár að ræða? Eins og frv. kemur frá Ed., er ekki gert ráð fyrir, að þessar breytingar komist til framkvæmda fyr en að ári, en mjer skilst, að löggjöf, sem sett yrði á næsta þingi, gæti alveg eins komið til framkvæmda á því ári, og þá er ekkert unnið við þessa breytingu. Meiri hl. nefndarinnar hefir og sjeð þetta, og gerir þá brtt. við frv., að lögin komi til framkvæmda þegar á þessu ári, og er það sönnu nær. Annars verð jeg að segja, að jeg er að mörgu leyti á móti till. meiri hl. Mjer virðist hann m. a. vilja leggja hlutfallslega of miklar byrðar á ríkissjóð með þessum fjárframlögum. Eftir till. hans myndu útgjöldin vaxa um 29 þús. kr. Jeg get heldur ekki fallist á, að þessi löggjöf sje meira fyrir nútíðina en framtíðina, og því finst mjer rangt að lækka svo mjög tillögin til sjóðaukninga, sem meiri hl. ætlast til.