03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í C-deild Alþingistíðinda. (2386)

89. mál, almennur ellistyrkur

Fjmrh. (Einar Árnason):

Þegar þetta frv. var flutt í Ed., var lagt til í því að hækka um helming tillög ríkissjóðs og einstakra manna. Jeg andmælti þessu, en sagði, að ef fara ætti að breyta þessum lögum, væri rjett að bæta við þriðja aðiljanum, sveitar- og bæjarsjóðum, þannig, að framlög sveitar- og bæjarsjóða væru jöfn framlagi ríkissjóðs. Við meðferð málsins var þetta tekið til greina, og varð eigi ágreiningur um það. Þótti mjer þessi breyting til mikilla bóta. Hinsvegar tel jeg, að brtt. meiri hl. fjhn. sjeu til spillis. Með brtt. eru feld burtu tillög sveitar- og bæjarsjóða, en framlag ríkissjóðs hækkað. Þó er ekki hægt að neita því, að sanngjarnt sje, að sveitar- og bæjarsjóðir leggi þessum sjóðum fje, því að þeir fá það margborgað. Vil jeg því leggja til, að brtt. verði feldar.

Hins vegar get jeg fallist á þá till. minni hl., að málinu verði vísað til stjórnarinnar. Jeg álít, að framundan liggi að athuga þessi tryggingannál frá rótum, og hygg, að þá verði þau bygð á öðrum grundvelli en þetta frv.