03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í C-deild Alþingistíðinda. (2394)

89. mál, almennur ellistyrkur

Hákon Kristófersson:

* Jeg vil leyfa mjer að benda á, að þar sem hv. þm. V.-Húnv. talaði um, að þessar 35–70 kr. yrðu notaðar til bíóferða og þessháttar, þá er vægast sagt talað af vanþekkingu. Líklega ekki af öðrum verri hvötum. Líklega miðar hv. þm. alt við Reykjavík, þó að jeg trúi ekki, að slíkt eigi heldur við þar. En út um landið er jeg sannfærður um, að þessar krónur verða ekki notaðar til bíóferða eða annars óþarfa.

Annars lít jeg svo á, að með þessu verði ekki miklu ljett af sveitarsjóðum, heldur eigi þetta að vera verðskulduð glaðning fyrir fátæk gamalmenni.

Jeg verð að segja, að þetta frv. er borið fram með þeim fulla skilningi á þörfinni á að ljetta undir með þeim mönnum, sem eiga rjett á ellistyrk, og er því alveg óhæfilegt að kalla þetta frv. viðrinisfrv., eins og hv. 2. þm. Reykv. gerði. Veit jeg ekki, hvað hv. þm. meinar með því, að velja frv. slíkt heiti, en það er mjer ljóst, að hann gerir það málinu til óvirðingar.

Þótt meiri hl. fjhn. þessarar hv. d. hafi gert nokkrar breytingar á frv. hefir hann gert það með fullum skilningi á málinu. Nefndinni er það ljóst, að þetta er engin fullnaðarráðstöfun, og ennfremur, að gjaldþol sveitarsjóðanna þolir ekki meira. Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að hjer væri verið að veita fólkinu steina fyrir brauð. Þetta er sami gamli söngurinn, sem æ kveður við, þegar hv. þm. er ekki flm. mála. Hv. þm. verður að gá að því, að flestir sveitarsjóðir hafa engin stórfyrirtæki til þess að leggja á, eins og olíukóngana hjer í Reykjavík. Og ef þetta frv. er þannig í eðli sínu, að það veiti steina í staðinn fyrir brauð, hygg jeg, að ekki sjeu minni sannindi í því, að brauðið, sem þessir góðu menn, jafnaðarmennirnir, veita, sje ekki látið úti án þess að fá eitthvað í staðinn.

Jeg mun fylgja brtt. meiri hl., þar eð jeg verð að ganga út frá því, að það sje hið besta sem fyrir er, því að jeg býst ekki við, að frv. nái fram að ganga óbreytt.

Þetta margfalda endurgjald, sem hæstv. fjmrh. benti á, að sveitirnar mundu fá aftur, hefir hv. 2. þm. G.-K. hrakið svo rækilega, að jeg hygg að þau ummæli muni ekki geta komið fram aftur.

Annars mun jeg ekki fara fleiri orðum um mál þetta að sinni. Jeg tel það spor í rjetta átt, og því alveg ómaklegt að fara um það þeim óvirðingarorðum, sem hv. 2. þm. Reykv. viðhafði.

Ræðuhandrit óyfirlesið.