29.04.1929
Efri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

17. mál, eftirlit með skipum og bátum

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og er stjfrv. Tildrög frv. eru þau, að eftirlit með skipum og bátum og öryggi þeirra samkv. l. frá 1922 hefir ekki reynst eins fullkomið og þörf er á. Sjútvn. þessarar d. viðurkennir nauðsynina á því að skerpa eftirlitið, þannig að það geti komið að tilætluðum notum.

Aðalbreyt., sem þetta frv. gerir á gildandi lögum, er sú, að skipaður verði sjerstakur skipaskoðunarstjóri, sem hafi alt eftirlit með skoðun á skipum og bátum á öllu landinu. Sjútvn. telur eftir atvikum rjett, að þetta sje gert, og sjer eigi aðra leið heppilegri. Svo er ráð fyrir gert, að þessi skipaskoðunarstjóri taki laun sín úr ríkissjóði, en að útgerðarmenn og eigendur skipa og báta greiði skipaskoðunargjöld, gegn haffærisskírteini. Þó að sjútvn. mæli með því, að frv. verði samþ., vill hún taka það fram, að hún telur mjög mikla nauðsyn á í því sambandi, að endurskoðuð verði tilskipunin, sem sett var 20. nóv. 1922 um eftirlit með skipum og bátum og öryggi þeirra, og reglugerðin frá 7. nóv. 1923, um þóknun til skoðunarmanna skipa o. fl. Nefndin telur mikla þörf á þessari endurskoðun, bar sem nákvæmlega skuli til tekið, hvernig skip og bátar eigi að vera útbúin, þannig að það sje í fullu samræmi við lögin. N. telur, að þar þurfi ýms atriði endurskoðunar við; sum ákvæði tilsk. eru of þröng, en á öðrum þyrfti að herða, sjerstaklega ákvæðum viðvíkjandi þeim skipum, sem notuð eru til fiskiveiða. Þegar reglugerðin var sett, var tiltölulega lítil þekking og enn minni reynsla fengin um það, hvernig tryggja þyrfti útbúnað fiskiskipanna. Eins og eðlilegt er, þá hefir reynslan leitt í ljós, að önnur ákvæði þurfi að setja. Vil jeg fyrir hönd n. benda á, að hún leggur mesta áherslu á, að tilsk. verði breytt. Samkv. l. frá 19. júní 1922 er atvmrh. heimilað að gefa út reglugerð um eftirlit með öryggi þeirra fljótandi fara, sem lögin ná ekki til, eins og sjá má á 5. gr. þessara laga, en n. veit ekki til, að slík reglugerð hafi verið gefin út. Lögin ná ekki til annara báta en vjelbáta og fjórróinna árabáta eða stærri. En fjórróinn telst sá bátur, sem róið er af fjórum mönnum. En allir hinir smærri bátar, sem róið er af þremur mönnum eða færri, heyra ekki undir þessi lög, nema um þá sje sett sjerstök reglugerð. Nú er það vitanlega fjöldi af fiskibátum, sem róið er á af færri mönnum en fjórum; má fullyrða, að þeir skifta hundruðum á öllu landinu. Auk þess ná lögin ekki til annara báta en þeirra, sem ganga eina vertíð á ári. Jeg vil um leið taka það fram, ef reglugerð um eftirlit með þessum fljótandi förum verður endurskoðuð, að samskonar ákvæði gilda um skip og báta eftir 1. um slysatryggingar sjómanna; tryggingarskyldan er bundin við það, að bátarnir ganga vissan tíma á ári.

Það hefir komið í ljós, að sjómenn tregðast við að greiða slysatryggingargjaldið, og nota sem afsökun, að ekki sje víst, að fleytan gangi svo langan tíma sem lögin ákveða. Þessi undantekning er ekki heppileg. En n. hyggur, að það þyrfti ekki að verða að tjóni, ef þessi reglugerð, sem hún vill láta setja og henni er ekki kunnugt um að hafi áður verið til, verður nú sett. Og það vill n. að ekki sje látið dragast.

Það er þá ekki öllu fleira, sem n. vill benda á við þessa umr., en hún taldi rjett að láta þetta koma fram, af því að það er í svo nánu sambandi við frv.

Um frv. sjálft er það að segja, að n. lítur svo á, að rjett sje að fara þessa leið til að skerpa eftirlitið, þó að því verði hinsvegar ekki neitað, að það leiði til aukinna útgjalda fyrir báta- og skipaeigendur, þó svo, að þeim má telja stilt í hóf. Hinsvegar er rjett að taka það fram, að eitt af því, sem þarf að endurskoða, er gjaldskrá skipaskoðunarmannanna fyrir skoðun á skipum og bátum. N. telur, að gjaldið, 30 kr., sje of hátt fyrir mjög smáa vjelbáta, þó að það sje hinsvegar ekki of hátt fyrir stærri vjelbáta, sem ná 12 smálestum. Telur n. vert að athuga, hvort ekki megi lækka skoðunargjald af smærri bátum.