17.05.1929
Sameinað þing: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í C-deild Alþingistíðinda. (2411)

89. mál, almennur ellistyrkur

Halldór Stefánsson:

* Þetta mál er eitt af þeim fáu, sem ekki hefir náðst samkomulag um á milli deilda. Þykist jeg vita, að miklar umr. um málið muni ekki hafa mikla þýðingu, því að öllum er ljóst, hver ágreiningsatriði eru á milli deildanna.

Deildirnar eru sammála um það, að efla þurfi tekjur sjóðanna til bráðabirgða, með því að búast má við, að róttækar breytingar verði bráðum gerðar á fyrirkomulagi þeirra, og að meiri hl. af tekjum sjóðanna skuli úthluta en áður. Er aðeins um stigmun að ræða í því, hvað deildirnar vilja ganga langt í þessu efni. Hinsvegar greinir deildirnar á um það, hverjir skuli vera gjaldendur til sjóðanna.

Deildirnar eru sammála um að hækka gjaldið, sem greitt er úr ellistyrktarsjóðunum um 50%, og að koma skuli hækkaðar tekjur á móti, en munurinn er sá, að hv. Ed. vill taka þennan tekjuauka frá bæjar- og sveitarsjóðunum, en Nd. frá ríkissjóði. Auk þessa ætlast hv. Ed. ekki til, að 1. gangi í gildi fyrr en eftir eitt ár, en Nd. vill láta þau ganga strax í gildi.

Afstaða Nd. er sú, að hún vill ekki breyta tekjustofnunum, og er ástæðan sú, að henni þykir óviðkunnanlegt að leggja útgjöld á aðilja, sem ekkert atkv. hefir hjer um, auk þess sem það virðist tæplega rjettmætt að auka útgjöld sveitarsjóðanna, því að það er vitanlegt, að þeir eru hlaðnir gjöldum fyrir og hafa ekkert vald yfir tekjustofnunuin til þess að auka tekjur sínar. Hinsvegar virðist það ekki nema eðlilegt, að þetta framlag á móti iðgjaldahækkuninni komi frá ríkissjóði, þar sem hann hefir ákvörðunarrjettinn, ef hann vill nota hann, og vald yfir öllum tekjustofnum.

Jeg hefi þá rakið í stuttu máli þann ágreining, sem er á milli deildanna í þessu máli, og sje ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. En jeg vænti þess, að ef Alþingi er alvara með að efla ellistyrktarsjóðina, muni það ekki láta þennan ágreining valda því, að málið nái ekki fram að ganga.

Ræðuhandrit óyfirlesið.