17.05.1929
Sameinað þing: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í C-deild Alþingistíðinda. (2418)

89. mál, almennur ellistyrkur

Fjmrh. (Einar Árnason):

Jeg hefi látið það í ljós áður, að jeg væri óánægður með þetta frv. í þeim búningi, sem það nú er. Og jeg fyrir mitt leyti get ekki greitt atkv. með frv. í þessu formi. Jeg er sammála hv. þm. Ísaf. (HG), að með þessu frv. sje verið að bæta gráu ofan á svart um undirbyggingu þessara gölluðu laga, sem sje að hækka nefskatt þann, sem frv. er bygt á. Það kemur algerlega í bága við alt rjettlæti, eftir því, sem þessi lög annars eru framkvæmd.

Jeg er líka sammála hv. 3. landsk. (JÞ) um það, að þau missmíði eru á frv., sem hann hefir tekið fram. Þó að þetta verði að lögum nú, þá sje jeg ekki mögulegt að framkvæma þau 1. á yfirstandandi ári. Það hafa verið færð ýms rök að því, að þessar skýrslur um tillögin til ellistyrktarsjóðanna í hreppunum eru fyrir löngu samdar og munu nú vera fyrir nokkuð löngu komnar til hlutaðeigandi sýslumanna, og eftir þeim skýrslum verði vitanlega þessi gjöld innheimt á manntalsþingum, og þau alt önnur en frv. gerir ráð fyrir.

Jeg skal aðeins taka það fram að lokum, að jeg get vel fallist á till. þá, sem hv. þm. Ísaf. hefir hjer flutt.