29.04.1929
Efri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

17. mál, eftirlit með skipum og bátum

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Jeg þakka hæstv. forsrh. fyrir undirtektir hans við aths. sjútvn. um endurskoðun á tilsk. frá 20. nóv. 1922 og reglugerðinni frá 1923, og ennfremur um að sett verði reglugerð um eftirlit með smærri bátum og öryggi þeirra.

En jeg get ekki verið sammála hæstv. ráðh. um gjaldaákvæðin í 5. gr. frv., að það sje sambærilegt eftirlit með bifreiðum og bátum. Í fljótu bragði virðist sá samanburður máske ekki óeðlilegur. En það horfir alt öðruvísi við um skipin og bátana en bifreiðirnar. Bifreiðaakstur er nokkurnveginn tryggur atvinnurekstur, sem þó gefur ekki beinar tekjur í ríkissjóð, nema hvað eigendur þeirra greiða sem aðrir gjaldendur af sínum atvinnutekjum. Um sjávarútveginn er öðru máli að gegna, sem rekinn er með smábátum og stærri skipum; það má segja, að sá atvinnurekstur ber uppi ríkissjóðinn. Þegar á útveginum hvíla jafnmikil gjöld og nú á sjer stað, þá teldi jeg sanni nær, að ríkissjóður greiddi nokkurn hluta af kostnaðinum við eftirlitið, og einnig af stimpilgjaldinu, sem um ræðir í 5. gr. Jeg tel rjett, að ríkissjóður greiði ferðakostnað skoðunarmanns. Jeg geri ráð fyrir, að þegar hæstv. atvmrh. athugar málið nánar, þá sannfærist hann um, að það sje ekki rjett að krefja hærri gjalda af skipa- og bátaeigendum heldur en frv. ákveður; það sem eftirlitið verður dýrara, sje sanngjarnt að greiða úr ríkissjóði. Jeg skil það vel, að stj. sje það kærast, að umbæturnar og eftirlitið sje framkv. með sem minstum kostnaði fyrir ríkissjóð. En ríkissjóður hefir líka mikilla hagsmuna að gæta gagnvart þessum atvinnurekstri, og varðar það miklu, að útvegurinn gangi vel. Þess vegna álít jeg það eðlilegt, að hann verji nokkru fje til þessa eftirlits. Á undanförnum árum hefir talsverðu fje verið varið til þess. Og jeg geri mjer von um, að framlög ríkissjóðs þurfi ekki að vera öllu meiri en áður. Þá hygg jeg, að þessu máli sje vel borgið frá sjónarmiði beggja aðila, ríkissjóðs og útvegsmanna.