07.05.1929
Neðri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í C-deild Alþingistíðinda. (2437)

81. mál, bann gegn líkamlegum refsingum

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. þm. Skagf. gerði mjer upp þau orð, að það væri algengt að kennarar beittu líkamlegum refsingum. En jeg tók það einmitt fram, að jeg vissi til, að meiri hlut. ísl. kennara beitti þeim alls ekki, en nokkrir gerðu það þó. Þetta hefir hv. þm. V.-Ísf. viðurkent rjett.

Sami hv. þm. Skagf. vill enn reyna að hengja hatt sinn á það, að líkamlegar refsingar sjeu bannaðar í lögum; það þurfi ekki önnur ákvæði en bannið gegn misþyrmingum í hegningarlögunum. En þetta er mjög fjarri sanni. Líkamlegar refsingar og það, sem lögin og dómararnir nefna misþyrmingar, er tvent ólíkt. En hitt er og víst, að dómarar hafa oft tekið óskiljanlega mjúkum höndum á beinum misþyrmingum. Jeg man ekki betur, en að norður í Skagafirði hafi drengur einn, sem komið var fyrir á bæ, verið hálfdrepinn ekki alls fyrir löngu. Hv. þdm. kann að virðast, að jeg hafi tekið þarna nokkuð sterkt til orða, en því fer fjarri; drengurinn var grindhoraður, útsteyptur í óþrifum, meiddur af barsmíð og svo máttlaus, að hann gat varla gengið. Meðferðin á drengnum var kærð og málið fór fyrir dómstólana, en jeg og fleiri urðum höggdofa er við sáum dóminn, svo vægt var þar tekið á þessari misþyrmingu. Það mun líka vera svo, að dómarar telja ekki misþyrmingu nema um stórkostlegar misþyrmingar sje að ræða. Fyrir því verður að setja skýr ákvæði, hvað telja skuli misþyrmingu og hvað ekki. En það, sem hjer um ræðir er það, hvort leyfa skuli líkamlegar refsingar, sem ekki eru beinar misþyrmingar skv. mati dómara.

Hv. þm. heldur því fram, að af hlífð við Steinþór Guðmundsson hafi hann verið kærður fyrir skólanefndinni, en málinu ekki verið skotið til dómstólanna. Þetta er uppspuni einn. Ástæðan fyrir því, að hann var kærður, var sú, að þá stóðu fyrir dyrum bæjarstjórnarkosningar á Akureyri, og var þá ákærunni á hendur honum dreift út um bæinn, þótt vitanlegt væri, að þessi kennari hafði notað þessa aðferð til að halda uppi aga um margra ára skeið. Sökin var ekki svo stór, að þeir menn, sem kæruna settu á stað, treystu sjer til að fara með málið fyrir dómstólana og fá kennarann dæmdan fyrir misþyrmingu. En áliti hans var sjálfsagt að reyna að spilla, með því að blása nú málið upp. Almenningsálitið hefir fordæmt þessa uppeldisaðferð. Það er á undan löggjöfunum í þessu efni, og afarlangt á undan hv. þm. Skagf., sem, eins og allir vita, er aftasti liður í hala afturhaldsins hjer á landi. Það játa allir, sem til þekkja, að líkamlegar refsingar gera frekar ógagn en gagn. Þótt snoppungar geti verið til gagns í einstaka tilfellum, við baldna stráka og ósvífna, þá er yfirleitt ógagnið meira. Þegar líkamlegum refsingum er beitt við börn að jafnaði, elur það upp í þeim þrjósku og þverúð, og vekur hjá þeim löngun til að hefna sín. Slíkur agi kennir börnunum líka að ljúga, til þess að sleppa við refsinguna, og þau börn, sem alin eru upp á þann hátt, geta borið þess merki æfilangt. Ósvífnir piltar geta auðveldlega reitt kennara — þeir eru breyskir eins og aðrir menn — til reiði. Sje þá ekki bannað að refsa líkamlega, er hætt við, að kennari gæti þess ekki, hvernig hann refsar, og drengurinn álíti refsinguna hefnd eða bræðiverk kennarans.

Jeg gleymdi áðan að svara hv. 1. þm. S.-M., er hann sagði, að það væri ófært að banna móður að refsa barni sínu, eins og henni þætti „viðeigandi“. Þetta er gert nú, þar sem misþyrming er bönnuð, mæðrum sem öðrum, og þess eru dæmi, að móðir hafi verið refsað fyrir misþyrmingu á barni sínu, en auðvitað er það fágætt, sem betur fer. En því miður verður maður að játa, að ekki eru allar mæður svo, að þeim sje treystandi að meta hvað er „viðeigandi“ refsing. Hjer er því aðeins gengið feti framar en áður hefir verið gert.

Jeg get verið mjög ánægður með undirlektir hv. þm. V.-Ísf., einkum sökum þess, að hann er sá maður hjer í hv. deild, sem mest tillit ber að taka til í þessu máli sökum þess, að hann, vegna stöðu sinnar, hefir besta þekkingu á barnafræðslu okkar og skólamálum. Hann er því samþykkur, að líkamlegar refsingar sjeu bannaðar í skólum, en álítur hinsvegar ekki rjett að banna þær í heimahúsum. Jeg hygg að best sje að stemma á að ósi, og banna einnig slíkar refsingar þar sökum þess, að þau börn, sem alast upp við barsmíði á heimilum sínum, geta verið orðin svo þrjóskufull, að erfitt sje fyrir kennara að halda þeim til hlýðni á annan hátt. Hitt er líka athugavert, að þegar börn koma í skólann, oft fullra 10 ára að aldri, sem hafa alist upp við ugg og ótta, þá bera þau þess merki, sem mikla lægni þarf til að uppræta í skólanum.

Hv. þm. sagði, að það væri í sjálfu sjer gott og sjálfsagt að reyna að útrýma með öllu líkamlegum refsingum. En það ætti að gera með því að breyta hugsunarhætti fólksins. Hv. þm. gleymdi því, að hugsunarháttur fólksins er þegar breyttur orðinn á þessu sviði, og er óðum að breytast. Lögin eru aðeins sýnilegt tákn almenningsálitsins, þannig, að ef almenningur álítur að þessi eða hinn verknaður sje þess eðlis, að hann beri að banna, þá er það gert með lögum, ella ekki. Hinir fáu, sem líta öðrum augum á þetta, verða svo að beygja sig fyrir vilja og rjettarmeðvitund meiri hlutans. En skoðun almennings breytist og dómgreind hans þroskast frá ári til árs, og ríkjandi skoðunum verða lögin að fullnægja, en almenningsálitið er, eins og jeg áður hefi sagt, í þessu efni langt á undan löggjafanum. Jeg teldi því frv. þetta mikið skemt frá því, sem nú er, ef bannið ekki einnig er látið ná til foreldra og forráðamanna barna og unglinga.

Að endingu skal jeg geta þess, að jeg þekki marga kennara, og veit það með vissu, að þeir, sem ekki beita líkamlegum refsingum, eru yfirleitt taldir nýtari og starfhæfari kennarar en hinir, þótt þeir í sjálfu sjer geti verið bestu menn. Að geta ekki fengið börnin til hlýðni og starfs, án þess að beita líkamlegum refsinguin, er yfirleitt vottur um, að eitthvað vantar í kennarann sem kennara.