07.05.1929
Neðri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í C-deild Alþingistíðinda. (2438)

81. mál, bann gegn líkamlegum refsingum

Hákon Kristófersson:

Það má vel vera, að frv. þetta sje í sjálfu sjer meinlaust, en þó verð jeg að álíta, að tíma Alþingis sje betur varið til einhvers annars, sjerstaklega þar sem þingtíminn fer nú að styttast úr þessu. Af framsöguræðu hv. flm. skildist mjer, að frv. þetta væri komið fram af sjerstökum ástæðum, og er ekkert við því að segja. Nú vildi jeg beina þeirri fyrirspurn til hv. flm., hvar takmörkin eigi að vera með líkamlegar refsingar, og hvort hann telji t. d. steinbítstak undir klípingum, en eins og menn vita er það óþokkatak, sem jeg gat ekki ímyndað mjer, að nokkur kennari notaði við börn. Jeg mæli því ekki bót, að kennarar geri mikið að því að beita líkamlegum refsingum við börn, en álít að mannúð og vingjarnleg umvöndun við börnin hafi mest að segja. Þó álít jeg, að snoppungur geti haft sínar góðu verkanir, enda eru þeir sjaldnast svo ríflega útilátnir, að þeir komi að sök. Þó að mannúðin ætti að ráða, eru til þeir óþokkastrákar, sem verður að hýða, og er það þá gert í fullu samræmi við hinn gamla og kunna málshátt: „Með illu skal ilt út drífa“.

Þó að þetta frv. yrði nú samþ., efast jeg ekki um, að það yrði aðeins á pappírnum, eins og fleiri dauðir bókstafir, sem lög vor eru svo rík af. Vitanlega efast jeg ekki um, að ef kennarar misþyrma börnum, muni viðkomandi skólanefndir veita þeim refsingu, eða reka þá frá starfanum. Jeg held, að mjer sje óhætt að fullyrða, að kennarar beiti ekki lengur líkamlegum refsingum við börn, nema einstaka undantekningar, og jeg hygg, að um það þurfi ekki að setja sjerstaka löggjöf, því að ef einhver veruleg; brögð verða að slíku, má án efa heimfæra verknað þeirra undir hin almennu hegningarlög.

Viðvíkjandi því óþokkamáli, sem gerðist norður í Skagafirði, og hv. flm. mintist á, má benda honum á það, að um slíkt þarf engin ný lög, því að hegningarlögin ættu þar að nægja. Jeg vil að endingu lýsa yfir því, að jeg er ókunnugur kennaramálinu á Akureyri, en er jeg las afsökunargrein kennarans, sá jeg, að þar hafði eitthvert verulegt misrjetti átt sjer stað. Mitt álit er það, að mannúðin sje orðin svo mikil, að slíkrar löggjafar sje engin þörf, en hinsvegar kann jeg hv. flm. þökk fyrir hans góða hug í málinu. Til þess að sýna hv. flm. viðeigandi kurteisi, vil jeg að frv. verði látið detta úr sögunni og samþ. verði eftirfarandi rökstudd dagskrá:

„Deildin lítur svo á, að svo mannúðlega sje yfirleitt farið með börn og unglinga nú á tímum, að engin sjerstök ástæða sje til þess að samþykkja sjerstaka löggjöf um bann gegn líkamlegum refsingum, og í annan stað, að atburðir þeir, sem gerðust í barnaskólanum á Akureyri síðastliðinn vetur, heyri undir annan vettvang en Alþingi. Tekur hún því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Með skírskotun til þess, sem jeg hefi sagt, leyfi jeg mjer að afhenda hæstv. forseta dagskrána, með ósk um, að hann láti hana koma til atkv.