07.05.1929
Neðri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í C-deild Alþingistíðinda. (2440)

81. mál, bann gegn líkamlegum refsingum

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg vildi aðeins gera smáa athugasemd í sambandi við þá rökstuddu dagskrá, sem hv. þm. Barð. hefir mælst til, að borin verði undir atkvæði. Hv. þm. segir, að yfirleitt muni kennarar fara svo mannúðlega með börn, að engin þörf sje fyrir slíka löggjöf. Jeg minnist þess, að þegar jeg var í barnaskólanum hjer í Rvík, voru 3 kennarar við skólann, sem beittu líkamlegum refsingum, enda munu allir þeir, sem í skólann hafa gengið, kannast við klípingar, löðrunga, selbita, tvíbökur og annað þess háttar. (ÓTh: Tvíbökur! Hvað er það?) Hv. 2. þm. G.-K. mun sjálfur þekkja þær af reynd, svo að honum ferst ekki að spyrja. Einn kennarinn, sem beitti slíkum aga, er mjög nýlega farinn frá kenslustörfum, og þrátt fyrir það, að kærunum rigndi yfir hann bæði til skólastjórnar og bæjarstjórnar, var hann látinn sitja þangað til að hann sótti sjálfur um lausn. Framferði þessa kennara vakti almenna óbeit, en af því að íhaldið var í meiri hluta bæði í skólanefnd og bæjarstjórn, og þessi kennari var flokksbróðir þeirra, var hann látinn gegna stöðu sinni áfram, þótt hann hjeldi altaf uppteknum hætti. Jeg hygg, að flestir hv. þm. gætu tínt til eitthvað þessu líkt, en jeg hefi nefnt þessi dæmi til að sýna hv. þm. Barð. að líkamlegar refsingar eru ekki eins fágætar í skólum og hann hyggur.