07.05.1929
Neðri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (2441)

81. mál, bann gegn líkamlegum refsingum

Sigurður Eggerz:

Jeg ætla aðeins að gera grein fyrir atkvæði mínu í þessu máli. Jeg er því eindregið fylgjandi, að barsmíðar sjeu útilokaðar með öllu úr skólum landsins, því að það er blettur á þjóðinni, ef þetta á sjer stað. Hv. þm. Ísaf. sagði, að kæran, sem komið hefði fram á hendur kennaranum á Akureyri, hefði orsakast af því, að kosningar stóðu fyrir dyrum. Það vill nú svo til, að jeg hefi átt tal við Sigurð Hlíðar dýralækni, og er þess fullviss, að ekkert slíkt hefir vakað fyrir honum. Þessi hv. þm. er næsta skilningslítill, ef hann þarf að leita að öðrum ástæðum fyrir kærunni en þeim, að faðirinn þolir ekki að barni sínu sje misþyrmt í skólanum. Hver þolir það? (ÓTh: Það er ekki við því að búast að hv. þm. Ísaf. geti skilið það. Það er steinhjarta piparsveinsins, sem talar). Þeir, sem þekkja Sigurð Hlíðar, vita að honum mundi einmitt hafa verið mjög óljúft að gera þennan atburð að kosningamáli. Skólastjórinn hefir opinberlega játað á sig þessa ávirðingu, en ennþá mun honum ekki hafa verið vikið frá. Jeg efast um það, að maður, sem eftir eigin játningu hefir komið eins fram og þessi skólastjóri, fengi að gegna áfram embætti sínu hjá nokkurri menningarþjóð nema okkur. Ennþá situr þessi skólastjóri við sama skólann, en þó eru margir mánuðir liðnir frá því er hann var kærður.

Það stendur í dagskrá þeirri, er hjer liggur fyrir, að það, sem kom fyrir á Akureyri, heyri undir annan vettvang en Alþingi. Það er rjett, að Alþingi hefir ekki beint ákvörðunarrjett um það mál, en stjórnin, sem hefir ákvörðunarvaldið, ber ábyrgð gagnvart Alþingi. Það er því á valdi Alþingis að finna að aðgerðum eða aðgerðaleysi stjórnarinnar í málinu. Jeg mun því greiða atkv. á móti dagskránni, en með því, að frv. gangi til nefndar, og að þar verði tekin til alvarlegrar athugunar þau ákvæði þess, sem mest nauðsyn er á, að verði að lögum. En jeg vil enda þessi fáu orð með því að endurtaka það, að jeg tel það bera vott um sljóleika, að skólastjórinn skuli fá leyfi til þess að vera áfram við skólann.