07.05.1929
Neðri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í C-deild Alþingistíðinda. (2445)

81. mál, bann gegn líkamlegum refsingum

Magnús Guðmundsson:

Meining mín er sú, að jeg vil ekki að löggjöf verði sett um þetta efni, vegna þess að algengt sje, að kennarar komi fram eins og skólastjórinn á Akureyri, því að svo er eigi, sem betur fer.

Hv. flm. sagði, að jeg hefði farið rangt með orð sín. En hann sagði, að ýmsir kennarar hefðu fyrir sið að refsa börnum á þennan hátt. En nú hefir komið fram hjá hv. þm. V.-Ísf. að þessar refsingar sjeu mjög sjaldgæfar. En hann kvaðst samt vilja fá lög um þetta efni. Ef svo er, að forsvarsmenn kennara óska slíkrar löggjafar, sje jeg síður ástæðu til að vera á móti henni, og vildi jeg því mælast til, að hv. þm. Barð. tæki dagskrá sína aftur, enda þótt sjáanlegt sje að málið nái ekki fram að ganga á þessu þingi.

Út af sögu hv. þm. V.-Ísf. vil jeg geta þess, að mjer finst vafasamt, hvort refsing sú, sem strákurinn fjekk, hafi ekki verið rjett. Hv. þm. sagði, að hægt hefði verið að vísa honum úr skóla. En ætli strákur með hans innræti tæki sjer það svo mjög nærri? Jeg held ekki. Enga trú hefi jeg á því, að pólitískar slettur hverfi úr sögunni, þótt lagaákvæði verði selt um þetta, því að altaf má segja, að þessum og þessum hafi ekki verið refsað, þótt ástæða væri til.