04.03.1929
Neðri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í C-deild Alþingistíðinda. (2456)

51. mál, yfirsetukvennalög

Flm. (Sigurður Eggerz):

Jeg verð að segja það, að jeg hefi haft óblandna ánægju af því að hlusta á andstæðinga þessa máls. Jeg sá það svo glögt, hvernig hin vonda samviska þeirra stóð yfir þeim á meðan þeir fluttu ræður sínar. Og það, sem átti að heita rök í ræðum þeirra, var heldur ekkert annað en afsakanir vondrar samvisku.

Hv. þm. N.-Ísf. vildi ómögulega opna launalögin; en það gæti nú samt skeð, að svo mikið ranglæti ætti sjer stað í þessu landi, að það væri nauðsynlegt og skylt að opna launalögin. Mjer skildist á hv. þm., að hann tæki þessa afstöðu af umhyggju fyrir starfsmönnum ríkisins og að hann vildi ekki samþ. þessa litlu breytingu af því að hún mundi tefja fyrir því, að alt launalagakerfið yrði tekið til athugunar. Já, við vitum nú, hvað þetta þýðir, að bíða eftir því, að kerfið sje tekið til athugunar; það þýðir ekkert annað en það, að reyna eigi að svæfa málið svo lengi sem mögulegt er. En þessi breyt. á launum yfirsetukvennanna er svo sem engin undantekning. Hæstv. forsrh. kom í fyrra með dýrtíðaruppbót handa prestunum. (Forsrh.: Það var framlenging á dýrtíðaruppbót). Já, en prestunum var veitt uppbót, sem þá var ekki í lögum, og þetta var alveg í samræmi við þá sjálfsögðu reglu, að þegar einhversstaðar verður vart við ranglæti, þá á að bæta úr því. Þess vegna er það líka alveg rjett að taka yfirsetukonurnar út úr nú.

Hv. þm. V.-Húnv. þótti jeg færa lítil rök fyrir máli mínu, og það getur vel verið, að guð almáttugur hafi búið hann betur út með rökum en mig; en jeg bar fram rök — því getur hann ekki mótmælt — og rökin voru þau, að yfirsetukonur vantar nú í 30 umdæmi. Og jeg veit satt að segja ekki, hvað eru rök, ef þetta eru ekki rök. Vilji hv. þdm. ekki taka gild þessi rök, þá verða þeir um leið að lýsa yfir því sem sinni skoðun, að það geri ekkert til, þó að konur deyi af barnsförum og unga kynslóðin farist voveiflega í fæðingunni; það er að segja, ef þeir á annað borð telja, að eins mikið sje varið í mannslífið í afskektu og fámennu sveitunum og t. d. hjer í höfuðstaðnum.

Það er alveg rjett, að hreppsnefndaroddvitar hafa lítil laun, og sama má segja um ýmsa aðra starfsmenn í þjónustu hins opinbera; en jeg vil bara benda á, að það vantar samt sem áður hvergi hreppsnefndaroddvita eða aðra góða starfsmenn. En hjer vantar yfirsetukonur í 30 umdæmi, og það er af því, að launin hafa verið skömtuð lúsarlega, og það er Alþingi algerlega ósamboðið. Samkv. lögunum eru stofnlaun yfirsetukvenna, er lægst eru launaðar í sveitunum, aðeins 200 kr. Dálítið einkennilegt, að sumir fulltrúar sveitanna skuli ekki sjá sjer fært að bæta úr þessu máli.

Jeg vil beina þeirri spurningu til hv. þm. V.-Húnv., hvernig hann ætli að útvega yfirsetukonur í þessi 30 umdæmi. Ætli það verði hægt á annan hátt en að bæta launin?

Hv. þm. V.-Húnv. fann að því við mig, að jeg skyldi tala um þetta mál af tilfinningu. En jeg veit þá ekki, hvenær má og á að tala af tilfinningu, ef ekki þegar eins stendur á og hjer nú í þessari hv. deild, þegar sömu mennirnir, sem altaf eru reiðubúnir til að samþ. allskonar bitlinga og óþarfa fjáraustur, gerast svo bíræfnir að setja sig upp á móti því, að afskektustu hjeruð þessa lands fái yfirsetukonu. Það er heldur ekki um það að ræða, að kasta neinu stórfje úr ríkissjóðnum. Allur sá gjaldaauki, sem af breytingunni mundi leiða, er eitthvað 20–30 þús. Og jeg er alveg viss um það, að hv. þm. V.-Húnv. fer með einhvern þyngri syndabagga burt úr þessari hv. deild áður lýkur en þó að hann greiddi atkv. með þessari sanngjörnu launauppbót yfirsetukvennanna.