04.03.1929
Neðri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í C-deild Alþingistíðinda. (2457)

51. mál, yfirsetukvennalög

Hannes Jónsson:

Jeg verð að segja það, að jeg tel rök hv. þm. Dal. og mannúðarmjálm heldur lítils virði. Skal jeg þá byrja á rökunum og sýna fram á, hversu veigamikil þau eru. Hv. þm. segir t. d., að það sanni nauðsyn frv., að hreppsnefndaroddvita vanti hvergi á landinu, en víða vanti yfirsetukonur. En veit þessi hv. þm. það ekki, að störf oddvitanna eru þegnskylduvinna, sem hver maður verður að taka við, hvort sem hann er fús til eða eigi, ef hann er til þess kvaddur. En engin kona er skyldug til þess að gerast ljósmóðir. Jeg efast um, að oddvitar fengjust í alla hreppa, ef ekki væri þessi skylda, og það mest vegna þess, hve starfið er afskaplega illa launað. Nú hlýtur hv. þm. Dal. að viðurkenna það, að maður, sem vinnur slík skyldustörf, ætti að fá þau launuð eftir því sem þau eru verð. Ekki síst fyrir það, að oft hlaðast á sama mann mörg slík störf, sem draga að mestu starfskrafta hans frá heimilinu, sem hlýtur að hafa í för með sjer að meira eða minna leyti ófarnað í rekstri búsins. Þeim mönnum eru því allmislagðar hendur, sem sjá ekkert athugavert við laun þessara starfsmanna, en vilja teygja laun yfirsetukvenna langt yfir það, sem margar þeirra sætta sig við. En svona eru rök hv. þm. Dal. í þessu máli, og jeg get ekki tekið neitt tillit til slíkra raka.

Það er auðsætt af frv., að tilgangurinn með því er ekki eingöngu sá, að rjetta minni hjeruðunum hjálparhönd. Það sjest af samanburði þeirrar launauppbótar, sem yfirsetukonum þessara hjeraða er ætluð, við þá uppbót, sem stærri hjeruðin eiga að fá. Um leið og smærri hjeruðunum er ákveðin 100 kr. uppbót á byrjunarlaun, eiga hin að fá alt að 500 kr. uppbót, þ. e. a. s. launauppbótin á að vera fimm sinnum hærri hjer í Reykjavík en t. d. vestur í Dalasýslu. Þetta sýnir best, að hjer er ekki verið að vinna fyrir smáu umdæmin, þó að talað sje fyrir frv. á þeim grundvelli.

Hv. þm. Dal. færir sem ástæðu fyrir frv., að laun prestanna hafi verið hækkuð og því sje rjettmæt þessi launahækkun yfirsetukvennanna. Nú veit hv. þm. það, að launum prestanna hefir ekki verið breytt síðan launalögin voru sett, að öðru en því, að nú fá þeir fulla dýrtíðaruppbót á þau eins og aðrir embættismenn ríkisins. Og yfirsetukonurnar þurfa alls ekki að kvarta, því þær voru áður búnar að fá þessa uppbót á laun sín. Hjer er því ekki um neina frambærilega ástæðu að ræða til launahækkunar.

Hv. þm. heldur því fram, að yfirsetukonur vanti í 30 umdæmi. Hvaða umdæmi eru það? Því hefir hann ekki komið með skrá yfir þau, svo ekki yrði um vilst, að hann færi með rjett mál. Nei, hv. þm. hefir ekki getað það. af því þessi umdæmi eru ekki til. Það mun að vísu rjett, að örfá afskektustu og fámennustu umdæmin eru yfirsetukonulaus. En ætli úr því yrði bætt með þessari launahækkun? Jeg held varla.

Jeg þykist nú hafa fært sæmilega gild rök fyrir því, að hv. þm. Dal. sje ekki að vinna hjer eftir mannúðarskrafi sínu. Nei, kápa mannúðarinnar á að hylja eitthvað, sem undir býr, en ekki má sjást.

Það er ekki rjett að jeg hafi verið að hrósa mjer af því, hversu góð rök jeg bæri fram í þessu máli. En jeg staðhæfi þó, að þau sjeu ekki veigaminni en þau rök, sem hv. þm. Dal. hefir leyft sjer að bera á borð fyrir hv. deild.

Væri nú svo, að hv. þm. Dal. gæti fært líkur fyrir því, að þessi 100 kr. kauphækkun í minni umdæmunum mundi nægja til þess að sjá þeim öllum fyrir yfirsetukonum, mundi jeg jafnvel vera tilleiðanlegur til að greiða atkv. með henni. En að fara að hækka þessi laun um 100 kr. aðeins til þess að fá tækifæri til að hækka fimm sinnum meira laun þeirra yfirsetukvenna, sem síst þurfa þess með — já, fyrir því er engin skynsamleg ástæða. Ef til vill væri hv. þm. Dal. fáanlegur til að halda nú einn hjartnæman ræðustúf um bágindi yfirsetukvennanna hjer í Reykjavík, því að það eru þær, sem hv. þm. ber fyrir brjósti, þó að hann lofi hinum að fljóta með til þess að lappa upp á málstaðinn.