04.03.1929
Neðri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í C-deild Alþingistíðinda. (2458)

51. mál, yfirsetukvennalög

Flm. (Sigurður Eggerz):

Ekki gekk hv. þm. V.-Húnv. greiðlegar með rökin nú en áður. Hann gat ekki mótmælt því, að altaf sje hægt að fá nóga menn í oddvitastöður. Menn skoða þá stöðu sem heiður, eins og hún líka er. Oft veljast líka til hennar efnuðustu mennirnir í hverjum hreppi, sem mega við því, þó að starfið sje illa launað.

Það stendur enn með öllu óhrakið þetta tvent, sem jeg hjelt fram: annarsvegar þetta, að það er nóg af oddvitum, og hinsvegar, að 30 yfirsetukonur vantar.

Jeg skil ekkert í útreikningum hv. þm. V.-Húnv. Hann segir, að launahækkunin hjer í Reykjavík sje fimmföld. Eftir núgildandi lögum er launahámark yfirsetukvenna hér í Reykjavík 1000 kr. Ef þessi upphæð er fimmfölduð, verða það 5000 kr., sem hver ljósmóðir hjer í bæ ætti að fá, og jeg get mætavel skilið, að það liði yfir hv. þm. V.-Húnv. yfir því að vita til þess. En þessu er bara alls ekki svona farið. Það er skýrt tekið fram í frv., að launin skuli ekki fara fram úr 1500 kr. En launahækkun þeirra yfirsetukvenna, sem nú eru lægst launaðar, er hlutfallslega miklu meiri, þar eð laun þeirra hækka samkv. þessu frv. úr 275 kr. upp í 500 kr. Þær fá því rúmlega 81 launahækkun, en hinar fyrnefndu ekki nema sljett 50%. Hinsvegar er ekki því að neita, að yfirsetukonur hjer í Reykjavík eiga að mörgu leyti verri aðstöðu. Þær eru miklu bundnari, mega varla bregða sjer í annað hús, og þær verða jafnvel að halda stúlku til að gæta símans fyrir sig. Auk þess er á það að líta, hve dýrt er að lifa hjer í Reykjavík.

Hv. þm. V.-Húnv. sagði, að yfirsetukonur tækju alt að 100 kr. fyrir yfirsetu. Jeg leyfi mjer að mótmæla þessu. Hv. þm. hefði átt að lesa yfirsetukvennalögin. Þm. hafa yfirleitt gott af því að kynna sjer málin, svo að þeir hafi einhvern fastan grundvöll að standa á. í 7. gr. núgildandi 1. um laun ljósmæðra er svo ákveðið, að þær skuli fá sanngjarna þóknun fyrir að sitja yfir, sem ekki skuli vera minni en 7 kr. Yfirsetukonurnar fá með öðrum orðum ekki meira en 7 kr. fyrir að sitja yfir konum. Það munar ekki meiru en þessum litlu 93 kr. hjá þessum hv. þm.

Mjer finst, að þeir hv. þm., sem flytja fram svona rök, ættu sem minst að segja, og að þeim væri yfirleitt heppilegast að fara heim — og lesa betur.