04.03.1929
Neðri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í C-deild Alþingistíðinda. (2459)

51. mál, yfirsetukvennalög

Hannes Jónsson:

Jeg má til að víkja að því, sem hv. þm. Dal. sagði um röksemdir mínar. Hann heldur því fram, að það sanni misrjettið, að nógir oddvitar fáist, en hann hlýtur að skilja það, þessi hv. þm., að menn eru skyldaðir með 1. til þess að gegna oddvitastarfinu (SE: Í þrjú ár). Veit jeg það. Hinsvegar eru ljósmæður ekki lögþvingaðar til að gegna starfa sínum, ekki frekar en hv. þm. Dal. er þvingaður til þess að vera þm. (SE: Jú, það er jeg einmitt). Nei, en hv. þm. hefir sterkan vilja til þess og þykir heiður í því að vera talinn einn af löggjöfunum.

Hv. þm. var að tala um það, að jeg hefði sagt, að laun ljósmæðra eftir þessu frv. væri fimmföld. Hann heyrir hálfeinkennilega, þessi hv. þm. Jeg sagði, að launahækkunin væri fimmföld, miðað við lægstu launin, og hv. þm. þýðir ekkert að hlaupa frá veilum sínum með því að snúa út úr.

Hv. þm. ætlaði að gera sig að stórum manni út af þeim ummælum mínum, að ljósmæðurnar tækju 100 kr. fyrir að sitja yfir. Nú vita það allir menn, að í raun og veru fara ljósmæðurnar ekki eftir neinum taxta. ޜr setja oft ekkert upp fyrir að sitja yfir, en láta hlutaðeigendur ráða, hvað þeir borga, og svipurinn sýnir fljótt, hvort vel er þegið. Flestir menn eru svo gerðir, að þeir kunna því ekki vel að álítast borga þetta illa, og það er sama, hvort þóknunin er lögboðin eða greidd af fúsum vilja, ef niðurstaðan er sú sama og ljósmæðurnar fá þetta vel borgað. Jeg býst við því, að hv. þm. Dal. hafi oft þurft á yfirsetukonu að halda, þó að mjer sje það ekki kunnugt, og jeg geri ráð fyrir, að hann — sem bæði er vel metinn maður og auk þess bankastjóri — muni ekki hafa borgað þeim undir 100–150 kr. fyrir ómak sitt.