04.03.1929
Neðri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í C-deild Alþingistíðinda. (2460)

51. mál, yfirsetukvennalög

Pjetur Ottesen:

Jafnvel þó að jeg búist við því, að fá þau svör hjá hv. þm. Dal., sem ýmsir aðrir andmælendur þessa frv. hafa fengið, að best sje fyrir mig að fara heim og lesa betur, ætla jeg samt að segja nokkur orð. Og jeg ætla að byrja með því, að benda þessum hv. þm. á það, að honum hefði sjálfum ekki veitt af að kynna sjer þetta mál nokkuð betur. Hann er altaf að hamra á því, að yfirsetukonurnar úti á landi hafi ekki neina 200 kr. í laun. Jeg hefi fyrir framan mig gerðabók ríkisgjaldanefndarinnar, og í henni er gefið yfirlit um laun ljósmæðra fyrir árið 1926. Þar sjest það, að ljósmæður úti um sveitirnar hafa á ári þetta 300–100, 400–500 og jafnvel 600–700 krónur. Jeg skal ekki ábyrgjast, að þetta sje rjett, en þar sem skýrsla nefndarinnar er gefin út sem opinbert plagg, virðist engin ástæða til að rengja hana. Jeg vil því vænta þess af hv. þm. Dal., að hann hætti að undirstrika þá fjarstæðu, að yfirsetukonur til sveita hafi ekki nema 200 kr. í laun á ári.

Jeg vil taka undir það með hv. þm. V.-Húnv., að í þessu frv. kemur greinilegast fram umhyggjan fyrir þeim yfirsetukonum, sem eru í kaupstöðunum. í þessu sambandi vil jeg benda á það, hvernig laun lækna til dæmis að taka, eru ákveðin, en það er þannig, að þeir læknar, sem eru í fjölmennum hjeruðum, hafa lægri stofnlaun en hinir, sem í fámennari hjeruðum eru, með tilliti til þess, að aukatekjur þeirra eru meiri. En samkv. því frv., sem hjer liggur fyrir, um breyt. á launum yfirsetukvenna, er farið öfugt að við þetta. Jeg tek þetta fram af því, að jeg þykist vita með vissu, að krafan um launahækkunina sje sprottin hjeðan úr Reykjavík, enda ber frv. þess ljós merki. Og jeg held, að undir þær óskir um launahækkun, sem borist hafa utan af landi, hafi verið ýtt hjeðan úr Reykjavík. Sjálfur þekki jeg dæmi þess, að yfirsetukonur í sveit hafa neitað að skrifa undir þessar áskoranir.

Hv. þm. Dal. segir, að þessi krafa sje almenn á meðal ljósmæðra, en jeg vil benda honum á það, að hún er upprunnin hjeðan úr Reykjavík, en ekki t. d. úr Dalasýslu eða öðrum sveitahjeruðum. Ef þetta væri ofarlega á baugi þar, mundi það hafa komið fram í þingmálafundargerðum þaðan. (SE: Þær eru ekki margar). Að minsta kosti ein, en þar er ekkert um slíkt talað, og er þó drepið á ýms mál. Hv. þm. Dal. fanst það eðlilegt, að yfirsetukonurnar skyldu fara fram á þessa launahækkun, og sagði, að þær hefði „aldrei frið“. En þetta sýnir bara, að kunnugleiki hans af þessum málum nær lítið eða ekkert út fyrir Reykjavík. Jeg verð nú að segja það, að jeg býst við, að yfirsetukonunum safnist sæmileg fúlga yfir árið, þar sem svo er ástatt, að um óslitið starf er að ræða, eins og hv. þm. Dal. vill vera láta.

Hv. þm. Dal. var að bera hv. þm. V.-Húnv. það á brýn, að hann liti svo á, að það gerði ekkert til, þó að konur færust af barnsförum. Er hv. þm. Dal. viðbúinn að benda á dæmi þess, að þetta hafi komið fyrir af því, að ekki hafi náðst í yfirsetukonu?

Jeg veit ekki, hvort það er rjett, að það vanti 30 yfirsetukonur, — jeg held, að það sje ósannað mál, að svo sje — en jeg býst við því, að hjer sje þá eingöngu átt við „lærðar“ yfirsetukonur eða þær, sem útskrifast hafa úr yfirsetukvennaskólanum. Mjer er það nú kunnugt, að það eru mörg dæmi þess, að próflausar yfirsetukonur hafa ekki reynst lakari en hinar, en jeg skal ekki fara frekar út í það atriði.

Hv. þm. N.-Ísf. talaði um það, að ljósmæðurnar þyrftu að hafa fleiri störf með höndum en þær hafa, og að hægt væri að bæta úr því með því t. d. að gera þær að hjúkrunarkonum jafnframt. Þetta er alveg rjett athugað, enda er þessu sumstaðar svo fyrir komið.

Hv. þm. Dal. talaði af miklum eldmóði og með grátklökkum orðum um hið hróplega ranglæti, sem konurnar yrðu að þola og þótti þeim misboðið í því, að þær bæru ekki, hvað launagreiðslur snertir, jafnt úr býtum og karlar. Út af þessu vil jeg beina því til hv. þm. Dal., hvort konur beri jafnt úr býtum sem karlar við þá stofnun, sem hann stjórnar.