04.03.1929
Neðri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í C-deild Alþingistíðinda. (2461)

51. mál, yfirsetukvennalög

Flm. (Sigurður Eggerz):

Mjer þykir leiðinlegt, að mega ekki gera nema stutta aths. En það er bót í máli, að jeg þarf litlu að svara hv. þm. V.- Húnv., enda er hann dauður. Því hefir ekki verið hnekt, að það vantar 30 yfirsetukonur og að eina ráðið til að fá þær er að hækka launin.

Jeg hafði dálítið gaman af því, — jeg skal játa það, — að þeir skyldu slá bökum saman í þessu máli, hv. þm. Borg. og hv. þm. V.-Húnv. Það má segja um það: á þeim degi gerðust þeir Heródes og Pílatus vinir. (PO: Við höfum altaf verið vinir). Ja, ekki hefi jeg orðið var við, að hjörtu hv. þm. slægju saman fyrr en í þessu máli.

Af því að mjer er afmarkaður tíminn, ætla jeg að snúa mjer að hv. þm. Borgf. Hann sagði, að frv. bæri það með sjer, að það væri runnið hjeðan úr Reykjavík. Jeg vil benda á það, að samkv. gömlu 1. eru laun þeirra yfirsetukvenna, sem verst eru launaðar, ákveðin 275 kr. Með þessu frv. er gert ráð fyrir, að þær fái 500 kr. Hækkunin nemur með öðrum orðum rúmlega 81%. Hinsvegar hækka laun hinna betur launuðu yfirsetukvenna úr 1000 kr. upp í 1500 kr. Sú hækkun er sljett 50%. Hv. þm. Borgf. ætti því ekki að vera að gera sig svo heimskan að vilja bera á móti því, að hækkunin sje hlutfallslega meiri hjá þeim ljósmæðrum, sem ver eru launaðar, en hinum. Enda vonast jeg til, að þessu vopni verði ekki haldið á lofti lengur.

Hv. þm. Borgf. sagðist ekki hafa sjeð þessa máls getið í fundargerðum úr Dalasýslu. Þar hafa nú verið haldnir fáir fundir og sjálfur hefi jeg ekki haft tækifæri til að halda þar fundi. En jeg hefi altaf orðið þess var, að kjósendur mínir voru skilningsgóðir á merk mál, og hv. þm. Borgf. þarf ekki að ímynda sjer, að hann geti fengið Dalamenn til að yfirgefa mig í mannúðarmálum.

Hv. þm. Borgf. hneykslaðist á því, að jeg taldi það rangt, að kvenfólkið væri ver launað en karlmenn. En jeg endurtek það, að það eru leifar af gömlum og úreltum skoðunum, að konur sjeu lægra rjettar en karlar. Það er hróplegt ranglæti, að konur skuli ekki fá sömu laun og karlar fyrir að gegna sömu störfum. En sú kemur tíðin, að konurnar vakna, og þá munu þeir menn fá að kenna á broddum þess, sem eins eru sinnaðir og hv. þm. Borgf.

Hv. þm. Borgf. var að spyrja að því, hvort þær konur, sem ynni í Íslandsbanka, bæru jafnt úr býtum og þeir karlmenn, sem þar ynnu. Því miður má jeg ekki svara þessari spurningu, nema með leyfi bankaráðsins, þar eð jeg er bundinn þagnarloforði. (Forsrh.: Það leyfi skal með ánægju veitt). Hæstv. forsrh. hefir ekki vald til að veita slíkt leyfi án samþykkis bankaráðsins. Þó að hann sje mikill maður, er hann ekki alt bankaráðið.

Jeg ætla svo ekki að hafa þetta lengra. En jeg veit, að allir sanngjarnir menn eru með þessu máli, og það mun reynast því trygt og nóg.