02.04.1929
Neðri deild: 34. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í C-deild Alþingistíðinda. (2467)

51. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. minni hl. (Sigurður Eggerz):

Við 1. umr. þessa máls var mikið um það rætt, sem ekki virðist ástæða til að taka upp nú. Skal jeg því ekki vera mjög langorður í þetta sinn.

Áður en jeg byrja á meginmáli ræðu minnar, vil jeg leyfa mjer að leiðrjetta villu, sem af vangá hefir slæðst inn í nál. minni hl. Þar er gerður samanburður milli lágmarkslauna annarsvegar og hámarkslauna hinsvegar. Útkoman, 150%, gefur því ekki rjetta hugmynd um hækkunina samkv. frv., en á að vera annaðhvort 50% eða 82%, eftir því, hvort tekin eru byrjunarlaun eða hámarkslaun. Munurinn er reiknaður rjett út í nál. meiri hl., og get jeg vísað til þess útreiknings.

Meiri hl. hefir ekki viljað ganga inn á, að það væri rjett, að yfirsetukonur vanti í jafnmörg umdæmi og minni hl. heldur fram. Meiri hl. vill ekki trúa því, að yfirsetukonur vanti í 30 umdæmi. Í nál. hans er það haft eftir landlækni, að honum hafi engar kvartanir borist um vöntun yfirsetukvenna. Í tilefni af þessum ununælum vil jeg geta þess, að jeg hefi í höndum brjef frá yfirsetukvennafjelaginu hjer, þar sem þess er getið, að stjórn fjelagsins hafi átt tal við landlækni, og neiti hann því, að þessi ummæli sjeu rjett hermd eftir sjer. Jeg skal taka það fram, að jeg geri alls ekki ráð fyrir, að hv. meiri hl. fari hjer viljandi með rangt mál, heldur sje um misskilning að ræða á orðum landlæknis.

Hv. meiri hl. byggir staðhæfingu sína um það, að yfirsetukonur sjeu nógu margar, á skýrslum úr gerðabók ríkisgjaldanefndar. Og það er rjett, að af þeim skýrslum verður ekki beinlínis annað sjeð, en að þjónandi yfirsetukonur sjeu í öllum umdæmum. Þó er það tekið fram, að sumar yfirsetukonur þjóni 2 umdæmum, eða þá að tvær skifti einu umdæmi milli sín. Þegar mjer barst nál. í hendur, sneri jeg mjer til stjórnar yfirsetukvennafjelagsins og bað um umsögn þess og skýringu á ýmsum atriðum í álitinu, einkum viðvíkjandi vöntuninni. Hefir mjer nú borist svar frá henni, og skal jeg leyfa mjer að geta hins helsta, sem þar er tekið fram.

Þess er þá fyrst getið, að í skýrslum ríkisgjaldanefndar sjeu umdæmin talin 205, en ljósmæðurnar 189. Eftir þeim skýrslum vantar því 16 ljósmæður. Ennfremur er það að athuga, að umdæmin eru að rjettu lagi 210, auk kaupstaða. Þá vantar 21. Þá getur stjórn fjelagsins þess, að sjer sje kunnugt um, að 5 konur, sem nú gegni ljósmóðurstörfum, sjeu með öllu ólærðar. Má þá færa tölu lausu umdæmanna upp í 26. Þá bendir stjórn fjelagsins á það, að síðan 1926 hafi mörg umdæmi losnað, og engar ljósmæður fengist í þau. Er þess getið, að í Suður-Múlasýslu hafi 3 umdæmi verið auglýst til umsóknar árangurslaust, og í Strandasýslu eitt. Loks er þess að gæta, að þó að 2 ljósmóðurumdæmi sjeu sameinuð, af því að ekki er annað hægt, þá er rangt að telja þau fullskipuð.

Stjórn fjelagsins bendir líka á, að helst sje slengt saman þeim umdæmum, sem síst skyldi, nefnil. þeim strjálbýlustu, því að þar gengur verst að fá yfirsetukonur, „enda munu fáir vera ánægðir með það fyrirkomulag“, segir í brjefinu.

Jeg sje ekki ástæðu til að angra neina hv. þm. með því að lesa meira.

Af því, sem jeg nú hefi sagt, er auðsætt, að stjórn ljósmæðrafjelagsins hefir í brjefi sínu til mín fært fullar sönnur á, að lærðar yfirsetukonur vantar nú raunverulega í eigi færri en 30 umdæmi.

Hvernig stendur nú á því, að verið er að slengja saman tveimur umdæmum og setja eina yfirsetukonu þar? Það er vitanlega vegna þess, að ekki er hægt að fá ljósmæður svo sem þörf er á, vegna launakjaranna, en það sýnir einmitt, hversu rjettmætt þetta frv. er. Mjer þótti líka rjett að láta brjefið frá ljósmæðrafjelaginu tala í þessu máli, því þær hafa mesta þekkingu á þessu, þar sem þær standa í stöðugu sambandi við ljósmæður úti um land og vita því best, hvar skórinn kreppir.

Jeg mintist aðeins á dýrtíðaruppbót, er prestarnir fengu á síðasta ári, í því skyni að sýna, að það væri ekki ófrávíkjanleg regla, að allir starfsmenn hins opinbera yrðu að bíða eftir endurskoðun launalöggjafarinnar. Eftir fordæminu með prestana mætti einnig taka yfirsetukonurnar nú.

Það kemur greinilega í ljós, að meginatriðið í ástæðum hv. meiri hl. n. er það, að hann vill sýna fram á, að þær launabreytingar, sem hjer er um að ræða, sjeu fremur í vil hinum hæstlaunuðu heldur en þeim lágt launuðu, og það er sannast að segja, að svo framarlega sem hv. meiri hl. gæti fært rök fyrir því, þá mætti segja, að ætti að taka tillit til þess. En þegar litið er að öðru leyti á þessa grg. hv. meiri hl., og hún er borin saman við þau raunverulegu laun, sem yfirsetukonurnar hafa, þá skal jeg sýna fram á, að það staðfestist æ betur og betur, að sú launahækkun, sem hjer er um að ræða, kemur sjerstaklega til góða þeim ljósmæðrum, sem illa eru launaðar.

Hv. meiri hl. hefir reiknað út, hvernig þessi launviðbót myndi koma fram á ýmsum stigum. Það hefði nú mátt ætla, að hv. meiri hl. hefði í þessari grg. sinni tekið upp yfirsetukvennaumdæmi eins og þau eru og reiknað launin eftir þeim, en svo er ekki; hjer eru aðeins búin til reikningsdæmi, launin sýnd í ýmsum stigum, en þau hjeruð eru ekki til í landinu, sem mikið af útreikningnum er miðað við. En þrátt fyrir allar tilraunir hv. meiri hl. til þess að sýna fram á, að meira tillit sje tekið til hinna hátt launuðu heldur en þeirra lágt launuðu, þá verður samt niðurstaðan í nál. þeirra sú, að meira tillit sje tekið til hinna lágt launuðu, því að það er játað þar, að hámarkslaun hinna lágt launuðu hækki um 82%, en hjá hinum hátt launuðu ekki nema um 50%.

En það, sem er aðalatriðið í þessu máli, er það, hvernig þessi launahækkun kemur niður, og skal jeg þá fyrst tala um hámarkslaunin. Þá er fyrst gert ráð fyrir því, að laun, sem samkv. lögunum frá 1919 eru ákveðin 1000 kr., verði samkv. þessum lögum 1500 kr. En nú er að athuga það, hve margar yfirsetukonur á landinu það verða, sem njóta þessarar hækkunar, og það sýnir sig, þegar til kemur, að það eru aðeins þrjár yfirsetukonur á öllu landinu, sem þessi hækkun nær til.

Menn vilja ef til vill segja, að það sje ekki mikil ástæða til þess að vera að hækka laun þeirra, sem mest laun hafa, en því er aftur til að svara, að því er þessar yfirsetukonur snertir, að þær verða að afla sjer alveg sjerstakrar mentunar. Það eru gerðar kröfur til að þær sigli og afli sjer meiri mentunar en ljósmæður alment hafa, og sjeu sem hæfastar til starfsins, vegna þess að þær eiga að kenna ljósmæðrum, sem þær verða að gera fyrir mjög lág laun. En það vita allir, hvaða þýðingu það hefir, að þær ljósmæður sjeu vel valdar, sem hafa slíka kenslu á hendi. Þessi hækkun, sem hjer er um að ræða, kemur aðeins á þrjár yfirsetukonur í Reykjavík; taki maður Hafnarfjörð og Vestmannaeyjar með, þá fá ljósmæðurnar þar um 1200 kr. laun, svo að það verður, eftir því sem stjórn yfirsetukvennafjelagsins segir, engin hækkun, hvorki á byrjunarlaunum nje hámarkslaunum þeirra.

En líti maður nú aftur á móti á lágu launin, þá kemur það merkilega fram í þessu máli, og sem hv. meiri hl. n. hefir ætlað sjer að læðast fram hjá með því að búa til þetta yfirlit yfir launakjörin. Þá kemur nefnilega það merkilega fram, að á lægsta stiginu eru um 140 yfirsetukonur, sem eru með 200 kr. lágmarkslaun, og í þessu liggur hin alvarlega sönnun fyrir því, að þessi lækkun kemur aðallega fram á þeim, sem lægst eru launaðar. Frekari sannana þarf ekki við.

Mjer virðist, að öllum muni nú vera það ljóst, að það þarf ekki að gera sjer neina sjerstaka fyrirhöfn til þess að hrekja þær ástæður, sem fram eru færðar í nál. hv. meiri hl. n. Mjer sýnist, að þessar tölur, sem jeg hefi bent á, og ýms atriði, sem stjórn ljósmæðrafjelagsins hefir tekið fram, og eins þegar litið er á það, hve mikið far hv. meiri hl. n. hefir gert sjer um það, að verja málstað sinn, þá get jeg ekki ímyndað mjer annað, en að þeir menn, sem óhlutdrægt lesa nál., finni til þess, að það er svo langt frá því, að hv. meiri hl. hafi tekist að sanna það, sem hann vildi. Það er þvert á móti svo, að þó hann tali um, að hækkunin sje meiri hjá þeim, sem hæst launaðar eru, þá sýnir það sig, þegar farið er að rannsaka nál., að það eru aðeins þrjár yfirsetukonur, sem njóta þessarar miklu hækkunar en 140, sem eru á lægsta stigi. En þrátt fyrir það, þó að þetta sje bæði staðfest af ríkisgjaldanefnd og stjórn yfirsetukvennafjelagsins, þá er því samt haldið fram af mesta ofurkappi í umr., að hjer sje verið að berjast fyrir þær háttlaunuðu, en ekki fyrir þær, sem lægst hafa launin. Ennfremur verður að líta á það, að sumir bæirnir hafa orðið að fara hærra um launagreiðslur heldur en gildandi lög ákveða, til þess að geta fengið góðar yfirsetukonur. Það er sem sagt enginn vafi á því, að í bæjunum skilja menn, hvað það þýðir að hafa góðar og vel mentaðar ljósmæður. Ef t. d. ætti að fara að lækka laun ljósmæðra hjer í Reykjavík, svo að hingað fengist aðeins miðlungs ljósmæður, þá myndi það alls ekki verða þolað. Svo kalla jeg líka, að þeir, sem sjerstaklega mæta hjer fyrir sveitaumdæmi, þeir sjeu sannarlega hógværir og af hjarta lítillátir, þegar þeir láta sjer það nægja, að það sje slengt saman tveimur umdæmum, og svo kannske sett í það ljósmóðir, sem ekkert hefir lært, en hirða ekkert um að fá til starfans ljósmóður, sem hefir eins góða þekkingu og nú er kostur á hjer á landi, — það virðist mjer óþarflega mikil nægjusemi.

Þegar hv. frsm. meiri hl. n. tekur til máls á eftir, þá vona jeg, að hv. þm. muni eftir því, sem jeg hefi sagt hjer, að það eru þrjár yfirsetukonur í Reykjavík, sem fá þessa miklu hækkun, sem hv. þm. ofbauð svo mjög, en 140 yfirsetukonur á lægsta stigi. En hverjar eru svo þessar kröfur, þótt alt verði samþ., sem farið er fram á í þessu frv.? Þá fá þessir starfsmenn hins opinbera alls ekki svo mikil laun sem ýmsar vinnukonur hjer í Reykjavík. Það er von, að mönnum ofbjóði, að það skuli varla vera nokkur einasta ljósmóðir í sveitum þessa lands, sem fær meðal vinnukonulaun.

Jeg held, að jeg verði að lána hv. frsm. meiri hl. þetta brjef, sem stjórn ljósmæðrafjelagsins hefir skrifað mjer; jeg er alveg sannfærður um, að hv. þm. gæti lært ýmislegt af því, sem hann á enn eftir að læra.

Hv. meiri hl. segir, að útgjaldaauki af frv. þessu, ef það verði að lögum, muni nema fullum 50 þús. kr., auk þeirrar dýrtíðaruppbótar, sem stafi af launahækkuninni. Jeg veit ekki, á hvaða útreikningi þetta er bygt; að minsta kosti getur hv. meiri hl. ekki bygt á þeim mikla útreikningi, sem hann birtir hjer í nál. sínu.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að eyða fleiri orðum um þetta mál að sinni; málið talar líka best fyrir sjer sjálft, og jeg vona, að hv. þdm. hafi nú sjeð það, að þau rök, sem hv. meiri hl. n. hefir fært fyrir sínum málstað, eru mjög lítilfjörleg.