02.04.1929
Neðri deild: 34. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í C-deild Alþingistíðinda. (2468)

51. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. meiri hl. (Hannes Jónsson):

Með sólskinsbrosi á vörum lagði hv. þm. Dal. út af því, hvað við meiri hl. n. værum nægjusamir. Jeg held, að hv. þm. hefði unnið þjóð sinni meira gagn, ef hann hefði verið ósköp lítið nægjusamari um dagana, heldur en hann hefir verið. Það er einmitt það, sem okkur vantar, að vera það nægjusamir sem samsvarar okkar eigin getu og þjóðarinnar, til þess að fullnægja kröfunum.

Hv. þm. Dal. vildi reyna að sanna það, að meiri hl. n. færi með staðleysur, þegar hann efaðist um, að það væri rjett hjá hv. minni hl., að það vantaði yfirsetukonur í 30 umdæmi á landinu. Jeg get nú ekki sjeð það, af því sem jeg hefi blaðið í þessari bók, gerðabók ríkisgjaldanefndar, af þeim skýrslum, sem þar eru birtar, að það sje nema 199 yfirsetukvennaumdæmi í landinu, utan kaupstaða, en á öllu landinu eru ekki nema 204 hreppar, og margir þeirra sameinaðir í eitt umdæmi; í einni sýslu eru t. d. fimm hreppar, sem hverfa úr tölunni, svo það mega vera allmargir hreppar á landinu, sem er skift í tvö yfirsetukvennaumdæmi, til þess að fleiri verði en áður eru talin.

Samkv. þessari sömu skýrslu voru þjónandi yfirsetukonur utan kaupstaða 1926 189; ætti þá að vanta yfirsetukonur í 10 umdæmi, en þess er getið í nál. meiri hl., eins og hv. þm. Dal. hefir veitt eftirtekt, að sumar yfirsetukonur þjóna tveimur umdæmum, og því hæpið að segja, að þar vanti yfirsetukonur, ekki síst þar sem fult samkomulag hefir orðið um þetta hjá hlutaðeigandi umdæmum. Það virðist vera fullkomin ástæða til að efast um, að fullyrðing sem þessi, að í 30 yfirsetukonuumdæmi vanti yfirsetukonu, sje á rökum bygð.

Árið 1912 gerði landlæknir allítarlegar rannsóknir um alt, sem snerti launakjör og starfsemi yfirsetukvenna; m. a. rannsakaði hann það og athugaði, hver meðalembættisaldur yfirsetukvenna væri, og komst hann að þeirri niðurstöðu, að hann væri 20 ár. — Ef nú væri gert ráð fyrir, að 200 yfirsetukvennaumdæmi sjeu á öllu landinu, þá ætti að þurfa að útskrifast árlega tíu yfirsetukonur, til þess að fullnægja eftirspurninni, en síðastliðin tíu ár hafa til jafnaðar útskrifast tólf á ári, og er það tveimur fleira en þarf til að fullnægja þörfinni.

Hv. frsm. minni hl. vildi halda því fram, að það, sem haft er eftir landlækni í nál., hafi verið skakt, en jeg hygg, að það sje útilokað, en hitt gæti átt sjer stað, að málið hefði verið flutt eitthvað öðruvísi við hann en nál. gefur tilefni til. Vil jeg þó ekki fara mikið út í það. Jeg vil aðeins benda á það, að þetta átti ekki að skiljast svo, að aldrei hefði á þessu árabili verið þörf á yfirsetukonum, heldur hitt, að þörfinni hafi verið fullnægt, og mjer þykir það einkennilegt, ef eitthvert hjerað hefir ekki fengið þörfinni fullnægt, að það hafi þá ekki gert umkvörtun á þessu ári, en það hygg jeg, að hvorki yfirsetukvennafjelagið nje hv. þm. Dal. geti fengið yfirlýsingu landlæknis um, að hann hafi fengið áskorun í vetur þess efnis, að útvega yfirsetukonu. Að sjálfsögðu má gera ráð fyrir, að losni um tíu umdæmi á ári, en þar sem tólf ljósmæður útskrifast á ári, þá þykir mjer líklegt, að þau umdæmi geti fengið hæfan embættismann.

Eins og jeg hefi áður tekið fram, þjóna nokkrar yfirsetukonur tveimur umdæmum, en það er alls ekki fyrir þá ástæðu, sem hv. frsm. minni hl. vill halda fram. Jeg hefi sannanir fyrir því, að þar sem þetta fyrirkomulag er, sumstaðar, þá hafa hlutaðeigandi hjeruð ekki kært sig um annað; þau hafa verið ánægð með það, þótt yfirsetukona annars umdæmis þjónaði hjá þeim. Það hefir líka sýnt sig nokkur undanfarin ár, að alt stefnir meira og meira í þá átt að stækka þessi umdæmi og láta þau renna saman eftir því sem hægt er, og jeg sje ekki annað, en að það sje fullkomlega rjettmætt, ef það starf kostar svo mikinn lærdóm sem hv. minni hl. n. vill halda fram, að nota þá þessa lærðu krafta sem best. Þetta verður líka því auðveldara á landi voru, þar sem nú er sú breyting allvíða á orðin, að í sumum sveitum, þar sem áður þurfti 2–3 tíma ferð á hestum, má nú kannske þjóta yfir í bifreið á 15–20 mínútuni.

Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um þá breytingu, sem gerð var á launakjörum prestanna, þ. e. a. s. launin sjálf voru látin standa óbreytt, eftir því sem lögin ákveða, en dýrtíðaruppbótin var færð í það horf, að þeir fengu fulla dýrtíðaruppbót eins og aðrir embættismenn. Jeg get þess vegna ekki viðurkent, að hægt sje að segja, að þar sje verið að gera neina gagngerða breytingu á launum þeirra. Það er heldur ekkert við því að segja, þótt yfirsetukonur fái dýrtíðaruppbót á laun sín, eins og nú er orðið, en ef þessi launahækkun, sem hv. minni hl. n. ætlast til, verður samþ., þá býst jeg við, að verði allþröngt fyrir dyrum vegna umkvartana annara embættismanna, sem með engu minni rjetti gætu beiðst hækkunar á launum sínum.

Jeg held, að ef ætti að launa öðrum embættismönnum þjóðarinnar í hlutfalli við þetta, þá myndi mörgum þykja helst til langt gengið. Þó ber þetta engan veginn svo að skilja, að laun yfirsetukvenna eigi ekki að breytast, heldur álít jeg, að hv. þm. verði að hafa það hugfast að gera ekki einum hærra undir höfði en öðrum. Hv. frsm. vildi vefengja orð mín, en hann gat ekki neitað því, að rjett væri með tölur farið, og að hjer væri verið að ganga á rjett þeirra, er lægst hefðu launin, en hann þvoði hendur sínar með því, að hjer í Rvík væru aðeins 3 yfirsetukonur, sem nytu þessara launa, en fjöldi úti um land. Það hefir ekki áhrif á eðli málsins, hvað margar yfirsetukonurnar eru, en það hefir áhrif á pyngjuna, sem á að greiða þeim launin. Hjer er líka verið að vinna fyrir þær hálaunuðu, en ekki þær láglaunuðu; þær njóta ekki þessarar launahækkunar fyr en eftir 12 ár frá því, er launin ganga í gildi, þótt þær hafi áður verið búnar að gegna þessum störfum í 12 eða jafnvel 20 ár, og það er ranglæti gagnvart þeim, því að þær fá engin hlunnindi við þessa launauppbót. Þetta mál kom fyrir í efri deild í fyrra, en þá þótti ekki nógu vel frá frv. þessu gengið, en nú kemur það fram hjer með svipuðum göllum. Það sýnir, að þetta mál er ekki flutt af eins mikilli alvöru og önnur mál, heldur hafa hv. flm. leitað að einhverju formi til að fullnægja kröfunum, sem hlutaðeigendur hafa gert, og harðvítugum óskum þeirra. Þeir hafa ekki verið að leita eftir rökum, og þeir hafa ekki heldur haft fyrir því að fletta upp í Alþt., til þess að athuga, hvaða útreið frv. fjekk í Ed. í fyrra, en það hefði hv. flm. átt að gera ef þeir hefðu viljað, að frv. kæmi að liði. Þá talaði hv. þm. um það, að bæir hefðu orðið að borga hærri laun en lög standa til, en það er mjer ekki kunnugt um. En hvers vegna er þá farið að pota þessu inn í lögin, ef yfirsetukonurnar hafa þegar fengið launauppbót hjá bæjunum? Mjer vitanlega hafa engar umkvartanir komið, t. d. frá bæjarstjórn Rvíkur, eða óskir um það, að launin verði hækkuð. Eftir þessum ummælum hv. þm. ættu 3 yfirsetukonur að fá þessi laun, en jeg veit að minsta kosti um 7, sem eru hjer „praktiserandi“ og fá engin laun, en virðast þó una vel hag sínum, og það sýnir, að þessi staða borgar sig, og að aðaltekjurnar fá þær sem aukatekjur, þær eru aðalkeppikeflið, því að annars myndu konurnar ekki hirða um slíkan starfa. Jeg get játað það góðfúslega, að í nál. meiri hl. er útgjaldaaukinn ekki reiknaður út nákvæmlega. Það kemur til af því, að í frv. er styttur sá tími, sem þarf til að ná hæstu launum, um 3 ár. Hv. þm. Dal. vitnaði í Hafnarfjörð og Vestmannaeyjar, en jeg vil benda honum á það, að á þessum stöðum hækka lágmarkslaun aðeins um 22%, en hámarkslaun um 37%. (SE: Hvað reiknar hv. þm. með mörgum mönnum í Vestmannaeyjum?). Þar eru 3370. (SE: Svona er allur útreikningurinn vitlaus, því að í Vestmannaeyjum eru 2 umdæmi). Jæja, það er gott, að hv. þm. Dal. gefur þessa upplýsingu, því hún verður til að sýna betur en nokkuð annað, hversu þetta frv. er fráleitt því að fullnægja rjettlætinu í þessu launamáli. Með því að Vestmannaeyjum er skift í 2 umdæmi verður launahækkunin aðeins 2–3%, en hefði annars orðið 22%. Hvaða vit er í þessu? Og hvaða vit eða rjettlæti er í því, að hækka laun yfirsetukvenna í Rvík um 50%, þegar launahækkunin í Vestmannaeyjum er aðeins 2–3%? Þetta ætti að sýna, hversu kastað hefir verið höndunum til frv. þessa og að hv. flm. hafa vaðið í villu og reyk, er þeir sömdu það. Ósamræmi í launakjörunum er óhafandi, og því eiga lögin um laun yfirsetukvenna að bíða þar til launalögin verða endurskoðuð, löguð og leiðrjett. Hvaða sennileg ástæða er til þess, að launalög eigi að vera svo vitlaus, að þau hækki launin á öðrum staðnum um 50%, en lækki á hinum um 12%, svo framarlega sem núverandi hlutföll sjeu rjett? Þetta er ekki sú rjetta leið, og jeg skil ekki, að hv. deild geti gengið að þessu frv. meðan það er svona. Það mætti segja ýmislegt um þetta mál ennþá, en jeg vil þó aðeins taka það fram, að hjer gætir svo mikils ósamræmis, að hv. þm. ber að athuga það nákvæmlega, áður en þeir taka afstöðu til þess. Jeg get að vísu játað það, að sum hjeruð eru of lágt launuð, en þetta mál þarf að athuga með sanngirni og nákvæmni, því að auðvitað er þessum lögum ætlað að standa um langan tíma, og mitt álit er það, að þessi lög geti gjarnan beðið þangað til endanleg rannsókn verður látin fara fram.