02.04.1929
Neðri deild: 34. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í C-deild Alþingistíðinda. (2469)

51. mál, yfirsetukvennalög

Fjmrh. (Einar Árnason):

Jeg hefi á undanförnum þingum svo oft haft tækifæri til að tala um þetta mál, að jeg mun láta mjer nægja í þetta sinn að segja aðeins örfá orð. Þetta frv. fer fram á, að bætt verði launakjör eins flokks starfsmanna, en mitt álit er það, að ekki sje rjett að gera það fyr en launalögin verða tekin fyrir í heild sinni. Frá mínu sjónarmiði eiga þessi ákvæði að fara saman með hinum, og það mun ekki líða á löngu, þar til lögin verða endurskoðuð. En jeg álít, að fyrst verði menn að hafa gengið úr skugga um, hvert verði verðgildi krónunnar, svo að hægt verði að byggja á því og hafa þar fastan grundvöll fyrir. Þetta var það, sem jeg þurfti að segja, en jeg get ekki látið hjá líða að lýsa undrun minni yfir því, að þetta frv. skuli koma hjer svo fram, að það er í rauninni óframbærilegt. (SE: Hvað er óframbærilegt í því?) Jeg kem að því síðar. Þegar jeg talaði í máli þessu í Ed. í fyrra, benti jeg á ýmsa galla, sem mjer virtust vera á frv., og menn voru mjer þar samdóma, en nú hefir flm. komið með það fram hjer, án þess að lagfæra það hið minsta eða taka til greina þær breytingar, sem á því voru gerðar þar, þannig að frv. væri frambærilegt. Þetta frv. miðar ekki að því að bæta kjör þeirra, sem lægst laun hafa, og ekki er þar heldur tekið fram, hver á að greiða dýrtíðaruppbótina. Á þetta benti jeg við umr. í fyrra, og var þá fult tillit tekið til þess. Á frv. þessu er ennfremur sá agnúi að ekki er hægt að sjá, hvort yfirsetukonur eigi að taka byrjunarlaun strax og lög þessi ganga í gildi, en jeg álít, að svo sje, eftir frv. að dæma, en það virðist þó ósanngjarnt. Jeg læt hv. þing um að skera úr því, hvort svo sje eða ekki, en jeg álít sanngjarnara að reikna með þjónustualdurinn. Jeg hefi svo ekki meira um þetta mál að segja, en læt skeika að sköpuðu um afdrif þess hjer í deildinni, en jeg vildi að eins skýra mína afstöðu til málsins.