09.04.1929
Neðri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í C-deild Alþingistíðinda. (2475)

51. mál, yfirsetukvennalög

Magnús Torfason:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. við þetta frv. — Eins og við vitum, þá liggur við borð, að það verði yfirleitt athuguð launakjör starfsmanna ríkisins. Þess vegna verð jeg að líta svo á, að það sje ekki vert, á meðan það er ógert, að gera stórbreytingar á launakjörum einstakrar stjettar, og þá allra síst að breyta því launakerfi, sem til þessa hefir verið fylgt.

Að því er þetta frv. snertir, sem hjer liggur fyrir, þá er breytt talsvert launamátanum. Það er ekki látið nægja að hækka launin að nokkru frá því, sem áður var, heldur er launamátanum algerlega breytt. Sjerstaklega stakk það í stúf við aths. frv. og lögin frá 1919, að yfirsetukonur í hjeruðum, sem hafa frá 350–1000 manns, fá enga viðbót að tiltölu við mannfjölda í umdæmunum, og af því leiðir, að þeirra launakjör verða lítið bætt með þessu. Nú er það svo, að í fámennu umdæmunum, sem hafa 300 íbúa og þar fyrir neðan, er þetta starf mjög ljett, þar sem ekki eru nema þetta 3–6, að 8 fæðingum árlega. Má því segja, að það sje vel borgað, þó að launin sjeu ekki yfir 500 kr. Ef miðað er við fæðingar, þá er þetta sjerstaklega góð borgun, og það jafnvel miklu betri en t. d. læknar hafa. Jeg veit til þess, að ýmsar yfirsetukonur hafa fengið frá því opinbera á 2. hundruð krónur fyrir hvert barn, er þær hafa tekið á móti. Þetta verður að teljast sjerstaklega góð borgun, þegar þar við bætist það, er einstakir menn borga og sem oft getur verið ríflega úti látið. Þetta starf er því í þessum litlu umdæmum algert aukastarf, svo að konur þær, er hafa það með höndum, geta sint fullkomlega annari atvinnu sinni.

Öðru máli er að gegna þar, sem fjölment er, t. d. þar sem eru 6–7 hundruð íbúar. Þar er þetta nokkuð mikið starf. Og ef þjettbýlt er, þá leita konur að jafnaði til yfirsetukvennanna í fleiri tilfellum en ef um fæðingar er að ræða. Þessar konur geta því varla haft annað starf með höndum, því þær þurfa altaf að vera viðbúnar. Það eru þessar konur, er verða verst úti samkv. frv. hv. þm. Dal. Því þar er lagt svo fyrir, að launahækkunin byrji þá fyrst, er íbúatala umdæmisins er orðin 1000 eða þar yfir, en fyrir utan kaupstaðina mun aðeins eitt slíkt umdæmi vera til. Með öðrum orðum, að þær, er nú verða verst úti, fá litla eða enga launahækkun. Þá eru samkv. þessu frv. bætt laun þeirra, er hæst hafa nú, en eftir því, sem fram hefir komið hjer í deildinni og víðlesnu blaði, þá er ekki vafi á því, að yfirsetukonur í kaupstöðum hafa það ágætt, enda eru þær stöður mjög eftirsóttar.

Við höfum því viljað fara bil beggja í þessari brtt. okkar. Og jeg verð að líta svo á, að það sje góð launabót fyrir þær, er lægst hafa, að fá 140 kr. uppbót strax, sem svo hækkar með aldri. Það verður með öðrum orðum ekki hægt að segja annað en að þessar konur í minstu umdæmunum fái góð kjör, og hinar í umdæmunum, sem hafa þetta frá 400–1000 íbúa, fái sæmilega launauppbót.