09.04.1929
Neðri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í C-deild Alþingistíðinda. (2476)

51. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. minni hl. (Sigurður Eggerz):

Jeg get að mestu leyti vísað til þess, er jeg hefi áður sagt í þessu máli. Jeg flyt hjer 2 brtt., og hefir þeim áður verið að mestu lýst í umr. Þessar brtt. flyt jeg samkv. tilmælum hæstv. fjmrh. Efni þeirra er það, að dýrtíðaruppbót skuli greidd á laun þessi eftir þeim reglum, er gilda um starfsmenn ríkisins, og að þær yfirsetukonur, sem skipaðar hafa verið áður en lög þessi öðlast gildi, skuli njóta launahækkunar eftir þjónustualdri.

Hvað snertir brtt. þeirra hv. þm. V.- Húnv. og hv. 2. þm. Árn., þá er það um hana að segja, að hún er ákveðin tilraun til þess að draga úr launauppbót yfirsetukvennanna, og í sama anda eins og þessir hv. þm. hafa talað gegn frv. því, er hv. meiri hl. þessarar deildar hefir nú fallist á, og sem hv. 2. þm. Árn. kallaði frv. þm. Dal. En það er ekki rjett, því það eru margir fleiri, sem að því standa.

Með tillögum hv. 2. þm. Árn. og hv. þm. V.-Húnv. eru laun hinna lægst launuðu yfirsetukvenna hækkuð um 100 kr. fyrir hverja yfirsetukonu frá því, sem gert er ráð fyrir voru frv. En það var einmitt tilætlunin, að hækka laun þeirra lægst launuðu, enda flestar yfirsetukonur í lægsta launaflokki, en aðeins 3 í hæsta flokki, sem af sjerstökum ástæðum verður að launa vel, vegna kenslustarfa þeirra, sem þær hafa á hendi.

Jeg vona svo, að þeir, er samþ. þetta frv. við 2. umr., verði sjálfum sjer samræmir og haldi sömu stefnu í málinu. En hitt get jeg vel skilið, að þeir, er á móti standa, geri hvað sem þeir geta til að draga úr frv., fyrst þeir ekki geta kveðið það niður. Það er ekki nema eðlilegt og skiljanlegt. Skal jeg svo ekki orðlengja þetta frekar, og vísa að öðru leyti til þess, er jeg hefi áður sagt.