09.04.1929
Neðri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í C-deild Alþingistíðinda. (2477)

51. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. meiri hl. (Hannes Jónsson):

Jeg vil alls ekki gera lítið úr hv. flm. þessa frv. með þessum brtt. mínum, en jeg verð líka að taka tillit til getu ríkissjóðs, þegar á að skamta embættismönnum.

Þessar brtt. hafa þegar verið skýrðar af hv. 2. þm. Árn. Jeg skal aðeins bæta því við, að till. er færð í það sjálfsagða horf, að gera breytingarnar á lögunum frá 1912, og færa þær svo inn í meginmál þeirra laga, í stað þess að færa þær inn í meginmál laga frá 1917, um breytingu á lögunum frá 1912. Þetta er eitt vitni þess, hve hv. flm. frv. hafa kastað til þess höndunum. Yfirleitt má um það segja, að það sje mjög vanhugsað, og er leitt til þess að vita, að hv. þm. skuli vilja flytja frv., sem þeir nenna ekki að hugsa svo mikið um, að þeir láti það fara frá sjer nokkurnveginn stórlýtalaust. Það er rjett eins og sumir hv. dm. hafi orðið dáleiddir af þessum yfirsetukonum, sem hjer hafa verið á sveimi í þingsölunum.

Það er rjett hjá hv. flm. frv., að brtt. okkar miða að nokkurri lækkun frá frv. þeirra. En samt er um nokkra hækkun að ræða frá því er nú gildir. Mun hún nema ca. 100 kr. á byrjunarlaununum og 25 kr. á aldursuppbótinni. Auk þess er tíminn til þess að ná fullri aldursuppbót styttur um (SE: Hv. þm. vill þá hækka). Nei, en maður dregst með straumnum og gerir þá það sem hægt er, til þess að forða því, að farið verði út í öfgar. Jeg geri ráð fyrir því, að ef till. okkar verða samþ., þá muni það nema 25 þús. kr. hækkun á byrjunarlaununum, eða 35 þús. kr. með dýrtíðaruppbót. Er það allmiklu minna en það, sem frv. fer fram á.

Annars fæ jeg ekki skilið, á hverju það ósamræmi í launalöggjöfinni á að byggjast að lækka á sumum um 12%, en hækka á öðrum um 82%. Enda hafa flm. frv. ekki reynt að færa neinar ástæður fyrir því. Það eina, sem þeir hafa fært fram máli sínu til stuðnings, er það, hve erfitt sje að fá yfirsetukonur í sum hjeruð. En jeg hefi fært skýr rök að því, að þetta er ekki rjett. Og þó að eitthvert yfirsetukonuumdæmi væri svo lítið, að ekki fengist yfirsetukona í það, þá sje jeg ekki, að ástæða sje til að hækka laun allra hinna, til þess að fá yfirsetukonu í þessi örfáu umdæmi, sem enn kann að vanta yfirsetukonu í. Auk þess verð jeg að líta svo á, að það sje of hátt fyrir ríkið, að launa slík umdæmi með 700 kr.

Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta. Býst jeg við því, að hv. þm. hafi þegar svo ákveðnar skoðanir í þessu máli, að þeim verði ekki haggað. En jeg hefi gaman af því að sjá, hverjir hv. þm. eru svo hirðulausir um hag ríkissjóðs, að þeir horfa ekki í það, þó kastað sje árlega úr honum 70 þús. kr. að óþörfu. Og jeg hefi gaman af að sjá, hverjir verða til þess að rjetta upp hendina á móti því, að þetta verði fært í betra horf, eins og till. okkar stefna að. Við erum að vísu alls ekki ánægðir með þær, en við teljum þær þó til nokkurra bóta frá því, sem frv. ætlast til.