07.05.1929
Efri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í C-deild Alþingistíðinda. (2484)

51. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Á síðasta þingi var borið fram hjer í Ed. frv., sem var að mestu leyti samhljóða því, er hjer má sjá á þskj. 305. Hefir þetta mál oft verið til umr. hjer, og oftast átt mikið til óskift fylgi þessarar hv. deildar. (Fjmrh.: Ekki allra dm.). Já, jeg man eftir því, að það hafa verið 2 atkv. á móti því venjulegast, en það kalla jeg mikið til óskift fylgi.

Jeg álít nú, að ekki þurfi að ræða þetta mikið, því það hefir verið rætt hjer mikið á hverju þingi. Fæ jeg ekki annað skilið en að það nái nú fram að ganga, því svo hefir nú við brugðið, að hv. Nd. hefir samþ. þetta mál og afgreitt það í því formi, er það var afgr. úr þessari hv. deild á síðasta þingi. Aðeins er á frv. sá formgalli, að þar er ekki vitnað í lögin frá 1912 í 1. gr. þess, og þóttist skrifstofa Alþingis eigi geta gert þessa leiðrjettingu á frv. og er því ekki annað að gera en að samþ. brtt. á þskj. 402 í nál. meiri hl.

Um kjör yfirsetukvennanna þarf ekki að ræða. Það hefir áður verið gert ítarlega hjer í þessari deild. En vegna þeirra, er ekki hafa átt hjer sæti áður — það mun reyndar ekki vera nema einn — skal jeg geta þess, að eftir þeim upplýsingum, sem liggja fyrir, er mjög erfitt að fá yfirsetukonur, vegna þess hve launin eru lág. Þau eru núna í hinum lægsta flokki 200 kr. á ári, en á 15 árum geta þau hækkað í alt og alt um 75 kr.

Hve mikilsverð þessi störf eru, þarf ekki að tala um. Nú hafa allir starfsmenn hins opinbera fengið kjör sín bætt, þó að það að vísu sje ekki eins mikið og skyldi. En þessi stjett hefir orðið algerlega útundan og verður nú að sætta sig við laun, sem í raun og veru eru algerlega óboðleg. Bætur þær á kjörunum, sem fram á er farið, eru heldur ekki stórtækar. Er gert ráð fyrir því í frv., að í lægri flokkunum geti launin hækkað upp í 500 kr.

Sú stjett manna, er helst væri hægt að bera yfirsetukonurnar saman við, eru læknarnir. Og sje athugað, hvaða kjör þeir hafa, þá sjest það, að þeir hafa fengið launakjör sín mikið bætt, og það svo, að þeir munu nú vera meðal best launuðu starfsmanna ríkisins. Þetta stafar vitanlega af því, að Alþingi hefir álitið störf þeirra svo mikilsverð, að óhjákvæmilegt væri að setja þá skör hærra en aðra starfsmenn ríkisins. Enda er það og svo, að t. d. sveitalæknar þurfa mikið á sig að leggja. Alveg sama máli er að gegna með yfirsetukonurnar. Þær verða oft að leggja mjög mikið á sig. Þær verða að vera tilbúnar hvenær sem er, og verða að leggja út í ferðalög, hvernig sem veður er. Það er því algerlega rjettmætt, að þessi stjett, sem er sambærileg við þá starfsmenn ríkisins, sem best eru launaðir, fari fram á nokkra launabót, þar sem hún verður harðast úti hvað launakjör snertir af öllum opinberum starfsmönnum. Það væri því harla undarlegt, ef þessi hv. deild væri svo breytt orðin, að hún vildi ekki samþ. það, sem hún hefir áður samþ., og það því frekar, sem hv. Nd., sem ávalt hefir verið þessu máli andvíg, hefir nú samþ. það. Maður gæti þá haldið, að það væri leikur einn, sem hjer hefir verið að gerast á undanförnum þingum.

Hæstv. fjmrh. hefir borið hjer fram brtt., sem fara að vísu fram á að veita nokkra hækkun, en þó ekki eins mikla og samþ. var hjer í fyrra eða eins og nú er í frv. Jeg skal ekki tala frekar um þær, fyr en hæstv. ráðh. hefir talað fyrir þeim og skýrt þær. En það ætti þó öllum að vera skiljanlegt, að það starfsfólk, sem ekki hefir nema 200–300 kr. í laun, munar um það, hvort það fær 100 kr. meira eða minna.