07.05.1929
Efri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í C-deild Alþingistíðinda. (2492)

51. mál, yfirsetukvennalög

2492Jónas Kristjánsson:

Jeg vil aðeins minna á fáein atriði, sem máli skifta, en sem mjer finst, að ekki hafi komið fram í umr. Því hefir verið haldið fram, að starf yfirsetukvenna sje ekki annað en aukastarf; þær geti unnið öll venjuleg störf heima hjá sjer jafnframt því.

Þetta er alls ekki rjett. Ljósmæður verða að hafa hreinar og skurfulausar hendur og mega því ekki ganga í hvaða vinnu sem er, til dæmis í fjósi eða eldhúsi. Ef þær hafa ekki heilt og hreint hörund á höndum, stafar af því hin mesta hætta og getur orðið slys af. Yfirsetukonur geta að minsta kosti sjaldnast haft með sjer sótthreinsaða hanska, og er þá þess meiri nauðsyn á því, að þœr hafi hreinar, ósprungnar og heilar hendur, en það er því aðeins hægt, að þær hafi ekki öll erfiðustu heimilisstörfin að annast, sem geta bakað þeim sár og sprungur á hendurnar. Eins og menn vita, eru húsfreyjur á fámennum heimilum oft einyrkjar, svo að til þess að geta sint yfirsetukonustörfum, verða þær annaðhvort að hafa kaupakonu eða vinnukonu, en þetta kaup, sem þær hafa, er lítið hærra, eða jafnvel lægra, en kjör algengra vinnukvenna í kaupstöðum, og þá sje jeg ekki, að það sje um svo glæsilega góð kjör að ræða.

Það verður líka að gæta að því, að það er beinlínis hættulegt að borga þetta starf mjög illa, vegna þess að því lakar sem það er launað, því hættara er við, að í það veljist konur, sem tæplega eru verkinu vaxnar. Við læknar þekkjum það manna best, hve mikils virði það er, að hæfar konur veljist í þetta starf, því að þær þurfa oft að vera okkur til aðstoðar við að svæfa sjúklinga og gæta fárveikra sjúklinga á eftir, og þess vegna er það svo áríðandi að vel hæfar konur veljist í þessar stöður; en ef mjög er sjeð í launin af hálfu hins opinbera, þá er hætt við, að í þetta starf veljist þær konur, sem miður eru gefnar og sem síður eiga þá annars úrkosti. Það ber líka að athuga, að nú eru gerðar miklu meiri kröfur til yfirsetukvenna, að því er snertir þekkingu, hreinlæti o. fl. Það er líka svo, hvernig sem því annars er varið, að það er orðin miklu meiri hætta á bakteríu-afsýkingu, og þarf þess vegna miklu meiri varúðar við um alla sóttvörn nú heldur en var fyrir nokkrum áratugum síðan, eða meira hreinlætis þörf. Það eru nú gerðar margfalt meiri kröfur til yfirsetukvenna en var áður; þær verða að vera miklu lærðari og kunna störf sín miklu betur og miklu fleira í sambandi við þau, heldur en áður var, svo að það er ekki nema eðlilegt, að við læknar fylgjum þessu máli af áhuga, því að ljósmæður og læknar verða oft og tíðum að starfa mikið saman. Sömuleiðis fer best á því, að hver um sig sje sem færastur á sínu sviði.