07.05.1929
Efri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í C-deild Alþingistíðinda. (2493)

51. mál, yfirsetukvennalög

2493Guðmundur Ólafsson:

Það leiðir af sjálfu sjer, að það er sjaldnar, sem jeg tek til máls, af því að jeg er bundnari við stólinn en aðrir þm. þessarar hv. deildar. En í svona sjerstökum tilfellum, þegar mikið er að gera í deildinni, get jeg ekki stilt mig um að taka til máls, og eftir því sem getur að líta í suðurstofu þessarar deildar, þá sjest það greinilega, að kvenfólkið hjer í Reykjavík hefir oft veitt minni eftirtekt því, sem hjer hefir fram farið, heldur en nú.

En það, sem mjer hefði þótt sjerstök ástæða til að harma, var það, að hv. frsm. minni hl. var ekki viðstaddur, þótt viskan rynni upp úr hv. frsm. meiri hl., sem auk þess fjekk ágæta aðstoð bæði hjá hv. þm. Snæf. og hv. 2. landsk. Nú þarf jeg ekki að segja hv. 2. landsk. það, að jeg þykist viss um, að hv. þm. sje mjög brjóstgóður, eins og sjálfsagt allar aðrar konur eru, og hefir því sjeð sára þörf á því, að berjast hjer fyrir bættum kjörum ljósmæðra, sem annars eru hjer til umr. á hverju ári, og að þeirra áliti vegna þess, að það er ekki farið jafnilla með nokkra af starfsmönnum ríkisins eins og þær. Vil jeg þá segja nokkur orð við hv. 2. landsk. út af hennar rökum, og láta það þá fylgja með, að jeg held, að það hafi ekki önnur rök verið færð fram fyrir þörf málsins, en hjá hv. 2. landsk., hitt var aðeins „fjoll“ út í loftið. — En svo kemur hv. 2. landsk. og fer að leiða okkur fyrir sjónir, hve dýrt nám þetta sje; það hafi áður verið sex mánuðir, en sje nú orðnir níu mánuðir! En hv. þm. getur þess þó um leið, að þær hafi samt styrk af opinberu fje, til að ljúka þessu námi, en segir, að það geti vel farið svo, að þær verði að kosta námið úr eigin vasa með svo sem 400–600 krónum. Ekki þykir nú þetta neitt ofboðslegt, þegar borið er saman við aðra starfsmenn hins opinbera, að minsta kosti held jeg, að hvorki hreppstjórar nje oddvitar geti rækt sín störf svo í lagi fari, ef þeir kosta ekki meiru til námsins.

Það er dálítið einkennilegt að hlusta á þetta, ef einhver starfsmannaflokkur þarf að fá bætt kjör sín. Jeg fyrir mitt leyti lít hreint ekki svo á, að þessi starfsmannaflokkur sje lakar launaður að tiltölu en aðrir starfsmenn hins opinbera. Það er líka gott, svo að jeg komist um leið að orðum hv. 4. landsk., að vera landskjörinn þingmaður og hækka svona ósjálfrátt — maður getur sagt óviljandi — í tigninni, án þess að vinna nokkuð til þess; það er svona altaf hlaðið undir mennina, og þeir þurfa ekki að fá neitt hærra kaup; það er kosturinn! (Hlátur í deildinni).

Þá sagði hv. 4. landsk., að ef starfsmenn ríkisins færu yfirleitt að fara fram á launahækkun, þá væri sjálfsagt að veita þeim hana, sem lægra væru launaðir. Með góðum upplýsingum gæti hv. þm. sjálfsagt fengið nógar ástæður til þess, og þegar svo þar við bætist, að hv. þm. er í þessum makalausa flokki, sem hvorki þarf nje vill spara fje ríkisins. En hvernig ætli nú niðurstaðan yrði með ríkissjóð, þegar svona góðhjartaðir menn og örlátir á annara fje en sitt, færu að gefa úr honum, öllum til hjálpar? Jeg er alveg viss um það, að þegar hv. 4. landsk. væri búinn að borga nokkrum starfsmannaflokkum jafnörlátlega og þeim, sem hjer er um að ræða, þá væri ekki einn eyrir eftir í ríkissjóði til annara þarfa hans.

Hæstv. fjmrh. var að bregða þessum hv. þm. um það, að hann vildi fara nokkuð djúpt í ríkissjóðinn. Hv. þm. svaraði því með að segja, að hann teldi þá ekki betri, sem alt vildu spara og ekkert tímdu að láta af tekjunum til nauðsynlegra launa.

Þá kem jeg að hv. þm. Snæf. Jeg vil reyndar taka það fram, að jeg fann engar röksemdir í ræðu hv. þm., frekar en hjá hv. frsm. meiri hl., annað en það, að launin væru lág! Og jeg er sammála þessum tveim hv. þm., að því leyti, að þau geta verið fulllág og gæti verið gott að hækka þau hjá þeim ljósmæðrum, sem lægst eru launaðar. En það eru fleiri, sem þarf að hækka hjá, og jeg vil að minsta kosti halda það, að eftir tilkostnaði við námið hjá barnakennurunum, þá sjeu þeirra laun síst betri, enda mun líka vera frv. á leiðinni til að hækka þau.

Ein af ástæðunum — ef það var þá ekki eina ástæðan, — hjá hv. þm. Snæf. var sú, að yfirsetukonurnar væru fastar í umdæmunum; þær yrðu að vera það. En hvaða starfsmaður er það, sem ekki þarf að vera þar, sem hann á að gegna störfum sínum? Náttúrlega er það svo um hv. þm. Snæf., sem er læknir þar vesturfrá, að hann er nú hjer, en jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. verði að hafa mann fyrir sig. (HSteins:. Þetta er útúrsnúningur). Nei, það er enginn útúrsnúningur, og hv. 2. landsk. þótti þetta svo gild ástæða, að hann kom með það líka. (IHB: Þær geta ekki dvalið utan umdæmisins, sagði jeg). Það kom hv. þm. fyrst með á eftir, en það er nú svo, að allir starfsmenn hins opinbera verða að vera þar, sem þeim er ætlað að starfa.

Jeg vona, að þau orð, sem jeg segi hjer, verði til þess að þeir, sem mest hafa mælt með frv. og farið næstum því óvirðingarorðum um brtt. hæstv. fjmrh., þótt til hækkunar sjeu, fari nú samt að hugsa um, hvort ekki sje ástæða til að athuga málið ögn betur. En slík aðferð sem þessi er reyndar ekkert undarleg, þegar það er athugað, að öðrum megin eru tveir læknar og þriðji maðurinn er formaður jafnaðarmanna. Jeg man ekki betur, en að það orð hafi löngum legið á læknum, að þeir væru manna kröfuharðastir um laun og hafi fyrstir byrjað að knýja á ríkissjóðinn. En jeg verð að benda hv. deild á það, að hún verður sjálfsagt að ganga lengra á þeirri braut en það, að hækka laun eins flokks starfsmanna; við höfum svo marga starfsmenn lágt launaða, að við verðum að athuga, hvort við getum farið eins með aðra á. eftir.

Það er náttúrlega svo yfirleitt úti um landið, að umdæmin eru fámenn og starfið fjarska lítið, en jeg er ekki þar fyrir að segja, að það sje ekki mikils vert.

Hv. 2. landsk. sagði, að ef yfirsetukonurnar væru giftar, þá gætu þær unnið nokkurt gagn heima. Já, jeg held það líka, og þótt þær sjeu ógiftar, þá geta þær unnið mikið gagn! (Hlátur um alla deildina). Yfirsetukonan í minni sveit, sem jeg er kunnugastur, er altaf í kaupavinnu, og getur því unnið töluvert utan við starf sitt, þótt yfirsetukona sje og ógift.

Þá kom hv. 5. landsk. með það, hve hreinar og þvegnar um hendurnar þær þyrftu að vera. Slíkt ætti ekki að þurfa að taka sjerstaklega fram, því að við ættum öll að vera sem hreinust um hendurnar. En jeg er náttúrlega á þeirri skoðun líka, að það sje sjerstaklega mikilsvert um yfirsetukonur, að þær sjeu sem hreinlátastar með hendur sínar og sig sjálfar. En svo langt erum við nú komin í menningu, að við vitum þetta, þótt ekki sje verið að prjedika það fyrir okkur hjer á þingi. Og hreinlátar konur geta líka unnið mjög mikið án þess að spilla löndunum, ef forsjálni er beitt við að hreinsa þær, enda er það svo með yfirsetukonur, þar sem jeg þekki til, að þær nota hendurnar til flestra almennra starfa, þegar þær eru ekki að laka á móti börnum.

Hv. þm. Snæf. var að tala um það, og telur því víst nokkurn veginn slegið föstu, að það muni vera 30 yfirsetukvennaumdæmi, sem eru laus. En það er víst eitt af því, sem er nokkuð ágiskun. (HSteins: Neinei). Að minsta kosti kemur það ekki vel heim, ef á síðastliðnu sumri hefir ekki verið auglýst nema eftir einum fimm yfirsetukonum. (HSteins: Jeg sagði í einu). Þetta mál fer vonandi áfram, þótt 3. umr. sje eftir, og þá þætti mjer gaman að fá vissu um þetta atriði málsins, því að jeg tel þessar frjettir mjög ábyggilegar.

Jeg held svo, að þeir hv. þm., sem ekkert sjá framundan nema nauðsynina á að hækka þessi laun jafnstórkostlega og þetta frv. fór fram á og telja hækkun, sem ekki fer nema hálfa eið, einskis virði eða jafnvel svívirðilega, ættu að segja okkur betur en þeir hafa gert, hvernig launakjör ýmsir lægra launaðir starfsmenn hafa, og hvort muni líta betur út þar. Jeg held einmitt, að yfirsetukonurnar sjeu síst ver launaðar en sumir aðrir starfsmenn hins opinbera, þótt ekki þurfi að tala um oddvitana, eins og gert hefir verið í þessu sambandi, vegna þess að þeir eru ekki launaðir af ríkissjóði.