07.05.1929
Efri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í C-deild Alþingistíðinda. (2494)

51. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Hæstv. forseti ljet það í ljós, að jeg hefði ekki tekið svo mikinn þátt í umr. af hendi minni hl., sem jeg hefi gert á nokkrum þingum áður. Jeg held, að í fyrstu eitt eða tvö skiftin, sem þetta mál var hjer á ferðinni, hafi jeg haft þá skyldu sem fjmrh. að gæta hagsmuna ríkissjóðs, og svo þess, að ekki kæmist ósamræmi inn í launalöggjöfina.

Nú hefi jeg ekki fundið ástæðu til að taka þátt í umr. af hálfu minni hl., af því að mjer hefir fundist hæstv. fjmrh. gera grein fyrir því, sem þurft hefði að segja af hálfu minni hl., og jeg tel, að með brtt. hæstv. ráðh. sje að minsta kosti gerð sómasamleg skil um hækkun á þessum launum. Jeg mun því greiða atkv. með þeim brtt. og tel, að með því sje málinu ráðið til lykta að minsa kosti á mjög vel viðunandi hátt fyrir ljósmæðurnar, ef brtt. hæstv. fjmrh. verða samþ.

Mjer finst stundum bera á því hjer á þingi, þegar verið er að tala um launabætur, að menn sjeu svo fljótir að hlaupa út í öfgar. Í kaupdeilum annarsstaðar er venjulega verið að slást um það, hvort eigi að hækka um 10 eða 15%, en það vill oft verða svo hjer á þingi, að þegar svo er komið, að ástæða þykir til að stinga upp á launabótum, þá er ekki talað um minna en að margfalda með tveimur, — og þetta ætla jeg, að jeg hafi sagt á þinginu 1925. Þá var gerð sú rjetting á launakjörum yfirsetukvenna, að það var byrjað að greiða dýrtíðaruppbót, að minsta kosti af hluta ríkissjóðs, sem ekki hafði verið gert áður, en þessi breyting þýddi þá um 30% hækkun á laununum. Þetta finst mjer sæmileg hækkun, þegar talað er um launabætur, en hitt eru algerlega byltingar, þegar verið er að tala um að hækka einhver laun fyrst um 30%, og svo að tvöfalda þau skömmu síðar.

Það hefir farið fyrir mjer eins og hæstv. forseta, að jeg hefi ekki sjeð ástæðu til að eyða tíma til að tala um þetta frekar, þar sem hæstv. fjmrh. hefir gert það, sem gera þurfti, að leggja fram þær tölur, sem hjer hefir verið deilt um, án þess að þær hafi komið fram í málinu áður. Annars verð jeg að telja, að hjer hafi komið fram rök, sem ekki geta staðist, eins og frá hv. þm. Snæf., þegar hann bar saman borgun fyrir aukastarf sem þetta við það, hvað aðrir geti haft fyrir alla vinnu sína árlangt, en það eru engin rök í svona málum.