07.05.1929
Efri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í C-deild Alþingistíðinda. (2495)

51. mál, yfirsetukvennalög

Halldór Steinsson:

1 Rœðuhandrit óyfirlesið. Jeg þarf ekki að svara hv. fjmrh. miklu. Hæstv. ráðh. vildi halda því fram í síðari ræðu sinni eins og hinni fyrri, að þetta starf, sem ljósmæður inna af höndum, væri svo lítið í sjálfu sjer, að launin væru meira en nóg. Okkur kemur sennilega aldrei saman í þessu atriði. Það er að vísu svo, að starfið er mismunandi. Við vitum t. d. að það á ekki saman nema nafnið, hve mikið prestar og læknar hafa að gera. Í sumum læknishjeruðum er það svo, að þar er lítið að gera, eða að minsta kosti ekki nægilegt fyrir einn hraustan mann, en í öðrum hagar svo til, að þeir komast varla yfir vinnuna.

Sama er að segja um prestana, en þeir eru samt sem áður skipaðir embættismenn, og fólkið álítur nauðsynlegt að hafa presta, þótt hver þeirra hafi ekki mikið svæði að annast. Þess vegna er þetta fjarstæða, að ætla að sníða launin eftir því, hve starfið er mikið. Úr því að talið er nauðsynlegt að hafa ljósmóður í hverjum hreppi á landinu, þá verður um leið að launa henni svo, að hún fáist til að sitja þar. Það var líka fjarstæða hjá hæstv. fjmrh., að í þeim umdæmum, þar sem fæst er fólkið, sjeu ekki nema 4–5 fæðingar á ári. Svo hjelt hæstv. ráðh. því líka fram, að yfirsetukonur myndu ekki þurfa að vera nema 2–3 sólarhringa frá heimilum sínum í hvert skifti. Þetta er líka fjarstæða; þar, sem jeg þekki til, eru yfirsetukonur alstaðar miklu lengur að heiman, enda eru þær samkv. núgildandi lögum skyldar að vera eina viku hjá hverri sængurkonu. Það er vitanlega alt annað í kaupstöðum, þar sem þær geta gengið daglega til sængurkvenna sinna, en það á sjer ekki stað í sveitum.

Hæstv. fjmrh. hjelt því einnig fram, að ljósmæðraskólinn framleiddi nægilega margar yfirsetukonur, en jeg verð að álíta, að hann geri það ekki, af því að svona mörg umdæmi eru laus, því ef hann gerði það, þá getur þetta ekki stafað af öðru en að það verða svo mikil vanhöld á þessum nýju ljósmæðrum. En af hverju stafar það þá? Auðvitað ekki af neinu öðru en því, að þær treysta sjer ekki til að taka að sjer svona lágt launaðar stöður; þær heltast úr lestinni þegar þær sjá, að þær eiga þetta fram undan sjer, — ástæðan getur ekki verið önnur.

Þá vildi hæstv. fjmrh. í lok ræðu sinnar sýna fram á það, að eitthvert ógurlegt afli lægi hjer á bak við, sem myndi knýja þetta mál inn á þá braut, sem bæði jeg og hv. frsm. meirihl. viljum halda því á, og taldi, að það myndi verða hafðar einhverjar hótanir í frammi við þá þm., sem ekki yrðu frv. fylgjandi. Jeg held, að þetta sje óþarfa hræðsla hjá hæstv. fjmrh.; fyrst og fremst er jeg viss um, að þetta hefir ekki átt sjer stað, (Fjmrh.: Svo?) og þótt slíkar hótanir kæmu fram, þá veit jeg, að hæstv. ráðh. álítur þm. svo sjálfstæða, að það gæti ekki haft nein áhrif á afstöðu þeirra til málsins.

Þá kem jeg að hv. þm. A.-Húnv., sem byrjaði á því að segja, að það, sem jeg og hv. frsm. meiri hl., hv. 4. landsk., hefðum sagt, væri eiginlega ekkert annað en „fjoll“. Jeg hjelt nú, að hæstv. forseti væri svo mikill íslenskumaður, að hann hefði getað valið heppilegra orð, þegar hann fór úr forsetastólnum. En hinu vildi jeg svara, sem hæstv. forseti tók fram í ræðu sinni, að við hv. 4. landsk. hefðum engar ástæður fært fram fyrir þessu frv., því það er ekki rjett. Við höfum fært mörg rök, góð og gild, meðal annars það, sem við höfum bent á, að það er bein vöntun á ljósmæðrum. En málstaður hæstv. forseta var í eðli sínu svo ljelegur, að þess var enginn kostur að tefla honum fram sem rökum. Þess vegna grípur hœstv. forseti til þess örþrifaráðs, sem ávalt er síðasta hálmstrá rökþrota manna, að kalla það alt vitleysu, sem andstæðingurinn hefir sagt um málið. Hæstv. forseti sneri út úr því, er jeg sagði, að ljósmæður yrðu að sitja í umdæmi sínu. Auðvitað er það fyllilega rjett, enda mun hæstv. forseti vel hafa skilið, hvað jeg fór. Jeg átti vitanlega við það, að þær væru búsettar í sínu umdæmi eða ættu þar heima. Þá taldi hann ósamræmi í því, að af 30 lausum umdæmum hefði ekki verið auglýst nema 5. Sannleikurinn er sá, að þessar fimm auglýsingar voru einungis í einu einasta blaði, og jeg geri ráð fyrir, að eftir nokkurn tíma þar frá hafi verið búið að auglýsa þær allar. Þetta er því ekki neitt ósamræmi.

Jeg þarf svo ekki að fara langt út í það, sem hv. 3. landsk. sagði í ræðu sinni áðan. Hann taldi það öfgar, að meiri hl. lagði til, að launin væru hækkuð eins og frv. gerir ráð fyrir. Hann sagði, að eftir frv. næmi sú launahækkun vel helmingi, og það óx honum ákaflega í augum. Hann vildi einnig halda því fram, að launakjör ættu að miðast við vissar prósentur. En í þessu síðasta liggur sá stóri misskilningur hjá hv. þm. Það ber alls ekki að miða launakjör við prósentur, heldur við það, hvað er sanngjarnt, og launahækkun ber á sama hátt að miða við, hvort launin hafi áður verið sanngjörn eða ekki. Það er líka ofur eðlilegt, að hin sjálfsagða og rjettmæta hækkun launanna sje hlutfallslega nokkuð mikil, með því að laun ljósmæðra hafa algerlega staðið í stað frá 1919. Ef þau hefðu hækkað sem næmi 10–15% á ári, eins og launakjör sumra annara starfsmanna, þá væri nú ekki þörf á hlutfallslega svo mikilli hækkun.

Jeg held svo, að jeg þurfi ekki að svara fleiru að þessu sinni.