05.04.1929
Neðri deild: 37. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Jóhann Jósefsson:

Jeg vil láta ánægju mína í ljós yfir þeirri yfirlýsingu hæstv. atvmrh., að hann væri fús til þess að stuðla að því, að lánað yrði fje úr landbúnaðarbankanum til ræktunar í kaupstöðum, ef viðlagasjóðurinn gengi inn í bankann. Hæstv. ráðh. hefir því með þessari yfirlýsingu sýnt fullan skilning á þessu velferðarmáli kaupstaðanna. Það er vitanlegt, að eftir því sem kaupstaðirnir stækka, er meiri ástæða til fyrir löggjafarvaldið að vinna að því að gera lífsskilyrðin þar sem allra best. En við því verður ekki spornað, að fólkið flytjist þangað, sem það telur, að sjer muni líða best.

Þá mintist hæstv. ráðh. á fjárveitingu þá, sem er í fjárlögunum og lána má til ræktunar í kaupstöðum. Eins og kunnugt er, er fjárveiting þessi af mjög skornum skamti, þar sem hún fer ekki fram úr 10 þús. kr. En eigi að síður hefir hún orðið töluverð lyftistöng til ræktunar meðal þurrabúðarmanna í kaupstöðum. En sökum þess, hve eftirspurnin eftir þessu fje hefir verið mikil síðustu árin, hefir stjórnin neyðst til þess að lækka lánin til hvers einstaklings úr 800 kr. niður í 500 kr. Þessi litla fjárveiting er með Öllu ófullnægjandi til þess að fullnægja þörfum og kröfum kaupstaðanna í þessum efnum í framtíðinni. Vil jeg því taka undir það með hv. 2. þm. Reykv. (HV), að það sje eðlilegast og sanngjarnast, að þeir kaupstaðarbúar, sem ræktun stunda, fái stuðning hjá þeirri sömu stofnun, sem ætlað er að styðja ræktun landsins yfirleitt.

Hv. form. sjútvn. (SvÓ) fann sig knúðan til að gefa skýringu á orðalaginu á áliti sjútvn. um frv. um Fiskiveiðasjóð Íslands. Jeg skal ekki þreyta hv. deild á því að lesa upp kafla úr þessu umrædda áliti meiri hl. sjútvn. á þskj. 248, enda gerist þess ekki þörf, þar sem hv. þm. Borgf. gerði það áðan og benti jafnframt á, að eftir orðalagi þess væri ómögulegt að sjá annað en að fyrir meiri hl. hefði vakað, að sveitabönkunum væri beinlínis ætlað það hlutverk að styrkja bátaútveginn utan kaupstaða. En hv. form. sjútvn. skýrði það svo, að fyrir meiri hl. n. hefði vakað það eitt, að bændur þeir, sem við ströndina byggju, myndu njóta óbeins stuðnings til útvegsins gegnum lán, sem þeir fengju til ræktunar. Jeg get nú ekki annað en látið í ljós, að hugsun mín var ekki hin sama í þessu efni og form. telur að hafi vakað fyrir meiri hl. n. Þvert á móti leit jeg svo á, að sveitabankamir ættu að styrkja smábátaútveginn utan kaupstaða, ekki aðeins óbeinlínis gegnum önnur lán, heldur beinlínis með lánum, og með þeirri hugsun skrifaði jeg undir nál. á þskj. 248, Eftir skýringu sína á nál. meiri hl. sjútvn. um Fiskiveiðasjóðsfrv. komst hv. form. að þeirri niðurstöðu, að 2. brtt. hv. landbn. á þskj. 228 væri óþörf, af því að frvgr. talaði nógu skýru máli. En jeg fyrir mitt leyti verð algerlega að mótmæla því. Jeg tel frvgr. alls ekki kveða nógu skýrt á um þetta, og er í því efni alveg á sömu skoðun og hv. þm. Borgf. Aftur á móti er brtt. landbn. skýr og ákveðin í þessu efni, og tel jeg því sjálfsagt, að hún verði samþ. Jeg verð að segja það, að jeg fæ alls ekki skilið, hvers vegna hv. form. sjútvn. getur ekki aðhylst þá brtt., sem tekur af öll tvímæli, þar sem öll ræða hans virtist hníga að því, að sjávarbændur jafnt sem sveitabændur ættu að njóta stuðnings Landbúnaðarbankans.

Eins og jeg tók fram áðan, sló hv. form. sjútvn. því föstu, að óþarft væri að samþ. 2. brtt. landbn., af því að 2. gr. frv. fæli í sjer þá hugsun, sem brtt. ætti að túlka. Og hv. frsm. landbúnaðarnefndar (BSt) lýsti yfir því, að það væri langt frá, að hann væri því mótfallinn, að smábátaútvegsmenn utan kaupstaða fengju lán í hinum fyrirhugaða Landbúnaðarbanka, enda þótt hann teldi það „princip“brot að taka lánveitingar til bátaútvegsins beinlínis inn undir starfssvið bankans. Þegar nú þessir tveir hv. þm. eru báðir á þeirri skoðun, að það í raun og veru sje það rjetta, að þeir bændur, sem við ströndina búa, eigi að fá stuðning Landbúnaðarbankans bæði til útvegs og ræktunar, virðist mjer ekki nema eðlilegt, að þeir fjellust báðir á till. landbn. En úr því nú að svo er, að þeir geta ekki felt sig við orðalag hennar, vildi jeg taka undir þau tilmæli háttv. frsm. landbúnaðarnefndar, að hún verði ekki látin koma undir atkv. nú, heldur geymd til 3. umr., svo n. gefist tækifæri til að taka hana til athugunar á ný, og geti þá jafnframt orðað hana betur, svo að báðir þessir hv. þm. geti við hana unað.

Það var alveg rjett, sem hv. þm. Borgf. tók fram, að till. meiri hl. sjútvn. á þskj. 248 ná skamt til þess að styrkja smábátaútveginn. En það, sem fyrir meiri hl. vakti, þegar hann stilti kröfum sínum svona mjög í hóf í þessu efni, var það, að hann taldi, að landbn. hefði gert ráðstafanir til þess, að þeir smábátaútvegsmenn, sem við ströndina búa, gætu notið stuðnings Landbúnaðarbankans til útvegs síns jafnframt jarðræktinni.