07.05.1929
Efri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í C-deild Alþingistíðinda. (2500)

51. mál, yfirsetukvennalög

Guðmundur Ólafsson:

Jeg ætla alls ekki að segja mörg orð að þessu sinni, því að jeg vildi gjarnan, að draga færi að atkvgr. En jeg vildi benda hv. dm. á, að þegar jeg talaði síðast, þá óskaði jeg eftir rökum frá fylgjendum frv. þessa. Jú, hvað haldið þið að jeg hafi fengið? Ekkert annað en að það hafi verið slæmt mál á ræðu minni áðan. Það má vel vera, að jeg hafi sagt eitthvert orð, sem betur hefði mátt fara öðruvísi, en það voru sannarlega engin rök í máli því, sem hjer liggur fyrir til umr. Þá sagði hv. þm. Snæf., að mörg góð og gild rök hefðu verið færð fram með frv., en benti ekki á neitt annað en það, að ennþá vantaði ljósmæður í 30 umdæmi á landinu. En eins og tekið hefir verið fram, er ekkert hægt um það að segja með vissu, hvort það er rjett eða ekki. Þá kom embættisbróðir hv. þm. Snæf., hv. 5. landsk. og fór að tala um „hreinu hendurnar“, og þótti ekki vel við eigandi, að brosað væri að þeim. Hann sagði líka hv. þm., að kaup ljósmæðranna væri yfirleitt ekki eins hátt og kaup vinnukvenna hjer í Reykjavík. Þetta má vel vera rjett, því að mjer er ekki kunnugt um, hvaða kaup vinnukonur hafa hjer. En hitt er víst, að ljósmæðraefnin vita, að hverju þær ganga, þegar þær sækja skólann.

Þá kem jeg að hv. 4. landsk., frsm. meiri hl., sem var með þrefalda aths. vegna ræðu forseta, sem hann sagði þó að engin rök hefði verið hægt að finna í. En rökin, sem hann kom með í þessari margföldu aths., voru hin sömu og ýmsir aðrir hafa komið með og þegar er búið að margsýna fram á, að sjeu mjög vafasöm, sem sje þau, að ennþá vanti ljósmæður í mörg umdæmi. Þá kom hv. þm. með það, að það væri ekki altaf gott að spara, því að sparnaðurinn gæti oft verið of dýru verði keyptur, og átti þar við, að sparnaður á launum ljósmæðra gæti orðið okkur dýr. En jeg fyrir mitt leyti er ekki mjög hræddur við þetta. Jeg geri nefnil. ekki ráð fyrir, að ljósmæðurnar ræki ekki störf sín jafnt eftir sem áður, hvort sem þær fá launaviðbót eða ekki.

Þá sagði hv. frsm., að jeg hefði verið með í því að fella allverulegan tekjuauka ríkissjóði til handa, sem hann hefði viljað rjetta fram, tekjuauka, sem eingöngu hefði átt að leggjast á kaupmannsgróða. Það, sem jeg sagði um þennan tekjuauka, var það, að jeg væri á móti, ef hann ætti að leggjast á einhvern hluta þjóðarinnar. Og jeg fyrir mitt leyti get ekki annað en talið kaupmennina með þjóðinni, því að jeg veit ekki betur en að þeir sjeu menn eins og við hinir.

Að okkur vanti menn í ýmsar stöður í þjóðfjelaginu, af því að við borgum ekki nóg, má vel vera að sje að einhverju leyti rjett, en það hjelt jeg að hv. þm. vissi, að svo háar má gera kaupkröfurnar, að það hreint og beint borgi sig ekki fyrir vinnuveitanda að láta framkvæma starfið, og má í því efni benda á dæmi hjeðan úr bænum frá því í vetur. Annars held jeg, að það verði dráttur á því, að við getum borgað embættis- og starfsmönnum okkar svo hátt kaup, að þeir telji það fullnægja þörfum sínum.