21.03.1929
Efri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í C-deild Alþingistíðinda. (2524)

50. mál, sala á jarðarhluta í landi Neskaupstaðar

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Það er nú svo, að hv. 3. landsk. fer ýmsar leiðir til að koma sínum málum fram, en þessi leið finst mjer þó einkennilegust vegna þess, að hann kemur ekki með þessa brtt. sína inn í þingið fyr en eftir að málið er búið að vera 3 vikur í nefnd. Jeg kann ekki við þessa aðferð, og mjer finst hún koma illa heim við rjettlætistilfinningu þá, sem allshn. taldi valda fylgi sínu við sölu á landinu. Jeg get ekki varist þeirri hugsun, að hv. 3. landsk. sje með þessari brtt. að leggja stein í götu þessa frv. (JÞ: Nei alls ekki!). Því kemur hv. þm. þá ekki með sjerstakt frv. um þetta efni? Það þyrfti ekki að tefja hans áhugamál að neinum mun, og þá gat þetta frv. haldið áfram tafarlaust.

Á þessa till. hv. þm. er varla hægt að líta sem brtt., heldur miklu fremur sem viðauka við frv., þar sem það breytir engu í frvgr. Jeg hefði í forsetastól álitið rjettast að vísa brtt. frá af þeirri ástæðu. Jeg álít samsuðu sem þessa óheppilega, og jeg vil geta þess, að við hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) höfum flutt sitt málið í hvorri deild, sama eðlis, af því að við töldum það heppilegra en að hnýta þeim saman, þar sem vera má, að eitthvað sje ver undirbúið í öðru tilfellinu. Jeg vil því mælast til, að hv. 3. landsk. taki till: sína aftur og komi fram með hana sem nýtt frv. Mun jeg styðja það. Jeg er ekki ánægður með, að umr. um frv. þetta sje frestað vegna þessarar till., sem naumast er hægt að skoða sem brtt. við frv. Að fresta umr. er að tefja það mál, sem hv. 3. landsk. telur þó vera sanngirnismál. Jeg vil því enn mælast til, að hv. 3. landsk. taki till. aftur og komi með hana í frumvarpsformi. Verður það að vísu seinna á ferðinni, en þar verður hv. þm. að gjalda þess, hve seint hann kom fram með það. Eins og jeg hefi sagt, mun jeg styðja það, en mjer finst óþarfi að tefja þetta mál með því.