23.03.1929
Efri deild: 30. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í C-deild Alþingistíðinda. (2529)

50. mál, sala á jarðarhluta í landi Neskaupstaðar

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Svo sem hv. deild ætlaðist til, þegar umr. um frv. þetta var frestað fyrir tveim dögum, þá hefir n. athugað brtt. á þskj. 166. Meiri hl. n. lítur svo á, að eins og þessi brtt. er fram borin, þá sje ekki rjett að hnýta henni aftan í frv., og leggur því til, að hún verði feld.

Brtt. er komin fram með öðrum hætti en venja er til. Það hefir engin ósk legið fyrir frá íbúum Siglufjarðar. Jeg hygg, að það sjeu 7 ár síðan frv. um sölu Hvanneyrar lá fyrir þinginu, og var því þá synjað. Síðan hefir ekki heyrst neitt frá Siglfirðingum um þetta. Hinsvegar er það ljóst, að sjeu aðstæður óbreyttar, þá er sennilegt að kaupstaðurinn óski kaupanna, en upplýsingar um óskir Siglfirðinga í þessu efni liggja ekki fyrir að þessu sinni. Og jeg tel ekki ástæðu til, að þingið bjóði þessa eign til sölu, þar sem það hefir synjað sölunnar áður.

Frá mínu sjónarmiði er hjer farin mjög óvenjuleg leið til að koma fram sölu á kirkjujörð. Jeg lít svo á, að lögin um sölu kirkjujarða geri tvímælalaust ráð fyrir, að tekin sje ákvörðun í lagaformi um hverja jörð fyrir sig. Jeg veit, að allir lögfræðingar munu ekki líta svo á, en jeg get ekki skilið varúðarráðstafanir laganna öðru vísi. Í lögunum (nr. 50 1907) stendur svo í 2. gr. 2. mgr.:

„Nú er kauptún, þorp eða verksmiðjuiðnaður fyrir á kirkjujörð, eða sýslunefnd telur líklegt, að slíkt komi þar upp innan skamms, eða sýslunefnd telur jörðina sjerstaklega fallna til sundurskiftingar á milli margra grasbýla, og má þá eigi selja jörðina án sjerstakrar lagaheimildar í hvert skifti.“

Jeg álít, að þó að þingið vildi spara sjer erfiði með því að samþ. í einu að selja allar kirkjujarðir landsins, sem kauptún lægju á, þá gæti það ekki samrýmst þessum ákvæðum. Hvaða skilning er hægt að leggja í orðin „í hvert skifti“, ef ekki þann, að þar sje átt við hverja jörð út af fyrir sig? Þetta er heldur ekkert óeðlilegt, því aðstaðan getur verið mismunandi. Það getur vel verið rjett að selja eina, en ekki aðra, og hefir löggjafinn viljað tryggja sjer það, að í hverju tilfelli verði það vendilega athugað, hvort selja skuli. — Allshn. hefir alls ekki átt kost á að kynna sjer þessa sölu á landi Hvanneyrar sjerstaklega. Það hafa engin gögn legið fyrir. Það væri því alls ekki gætt þeirrar varúðar, sem löggjafinn ætlast til, ef brtt. væri samþ. Af þessum ástæðum leggur meiri hl. til, að brtt. verði feld.

Jeg skal taka það fram, að jeg mundi greiða atkv. með sölu Hvanneyrar, ef nægar upplýsingar væru fyrir hendi, og málið lægi fyrir í frv.formi. En þegar svona óvenjulegri aðferð er beitt til að koma sölunni fram, þá get jeg ekki verið með því.

Jeg býst við, að ræðufjöldi minn sje nú þegar úti, og verð jeg því að láta hjer við sitja. Jeg geri ráð fyrir, að hv. flm. brtt. (JÞ) andmæli einhverju af því, sem jeg hefi sagt, og skal jeg ekki fást um það. En það mun vera einsdæmi í þingsögunni, að sala á kirkjujörð fari fram, svo sem hjer er ráð fyrir gert. Læt jeg það því ráðast, hvort mín afstaða þykir athugaverðari en hv. flm. brtt. En brtt. verður til að tefja fyrir frv.; þegar það kemur til Nd. þá vantar allar upplýsingar um þessa sölu. Og kæmi mjer ekki ókunnuglega fyrir, þó afleiðingin yrði sú, að frv. næði ekki fram að ganga.