21.03.1929
Efri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í C-deild Alþingistíðinda. (2530)

50. mál, sala á jarðarhluta í landi Neskaupstaðar

Jón Þorláksson:

Mjer kom það ekki á óvart, þó heldur andaði kalt frá hv. frsm. (IP), þegar til þess kom að draga rökrjettar afleiðingar af afstöðu n. til frv. þess, er hann flytur, og um það er að ræða að láta aðra kaupstaði, sem eins stendur á fyrir og Nesi, verða sömu velvildar aðnjótandi og fá að kaupa lönd þau, er þeir liggja í, og löggjafinn hefir ráð yfir. — Mjer skildist af ræðu hans, að það væru aðallega þrjár ástæður, sem hann færði fram móti brtt. minni. Hin fyrsta var sú, að það vantaði ósk kaupstaðarins til kaupanna. Þetta er rjett; það liggur nú engin formleg ósk fyrir frá kaupstaðnum. En hún hefir komið fram áður, bæði þegar frv. það var á ferðinni, er hv. frsm. gat um, og einnig síðan. Þetta er einungis formleg ástæða gegn brtt., því ekki leikur neinn vafi á ósk kaupstaðarbúa. En fyrsta sporið er það, að stjórninni sje veitt heimild til að selja landið. Það verður því ekki neitt úr þessari mótbáru. — í öðru lagi hjelt hann því fram — og með rjettu, — að lögin um sölu kirkjujarða gera ráð fyrir, að löggjafinn taki ákvörðun um sölu hverrar jarðar út af fyrir sig. Þetta er rjett, og er líka gert í brtt.; jörðin er þar nefnd. Það er rjett athugað hjá hv. frsm., að lögin gera ráð fyrir, að ekki verði heimilað í einu lagi að selja allar þær kirkjujarðir, er kauptún og kaupstaðir standa á, heldur verði greint um hverja í sínu lagi. Þessu er fullnægt í brtt. Hitt nær ekki neinni átt, að löggjafinn hafi verið að ákveða, hvaða ákvarðanir yrðu samferða í einum og sömu lögum. Fremur væri máske ástæða til að telja það óviðkunnanlegt, að í lagafrv. eins og þessu skuli vera sett sameiginleg ákvæði um sölu þjóðjarða og kirkjujarða. Raunar virðist mjer ekkert við það að athuga, þótt um það sjeu sett sömu lögin, og því er engin ástæða til aðgreiningar. Hv. þm. sagði, að þetta væri einsdæmi í þingsögunni, að heimiluð væri 2ja jarða sala, enda mun það svo að vísu, að fá dæmi þess finnist, að kaupstöðum eða þorpum hafi verið seldar kirkjujarðir. En þingið hefir þó, fyrir 22 árum síðan, heimilað í einum lögum að selja allar kirkjujarðir, að fám einum undanskildum. Þó að hv. þm. geti því máske fundið þeim orðum sínum stað, að aldrei hafi í einum lögum verið heimilað að selja 2 jarðir, verður hann þó að viðurkenna, að þingið hefir heimilað sölu einnar og margra, og þá getur ekki verið neitt athugavert við að heimila í einum lögum það, sem þar er í milli.

Þriðju ástæðuna gegn brtt. minni flutti hv. þm. hálf feimnislega fram. Hann sagðist vera hræddur um, að frv. yrði felt, ef brtt. yrði samþykt, í en jeg get ekki skilið í því, að hv. þm. greiði fyrst atkv. með till., og felli svo frv. Hitt getur komið til mála, að hv. Nd. hleypi frv. þessu ekki í gegn, en brtt. mín mun þó ekki spilla fyrir því, því að hún er alveg sjerstæð, og ef hv. þm. fella sig ekki við hana, mun það koma fram í umræðunum, og þá geta þeir auðvitað látið brtt. mína falla, en samþ. frv. Af þessum ástæðum verð jeg að álíta, að ótti hv. þm. sje ekki á rökum bygður, þótt hann kunni að hafa látið hann í ljós af umhyggju fyrir frv. Fyrir mjer vakir það eitt, að jeg vil greiða fyrir rjettu máli, og jeg lít svo á, að Siglufjarðarkaupstaður eigi rjett á því að kaupa það land, sem hann þarfnast, engu síður en aðrir kaupstaðir, en þar sem jeg sje, að tillaga mín sætir andúð fyrir það, að hún er flutt í sambandi við þetta frv., þá vil jeg ekki hætta henni lengra í þessari mynd, og tek jeg hana því aftur, en mun sjá svo um, að efni hennar komi hjer fram að nýju á annan hátt.