06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í C-deild Alþingistíðinda. (2542)

50. mál, sala á jarðarhluta í landi Neskaupstaðar

Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Það er rjett hjá hv. 1. þm. S.-M., að það stækkar ekki land kaupstaðarins, þótt lóðir þessar verði seldar, enda hefir enginn haldið því fram.

Það sem hjer er um að ræða er það, hvort selja eigi kaupstaðnum þetta land eða ekki. Meiri hl. allshn. leggur til, að það verði gert, eins og jeg tók fram í fyrri ræðu minni. Jeg viðurkenni það, að það kann að draga úr sumum, að þm. hlutaðeigandi hjeraða eru ósammála um þetta mál, en jeg get ekki gengið inn á, að ekki megi selja þetta land vegna prestsins. Jeg þekki þess ekki dæmi, að prestar fái jarðir í kaupstöðum, enda mundi slíkt verða nokkuð dýrt fyrir ríkið. Það eru sjerstakir samningar, sem gilda um stjórn þessara eigna; það getur vel farið svo, að hlutaðeigandi prestur verði ekki í þeirri stjórn, en hann á að fá tekjurnar af þessum lóðum, ef þær eiga að skoðast sem ábýli fyrir hann. Þess er varla von, að umsögn hafi komið frá hlutaðeigandi presti í þessu máli, því að hann er enginn, eins og stendur.

Hv. 1. þm. S.-M. hefir ekkert á móti því, að jarðarhluti umboðssjóðs sje seldur, en mjer finst sama máli gegna með kirkjujarðasjóðshlutann. Það eina, sem er á móti þessari sölu, er, að ríkissjóður mundi við hana fara á mis við gróða af verðhækkun lóðanna. En það hafa svo oft verið seldar eignir ríkissjóðs, þó að það hafi verið vitað og auðsjeð fyrirfram, að verðhækkun — jafnvel stórkostleg — hlaut að koma. Og jeg get ekki annað sjeð, en að íbúar Neskaupstaðar eigi talsvert mikla sanngirniskröfu á að fá þetta keypt, ef skoðað er, hvað gert hefir verið fyrir aðra. Annars er það náttúrlega ekki nema rjett hjá hv. þm., að það er hagkvæmt að skoða þessi sölumál öll í sameiningu, og frá því sjónarmiði gat jeg í raun og veru verið með þessari rökstuddu dagskrá. En jeg er yfirleitt með því að selja þessar eignir. Mjer finst það vera svo ákaflega eðlilegt, að kaupstaðirnir og kauptúnin vilji eiga sig sjálf, ef svo má að orði kveða, og ennfremur það land, sem þau þurfa í kring til ræktunar.