06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í C-deild Alþingistíðinda. (2544)

50. mál, sala á jarðarhluta í landi Neskaupstaðar

2544Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Jeg skal fylgja fordæmi hv. 1. þm. S.-M. og tala ekki langt mál.

Jeg skal ekki rengja hann um það, að hann sje kunnugri staðháttum þar eystra en jeg. En hitt er varla rjett, að hann sje kunnugri staðháttum þar en hv. samþingismaður hans, er bar fram frv. (SvÓ: Og var knúður til þess af bæjarstjórn, sem hann á sjálfur sæti í). Jeg skil ekki í að hv. 2. þm. S.-M. láti neyða sig til að bera fram mál, sem hann er sjálfur andvígur. Báðir þessir þm. hafa átt tal við n. og reyndum við þar að rekja úr þeim garnirnar og mynda okkur skoðun eftir því.

Mjer er það ljóst, að ríkið á ekki að fara með þessar eignir sínar eins og braskari. Það hefir heldur ekki verið stefna Alþingis að halda í þær til þess eins að græða á þeim. — Það er rjett, sem jeg hjelt fram, að presturinn er lóðaleigjandi. En hitt hefi jeg aldrei sagt, að hann þyrfti að vera að vasast í að innheimta lóðagjöld. Sje gengið út frá því, að lóðirnar hækki í verði, þá leiðir af því, að aðalgróðinn lendir hjá presti, en hvorki hjá ríkissjóði eða bænum. Og jeg sje ekki, að þessum presti sje í nokkru vandara en öðrum prestum, sem í kaupstað búa. Það er ekki einn einasti kaupstaðarprestur, sem hefir jörð til afnota, nema presturinn á Siglufirði, og það stafar af því, að hann fjekk brauðið löngu áður en bærinn fjekk kaupstaðarrjettindi. Annars finst mjer tæplega vera hægt að tala um jörð hjer. Þar sem hjer er nú kominn löggiltur kaupstaður, þá er hjer að ræða um byggingalóðir.

Ekki get jeg skilið hvernig hv. þm. getur sætt sig við að selja umboðshlutann frekar en hluta kirkjunnar. Ef hann er að hugsa um hag ríkissjóðs, þá er gróði hans mikið meiri af umboðshlutanum. Þetta er þá einungis umhyggja fyrir prestinum. En jeg get ekki fallist á að hún sje rjettmæt.

Hv. þm. sagði, að þetta mál væri slitið út úr samhengi við önnur samskonar. Alþingi hefir hingað til fylgt þeirri reglu, að taka hvern stað út af fyrir sig. Og jeg held að það sje sanngjörn regla, að lofa kaupstöðunum að eignast þær lóðir, er þeir þurfa til að byggja á. Jeg held að það reynist happadrýgra heldur en hitt, jafnvel þó ríkissjóður gæti þá grætt nokkra tugi þúsunda á mörgum mannsöldrum.