11.03.1929
Neðri deild: 19. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í C-deild Alþingistíðinda. (2551)

61. mál, sala á nokkrum hluta prestssetursins Hólma

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það er kunnugt, að hreppsnefndin á Eskifirði hefir farið fram á að fá meira eða minna af Hólmalandi til ræktunar fyrir Eskifjörð. Presturinn mælir með því, jafnvel þó að um sölu á allri jörðinni væri að ræða, og ætlar að flytja til Eskifjarðar. Þetta sannar auðvitað ekki, að næsti prestur muni ekki vilja fá jörðina til ábúðar, en óhætt er að fullyrða það, að sú er stefna samtíðarinnar, að prestarnir vilja heldur búa í kaupstöðunum en sveitunum. Sú hefir reynslan orðið í flestum nágrannalöndum okkar. Í Noregi og Danmörku til dæmis, þar sem prestarnir hafa öldum saman haft góðar bújarðir til afnota í embættisnafni, hefir þróunin verið sú, að prestarnir hafa ekki óskað eftir að reka hin gömlu stórbú, enda hefir þeim veist það erfitt, og svo hafa jarðirnar verið bútaðar sundur og prestarnir orðið bæjamenn. Hjer á landi gætir þessa sama, t. d. með Garða á Álftanesi. Presturinn þar átti erfitt með að nytja þá miklu jörð og tók því þann kostinn að flytja til Hafnarfjarðar. Jeg held, að það sje ekkert á móti því frá formlegu sjónarmiði, að taka vel í málaleitanir sem þessa. Víðast hvar óska prestarnir þess sjálfir að láta af búskap, og það er ekki hyggilegt að láta bestu jarðirnar standa ónotaðar. Jeg vænti þess því, að þingið taki þessu frv. vel.