11.03.1929
Neðri deild: 19. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í C-deild Alþingistíðinda. (2553)

61. mál, sala á nokkrum hluta prestssetursins Hólma

Hákon Kristófersson:

Jeg vil benda á það, að jeg tel það varhugaverða aðferð, að vera að laumast að prestssetursjörðunum og selja þær í smápörtum. Mjer finst betra að selja þær í einu lagi en að fara svona lævíslega að. Eða því gat kauptúnið ekki komist að samkomulagi við prestinn um að fá landið á leigu? Mjer skilst, að það hefði átt að vera hægt. Þó að núverandi prestur liti svo á, að landið sje sjer óhagstætt, er það engin sönnun fyrir því, að næsti prestur líti svo á það mál. Jeg er ekki að gera lítið úr nauðsyn kauptúnsins í Eskifirði til þess að fá þetta land, en jeg álit, að því hefði átt að vera nóg að fá landið á leigu.

Því hefir verið haldið fram af hæstv. dómsmrh. að prestarnir vilji vera lausir við að búa á kirkjujörðunum, og jeg býst við, að það sje einhver sannleikur í þessu. Þó er það svo víða á Vesturlandi, að prestarnir eru húsviltir og jarðnæðislausir, vegna þess að prestssetursjarðirnar hafa verið seldar. (ÓTh: Þeir hafa Móse og spámennina). Jeg veit ekki til þess, að hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) sje neinn sjerstakur Móse handa prestunum og því síður hefir mjer skilist, að Móse og spámennirnir væru neitt fíflskaparmál. Og svo framarlega sem það er rjett, að prestarnir sjeu nytjamenn, ber að stuðla að því, að þeim liði sæmilega. (ÓTh: Hvað segir Móse núna?). Hv. 2. þm. G.-K. ætti nú að vera eins handgenginn honum og jeg, því að það mun varla eiga við hann eins og svo marga aðra, að sá tali mest um Ólaf kong, sem hvorki hefir heyrt hann eða sjeð. En ef háttv. þingm. er að líkja mjer við Móse Ísraelsmanna, þá er það mikil sæmd fyrir mig.

Annars vildi jeg aðeins benda þeirri hv. n., sem fær þetta mál til athugunar, á það, að afla sjer frekari gagna en fyrir liggja, áður en horfið er að því ráði að selja þetta land, og þó að hv. flm. (SvÓ) segi, að hjer sje aðeins um beitiland að ræða, sem lítil eftirsjón sje í, get jeg upplýst það, að jeg þekki víða þar til, sem svo hagar, að bestu jarðir eru ónýtar án beitilanda. Mjer þætti best farið, ef til þess ráðs yrði tekið að leigja kauptúninu landið, en selja því það ekki. Og mjer þykir ósennilegt, að sá maður, sem var svo elskulegur að lýsa yfir því, að núverandi prestur segðist ekki þurfa á landinu að halda, ætli, að hann væri ekki líklegur til að leigja það með sanngjörnum kjörum.

Jeg held, að þetta mál eigi, eðli sínu samkv., frekar heima í allshn. en landbn. Það undirstöðuatriði, hvort kauptúnið þurfi í raun og veru á þessu landi að halda, þarf að athuga, og ýms fleiri gögn, sem ekki hafa enn komið fram, nema umsögn hv. flm. (SvÓ), sem jeg rengi ekki, það sem hún nær.