06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í C-deild Alþingistíðinda. (2564)

61. mál, sala á nokkrum hluta prestssetursins Hólma

Sveinn Ólafsson:

Jeg get verið hv. meiri hl. allshn. þakklátur fyrir góðar undirtektir í þessu máli, og það sem meira er, jeg kann hv. minni hl. líka þakkir fyrir framkomu hans. Hann hefir nefnilega gert mjer greiða án þess að vilja það og vita, en greiði er það nú samt. Hann hefir birt í nál. sínu brjef biskups, en í því eru ummæli, sem bygð eru á misskilningi og ókunnugleika, en styðja mitt mál. Eitt atriðið, sem hann færir fram gegn sölunni er, að hjer sje seilst yfir 4 jarðir og inn í annan hrepp til þess að ná í land Hólma. Alt það land, sem að kauptúninu liggur, er í Helgustaðahreppi og Reyðarfjarðar. Þessir hreppar liggja að því sinn hvoru megin, og partur af kauptúninu hefir landsnytjar sínar ljeðar frá jörðunni Eskifirði í Reyðarfjarðarhreppi. Að hjer sje verið að seilast yfir 4 jarðir, sem nær sje, er með öllu rangt, og ef yfir fjörðinn er farið, er skemmri leið til Hólma en t. d. að Eskifjarðarseli, sem liggur lengst inni í Eskifjarðardal og jafnvel skemmra en að Borgum. Svo er annað, sem kemur til greina, og það er, að þessar jarðir eru ekki falar, nema nú á þessum síðustu dögum hefir komið fram tilboð um að selja Borgir, litla hjáleigu og ófrjóa, sem þar að auki liggur á skuggahlið dalsins og erfiðara er að nota en Hólmanes. Að gera Borgir falar, er þó nokkur bót, en miklu meira og betra land þarf til að fullnægja þörfinni. Það er að vísu satt, að Borgir liggja svo nálægt, að þær má nota, en þar eru litlir hagar, sem að notum geta komið.

Jeg hygg, að jeg þurfi ekki að svara hv. frsm. minni hl. frekar, því að það hefir hv. frsm. meiri hl. þegar gert vel og skörulega. Jeg vil þó benda á það, að þrátt fyrir öll mótmæli Reyðarfjarðarhrepps, hlýtur að reka að því, að landið verði tekið frá honum, fyr eða síðar, vegna þarfa þeirra, sem skortir alla grasnyt. Reyðarfjarðarhreppi er enginn skaði gerður, þótt Hólmanes verði selt. Hann ræður yfir nær ótakmörkuðu landi til ræktunar samt sem áður, og jörðin Hólmur verður eptir sem áður hið álitlegasta býli. Það eina, sem Hólmaland missir við þessa sölu, eru fjárhagar, eða það land, sem hentar fyrir búsmala, ef fært væri frá, og til vetrarbeitar. Þess vegna kemur ekki til mála, að hægt sje að bera þetta mál saman við næsta mál á undan á dagskránni. Með þessu er verið að bæta úr tilfinnanlegum landskorti, en í hinu tilfellinu var ekki um neitt slíkt að ræða. Jeg get ekki búist við því, að þeir, sem ókunnugir eru þarna eystra, geti um þetta dæmt, en jeg vildi óska þess, að hv. frsm. minni hl. ætti eftir að koma á þessar slóðir og sannfærast af sjón og raun um það, að hjer hefir honum skjöplast vegna ókunnugleika.

Hv. frsm. minni hl. gat þess, að presturinn hefði horfið frá fyrri skýrslu sinni í þessu máli, en af hverju gerði hann það? Af því að hann átti þar hús og mannvirki, sem hann bjóst við að losna við og geta selt, ef kauptúnið fengi alla jörðina, en þegar til tals kom að selja Eskfirðingum þennan hluta landsins, og húsanna þurfti þar ekki, þá snerist honum hugur og lagði þá móti sölunni. Þessar skýringar málsins eru nauðsynlegar þeim, sem ókunnugir eru málavöxtum.