06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í C-deild Alþingistíðinda. (2565)

61. mál, sala á nokkrum hluta prestssetursins Hólma

Magnús Jónsson:

* Ræðuhandrit óyfirlesið. Hv. frsm. meiri hl. sagði, að ekki væri rjett að leggja mikið upp úr orðum biskups í þessu máli, því að hann væri hlutdrægur. Þetta er altof sterkt til orða tekið, og jeg vil segja hv. frsm. það, að hvað sem segja má um biskup, finnur hann hvergi á honum snöggan blett í þeim efnum, enda mun ekki finnast tillögubetri maður í garð ríkissjóðs en hann. Að þessari samviskusemi hans hefir kveðið svo mjög, að ýmsir hafa borið honum á brýn, að hann hjeldi rjetti presta of lítið fram, þegar ríkissjóður ætti í hlut. Það er rjett hjá hv. frsm. meiri hl., að af sölu jarðarinnar verður ekki nema því að eins, að presturinn hafi gefið til þess samþykki sitt. En hversvegna er þá verið að hafa allan þennan skrípaleik í frammi, þegar presturinn er búinn að neita um samþykki sitt til sölunnar. Hver er meiningin með því, að fara að setja lög um þetta? Er það til þess að hægt sje að stelast að jörðinni, ef einhver prestur skyldi glepjast til að samþykkja þetta. Meiri hl. hv. nefndar virðist byggja alt álit sitt á einu brjefi, sem núverandi prestur hefir ritað, en hann gleymir því, að þessi sami prestur hefir skrifað annað brjef, þar sem hann lætur í ljós álit sitt á sölu jarðarhlutans og mælir eindregið á móti henni. Fyrra brjefið er alveg óskylt þessu máli, því að þá vildi presturinn selja jarðarhús, sem hann átti, en vildi feginn losna við, og jörðina vildi hann leigja kaupstaðnum. Jeg vil líta svo á, að hann hafi gert þetta í hagnaðarskyni, til þess eins að losna við þessi hús sín. Í þessu brjefi sínu segir hann, að eins og nú standi sakir, sje jörðin verðlítil, en þegar hann sjer að kaupstaðurinn vill ekki kaupa húsin, þá snýst hann öndverður gegn því að láta jörðina af hendi. Hann segir þá, að vegna breyttra búskaparhátta komi jörðin ekki verulega að gagni, en ef sauðfjárrækt aukist og fært verði frá, þá sje þessi hluti nauðsynlegur jörðinni. En nú vil jeg spyrja hv. þdm., hvort þeir eru við því búnir, að þetta geti ekki sótt í gamla horfið. Ef sá góði og gamli siður yrði tekinn upp, og ef landsmenn fengju að flytja fje sitt á fæti út til Englands, þá er þessi partur jörðinni nauðsynlegur. Jeg álít ennfremur, að hjer sje verið að skemma hið gamla, fornfræga höfuðból, og það ætti að vera metnaður okkar, að leika ekki forn setur illa, heldur halda þeim við. Það er auðsætt, að það á að fara eftir ástandinu eins og það er nú, en ekki eftir brjefi, sem að engu er hafandi sökum þess, að það er ritað í hagsmuna skyni. Jeg er ekki kunnugur þarna eystra, en eftir því, sem jeg fæ sjeð á landabrjefum, virðist mjer það rjett hjá biskupi, að hjer sje verið að seilast yfir nokkrar jarðir til að ná í þetta land. Kaupstaðurinn Eskifjörður stendur inst inni við fjörðinn, en Hólmar eru aftur á móti yst úti á tanganum (SvÓ: Það er ekki rjett að það sje seilst yfir 4 jarðir, heldur 2) Hv. þm. hefir nú játað, að til þess að ná í þetta land sje seilst yfir 2 jarðir, sem jeg álít, að kaupstaðurinn eigi frekar að reyna til að fá. Mjer virðast engar upplýsingar liggja fyrir hendi um það, hvort þær sjeu ekki fáanlegar, en hygg, að hitt sje þyngra á metunum, að hjer sje um peningaspursmál að ræða. Kaupstaðurinn sjer nefnilega hag sinn í því að fá þennan jarðarhluta keyptan af ríkissjóði, þar eð hann hyggur, að hann muni fá það land ódýrara en jarðir, sem eru í eign einstaklinga. Hv. þm. S.-M. hefir viðurkent, að önnur jörð sje föl, en segir að hún sje hrjóstug og liggi í skugga. En jeg lít nú á þennan hv. þm. sem málafærslumann síns hjeraðs og þar að auki er hjer um peningaspursmál að ræða, og því álít jeg, að ekki sje mikið leggjandi upp úr slíku, enda ættum við að bera svo mikla rækt til þessa gamla höfuðbóls, að ekki verði flanað að því að hluta það sundur, og það, að því er virðist, að ástæðulausu. Þar sem meiri hl. byggir nál. sitt á brjefi, sem þegar hefir verið afturkallað, sje jeg ekki, að álit hans hafi við rök að styðjast, og vona því, að hv. deild geri þessu máli sömu skil og því næsta á undan, og samþykki í því rökstudda dagskrá.