12.03.1929
Efri deild: 20. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í C-deild Alþingistíðinda. (2576)

60. mál, einkasala á lyfjum

Flm. (Jón Baldvinsson):

Hv. þm. Snæf. hefir nú rakið tildrög þessa máls 1921 og ástæður þess þá. Hefi jeg ekkert við það að athuga og er þar sammála hv. þm. En svo bætti hann því við, að síðan hefðu tímarnir breyst mjög mikið. Sagði hann, að samkepnin væri nú orðin svo mikil um sölu á lyfjum, að engin hætta væri á því framar, að þau yrðu seld með okurverði. Þá sagði hann, að þar sem lyfjabúðir væru orðnar svo margar, væru ætíð nægar lyfjabirgðir í landinu, og af fjölda þeirra leiddi einnig það, að gróði lyfsalanna væri minni en áður var, þar eð þeir yrðu að leggja minna á vöruna samkepninnar vegna. Ef ástæður þessar eru athugaðar rjettilega, liggur í augum uppi, að þær hljóta allar að mæla með einkasölu lyfja. Samkepnin leiðir til þess, að varan verður dýrari. Lyfsalar eru orðnir svo margir, að þeir geta ekki allir haft nóg að gera. Hinsvegar eru þeir neyddir til þess að hafa margt starfsfólk, til þess að geta fullnægt viðskiftaþörfinni, er hún nær hámarki. Auk þess verða lyfsalar að greiða mjög háa húsaleigu, og yfirleitt er kostnaður við slíka verslun mjög mikill. En hvar eiga lyfsalar að taka það fje, sem með þarf til þess að standa straum af þessum gífurlega kostnaði? Ekki mega þeir tapa, þeir eru því neyddir til þess að leggja á vöruna.

Hjer er því enn ríkari ástæða til þess að halda fram einkasölu en áður. Eftir því sem lyfjabúðirnar hafa minna að gera, hafa þær minna fje í veltu. Af því leiðir, að birgðir verða minni en á meðan lyfjabúðirnar voru færri. Nú eru þær orðnar alt of margar og þrífast ekki. Er líkt á komið með þeim og smáverslunum hjer í Reykjavík, þær munu vera einhver lakasta atvinnugrein, sem hægt er að stunda. Afleiðing hinnar miklu „samkepni“ hlýtur að verða sú, að almenningur fær vörurnar við dýrara verð.

Allar hinar breyttu aðstöður mæla því með einkasölunni.

Þá gat hv. þm. þess, að lyfjabúðirnar hefðu taxta, er þær seldu lyfin eftir. Mjer skilst af athugasemdum við frv. frá 1921, að það muni erfitt að ákveða þann taxta svo að hann yrði rjettlátur, og sömuleiðis að líta eftir því, að lyfjabúðirnar fylgi verðskránni. Hv. þm. mintist einnig á lyfjasölu áfengisverslunarinnar og að hjeraðslæknar og spítalar gætu skift við hana. Þetta er að vísu bót frá því, sem áður var, en það er ekki nægilegt. Því hver verslar í sínu horni eftir sem áður. Reykjavíkur Apótek, Laugavegs Apótek og áfengisverslunin senda pantanir sínar hver í sínu lagi, og afleiðingin er sú, að ekki næst lægsta innkaupsverð á vörunum. Væru hinsvegar allar lyfjapantanir sameinaðar, mætti vænta lægra verðs, því að eins og menn vita, þarf víst vörumagn til þess að fá lægsta verð.

Hv. þm. Snæf. sagði, að það mundi ekki rjett, að lyfjabúðirnar væru bundnar við eitt firma í Danmörku. Jeg sagði heldur ekki að þær væru bundnar við það firma, en aðalverslun þeirra mun þó vera við firmað Alfred Bentzon, annaðhvort beint, eða við þær verksmiðjur, er hann vísar þeim á, en hann tekur provision af viðskiftunum. Þannig er það oftast með kaupmennina, þeir eru svo stoltir yfir því að hafa bein sambönd, en í raun og veru situr þá einhver milliliður og hirðir háa provision af viðskiftum þeirra. (JÞ: Eins og hjá áburðarversluninni). Nei, þar kemur pólitíkin að gagni. Þýsk firmu myndu ekki láta íslenska ríkið borga dönskum verslunarhúsum provision af viðskiftum. Á svipaðan hátt myndi fara, ef einkasala á lyfjum kæmist á, enda yrði umboð Alfred Bentzons þá úr sögunni.

Jeg hefi nú athugað þau rök, er hv. þm. bar fram gegn frv., en að þeim yfirveguðum finst mjer að niðurstaðan hljóti að verða sú, að hentugra muni að kaupa lyf landsins í einu lagi en í smákaupum eins og nú er gert.