19.04.1929
Efri deild: 49. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í C-deild Alþingistíðinda. (2582)

60. mál, einkasala á lyfjum

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Allshn. gat eigi orðið sammála um þetta frv. Liggja því fyrir tvö nál. ásamt fylgiskjölum, sem bæði mæla með og móti frv.

Jeg ætla þá fyrst að minnast á frv. á þskj. 86. Meiri hl. allshn. hefir ekki fundið ástæðu til að breyta formi frv., en þó hinsvegar talið rjett að bæta orðinu „umbúðir“ inn í upptalninguna í 7. og 8. gr., þannig að einkasalan næði einnig til umbúða ásamt lyfjum og hjúkrunargögnum. Ríkisstjórnin ræður lyfjaskránni og sker úr, ef ágreiningur rís um, hvaða vörur heyri undir hana. Meiri hl. hefir ekki sjeð ástæðu til að breyta fleiru, nema hvað orðið „landsstjórn“ er felt úr 6. gr. og ríkisstjórn sett í staðinn til samræmis, eins og nú er orðinn siður.

Við fyrstu umr. þessa máls og eins í nefndinni var um það rætt, að forstjórastaða lyfjaverslunarinnar væri í höndum manns, sem ekki hefði tekið lyfsalapróf. En nú er því þannig háttað, að samkv. 4. gr. er það trygt, að forstöðumaður lyfjasölunnar hafi lyfsalapróf. Að vísu er það svo, að núverandi forstjóri áfengisverslunar ríkisins hefir ekki slíkt próf. En í því tilfelli er, samkvæmt 4. gr. laga nr. 69, frá 1928, trygt, að aðstoðarmaður hans hafi slíkt próf, enda falli þá stjórn lyfjaeinkasölunnar undir hann. Jeg hendi á þetta út af aths. í brjefi landlæknis til n. á fskj. I, sem prentað er með áliti meiri hl. Með því að athuga 4. gr. frv. og 4. gr. laga um áfengisverslunina, tel jeg, að frá formsins hlið sje ekkert við þetta mál að athuga. Það er lögformlega trygt, að maður með lyfsalaprófi fer með framkvæmd lyfjaverslunarinnar, og ekkert annað hefir verið fundið að þessu frv., en að þetta væri ekki nægilega trygt. Það hefi jeg nú leiðrjett.

Þá kem jeg að aðaldeiluefninu, sem skoðanir skiftast um, hvort hentugt sje að hafa þetta verslunarform. Það eru aðallega Íhaldsfl. og svokallaður frjálslyndur flokkur hjer í landinu, sem þykjast berjast fyrir frjálsri verslun, og þeir kalla það frjálsa verslun, ef hver maður má versla, sem leyst getur borgarabrjef. Til allrar verslunar þarf að kaupa leyfisbrjef, og á meðan svo er, getur hún ekki talist alfrjáls. — Lyfjaverslunin er t. d. ekki alveg frjáls; til hennar þarf sjerstakt leyfi, sem erfitt er að fá hjer á landi. Þess vegna hefir í raun og veru verið hjer einkasala á þeirri nauðsynjavöru, þannig, að ein lyfjabúð hefir verið á hverjum stað utan Rvíkur, en aðeins tvær hjer í Reykjavík síðustu missirin. En flokkar þeir, sem teljast fylgja frjálsri verslun, virðast láta sjer ant um að lyfjasalan sje einokuð í höndum fárra manna, og það fremur en aðrar vörur. Hin mikla lyfjanotkun, sem altaf virðist fara vaxandi, er í raun og veru óþörf; en fólkið trúir á lyfin og hafa þau, og læknarnir hjálpa til að halda þeirri hjátrú við.

Það verður því að ganga út frá því, að lyfjaverslunin sje nauðsynleg fyrir almenning, og mörg lyf eru vitanlega bráðnauðsynleg; þess vegna verður. að finna leið til þess að gera þau sem ódýrust. Lyfjaverslunin á ekki að vera fyrir lyfsalana og læknana og miðast við þeirra kröfur, heldur á hún að vera fyrir fólkið. Það er þetta, sem um er deilt milli nefndarhlutanna. Hin stærstu og helstu „autoritet“ í heilbrigðismálum þjóðarinar styðja álit meiri hl. nefnd. Landlæknir mælir með frv., enda er það að mestu samhljóða því frv., sem hann undirbjó 1921 og stjórnin lagði þá fyrir þingið. Hann leggur til, að gerð sje aðeins lítilsháttar formbreyting í einu atr. frv., en mælir með því að öðru leyti. Og það eru sterk meðmæli með þessu frv., þegar yfirmaður læknastjettarinnar í landinu leggur eindregið til, að það verði samþykt og lítur svo á, að það sje fullkomin ástæða til að ríkið hafi einkasölu á lyfjum. Þá er það annar aðili, stjórn Læknafjelags Íslands, sem hefir látið nefndinni í tje álit sitt á fskj. II með áliti meiri hl. Það er dálítið erfitt að átta sig á þessu brjefi frá formanni læknafjelagsins; í því eru ýmist meðmæli eða mótmæli gegn frv. En rauði þráðurinn í brjefinu er sá, að eins og nú standa sakir, þá sje okurverð á lyfjum í landinu, og telur stjórn læknafjel. það vera aðalatriðið í þessu máli, að unt sje að lækka hið afarháa verð, sem nú er á lyfjum, og gefa út sanngjarnan lyfjataxta. Telja þeir það mikinn kost, að einkasalan geti fengið fulla vissu um innkaupsverðið og samið fullkominn og sanngjarnan taxta eftir því. Landlæknir mundi þá hafa fulla vitneskju um innkaupsverð lyfjanna og vita, hvað samsetning þeirra og blöndun kostar. Þó að stjórn læknafjelagsins telji þannig mikla galla á núverandi lyfjaverslun, þá leggur hún ekki með frv. og telur hæpið, að einkasalan bæti lyfjaverðið. Álit þessara beggja aðilja læknastjettarinnar er ekki frá fælandi. Með tilliti til þess er vel aðgengilegt að samþ. frv. Hvorutveggju finna að ástandinu eins og það er, læknafjelagið ekki síður, en það mælir með að úr því sje bætt með nýjum lyfjataxta. Þeir, sem líta á málið með heilbrigðri skynsemi, draga af þessu þá ályktun, að sú leið sem frv. bendir á sje rjett, til þess að tryggja, að verðið lækki á lyfjunum, birgðirnar verði nægar og varan góð.

Þriðji aðilinn í þessu máli eru lyfsalarnir sjálfir. Þeir voru ekki spurðir álits af nefnd., en hafa þó fundið ástæðu til að láta frá sjer heyra í brjefi, sem prentað er með áliti minni hl. nefndarinnar. Vitanlega þarf ekki að spyrja lyfsalana um þetta mál, þeir eru allir á móti frv. og vilja fá að selja lyfin hjer eftir sem hingað til með því „afarháa verði“, sem stjórn læknafjelagsins talar um. Það er mannlegt þó að þeir vilji tryggja sig og ekki minka sínar tekjur. Um þá þarf ekki að ræða, menn geta verið rólegir, þó að þeir mæli á móti frv. Þeir verða af skiljanlegum ástæðum ekki teknir alvarlega eins og hinir aðiljarnir.

Jeg hefi minst á brjef stjórnar læknafjel., sem telur lyfjaverðið afar hátt, og það kveður alstaðar við, að lyfin sjeu seld okurverði. Í einu vikublaðinu var nýlega rakið verð á lyfjum í ýmsum löndum, og greinarhöf., sem mun hafa verið lyfsali, komst að þeirri niðurstöðu, að verð á lyfjum væri langhæst í þeim löndum þar sem salan væri alfrjáls, t. d. eins og í Ameríku. Þetta er mjög sennilegt; þegar lyfsalarnir eru fáir eiga þeir að geta selt lyfin ódýrara heldur en þegar margir eru orðnir um þá atvinnu.

En hvað er þá lyfjaverðið hátt hjer? Fyrir skömmu síðan talaði jeg við lækni utan af landi, og hann skýrði mjer frá því, að smáglös með asperíntöflum væru seld í lyfjabúðum á 1,50 kr., en sjálfur kvaðst hann selja þau á 90 aura; innkaupsverð á þeim væri 35 au. danskir, eða nálægt 50 au. ísl. hingað komið. Mjer þótti vissara að prófa þessa umsögn læknisins, þó að jeg tryði honum vel, og keypti í Reykjavíkur Apóteki 1 glas af þessum töflum. Þetta reyndist rjett, sem læknirinn hafði sagt; þar fengust tvennskonar glös, innihaldið var samskonar í báðum — 12 asperintöflur — en umbúðirnar heldur dýrari um annað glasið. Það ódýrara kostaði 1,50 kr., en það dýrara 1,65 kr. Jeg tók reikning með fyrir glasið, og gerir ekkert til, þó hann birtist í þingtíðindunum; en þessi reikningur lítur þannig út:

Reykjavíkur Apótek.

Scheving Thorsteinsson.

Reykjavík, 19/4 1929.

Kontant.

Kr. au.

1.65. An. 1 gl. Asperintöflur 1.65.

Sýnir þetta hversu afarmikill munur er á verði í lyfjabúðum í Reykjavík og hjá læknum út um land, sem þó hafa miklu minni verslun. Gera má ráð fyrir, að kostnaðurinn sje nokkru meiri við lyfjasölu í bænum, en umsetning lyfjabúðanna er líka gífurleg og þessi verðmunur óeðlilega mikill.

Leikmenn eiga ekki hægt með að rannsaka verð á mörgum lyfjategundum, og veit jeg ekki, hvort læknar geta heldur fullkomlega dæmt um svona hluti. Sennilegt er, að það geti ekki aðrir en lyfjafræðingar dæmt um verð á lyfjablöndum. Landlæknir og læknafjelagið kvarta um erfiðleika á því að fá settan sanngjarnan lyfjataxta, og að örðugt sje að fá upplýsingar um innkaupsverð á lyfjum.

Þetta eru, ásamt öðru, mjög sterkar ástæður fyrir því, að ríkið taki lyfjaverslunina í sínar hendur, og að heilbrigðisstjórnin hafi eftirlit með henni; geti fylgst með og athugað; að lyfjaverðið sje ekki haft hærra en hæfilegt er til þess, að lyfjabúðirnar geti borið sig. Af þeim litla reikningi, sem jeg skýrði frá áðan, sjest, að það er talsverður gróði, sem lyfsalinn hefir tekið af almenningi fyrir þessa verslun með meðulin, ef verð á öðrum lyfjum er eitthvað svipað því, sem þetta einstaka dæmi sýnir. Eðlilegra virðist, að ríkið taki sjálft þann gróða í sínar hendur, og reki jafnframt að einhverju leyti smásölu á lyfjum, a. m. k. í stærri kaupstöðum. Þegar slík lyfjaverslun er komin á laggirnar á ríkið að reisa efnarannsóknarstofu í sambandi við hana, til þess að blanda lyf, sem mikið eru notuð, og selja síðan fyrir vægara verð en apótekin nú gera. Jeg get látið hjer staðar numið og beðið átekta þangað til hv. frsm. minni hl. hefir talað og gert grein fyrir afstöðu sinni.