19.04.1929
Efri deild: 49. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í C-deild Alþingistíðinda. (2583)

60. mál, einkasala á lyfjum

Jón Jónsson:

Eftir því sem fram hefir komið, þá dylst mjer það ekki, að ástæða mun vera til þess að gera ráðstafanir um lækkun á verði lyfja alment. Gild rök virðast hafa verið færð fyrir því, að verð á lyfjum sje nú óhæfilega hátt. En þegar farið er að athuga leiðir til að bæta úr því, þá verður um fleiri en eina að ræða, þótt frv. þetta sje sennilega ein þeirra. Eins og sakir standa, virðist eftirlit heilbrigðisstjórnarinnar vera fremur litið. Skín það meðal annars út úr áliti læknafjelagsins. Virðist það ekki hafa verið reynt til þrautar, hvort strangara eftirlit heilbrigðisstjórnarinnar muni ekki geta leitt til þess, að verð á lyfjum lækki. Það er nú skoðun mín, að einkasala sje hlutur, sem ekki er æskilegur yfirleitt, nema þá þegar sjerstaklega stendur á. Svo getur verið, ef hringur hefir myndast um innlendu söluna svo segja megi, að einkasala sje þar komin á hvort sem er. Eða þá að ríkið tekur sölu á vissum tegundum, sjer til fjáröflunar. Svo var t. d. með tóbakseinkasöluna, sem jeg tel að hafi náð þeim tilgangi sínum, að vera tekjustofn fyrir ríkið. En þegar um einkasölu á lyfjum er að ræða, þá getur ekki verið um gróðafyrirtæki að ræða fyrir ríkissjóð. Sú vara er ekki vel fallin til þess. Ennfremur er sá annmarki á, að ríkið taki þetta að sjer, að allmikið fje þarf í það að leggja, sem verður þá fast í þessari verslun. Og eins og bent er til í áliti lyfsalanna, þá eru sum lyf, sem þola illa geymslu.

Má því búast við, að meðul skemmist og verði að ónýta þau. Getur það orðið erfitt fyrir verslun, sem lítið er ætlast til að leggi á vöru sína. — Að þessu athuguðu þykir mjer rjett að reyna þær aðrar leiðir, er blasa við. Er þá fyrst, að strangara eftirlit sje haft með lyfjaverðinu. Og annað, sem miðar í sömu átt, er frv., sem fram er komið í hv. Nd. Er það um það, að heimila megi bæja-, sveita- og samvinnufjelögum sölu á lyfjum. Hefi jeg þá trú, að minsta kosti samvinnufjelögin muni stilla verði lyfja í hóf, ef þau annast sölu þeirra. Jeg hefi því hugsað mjer að bera fram till. til rökstuddrar dagskrár, þar sem hert er á því, að hlutast verði til um, að lyfjataxtinn verði endurskoðaður og verðið lækkað fyrir almenning. Till. mín til rökst. dagskrár hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að ríkisstjórnin láti fara fram endurskoðun á núgildandi lyfjataxta og athugi, hver ráð muni vænlegust til þess að lækka verð lyfja fyrir almenning, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“