19.04.1929
Efri deild: 49. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í C-deild Alþingistíðinda. (2585)

60. mál, einkasala á lyfjum

Frsm. minni hl. (Jóh. Jóhannesson):

Það eru einungis örfá orð. Jeg gleymdi að geta þess, að í lögum frá 1921 var ákvæði um það, að á áfengi til lyfja mætti ekki leggja nema fyrir kostnaði. 1928 var þessu breytt, illu heilli, enda hækkaði lyfjaverðið þá stórum. Þessu þyrfti að kippa í lag sem bráðast.

Hv. frsm. meiri hl. vildi efast um, að reyndir og ráðsettir menn væru betri en ungir og óreyndir. Jeg vil halda fast við það, að reynsla og æfing sje mikið atriði og nauðsynlegt skilyrði til þess að geta staðið vel í sinni stöðu. Og jeg sný ekki aftur með það, að jafn þýðingarmikið starf sem yfirstjórn lyfjaeinkasölunnar, megi alls ekki fela undirmanni við áfengisverslunina, af þeim einföldu ástæðum, að slíkur undirmaður er ekki svo launaður, að trygging sje fyrir því, að hæfur maður veljist til starfans. Ennfremur benti jeg á, að ríkisstjórnin ætti ekkert húsnæði fyrir verslunina, og að það myndi taka nokkurn tíma að koma því upp, auk þess sem stjórnin yrði til þess að taka ríkislán, og það álít jeg tæplega gerandi.

Sami hv. þm. sagði, að það lægi þungur dómur yfir lyfjaversluninni í því, að allir væru sammála um, að lyfin væru dýr. Þetta þarf alls ekki að vera, því að enginn ber brigður á það, að lyfsalarnir selji eftir hinum setta taxta. Það, sem áfátt er, ber því að saka heilbrigðisstjórnina um, en ekki lyfsalana.

Þá las hv. þm. upp reikning yfir 1 glas af aspirintöflum úr lyfjabúð Reykjavíkur, og bar verðið saman við verð úti á landi. Mig undrar það ekki, þó lyfsalar í Reykjavík þurfi að leggja meira á vörur sínar en læknar úti á landi; þetta er aðalatvinna þeirra, sem þeir hafa lífsuppeldi af, en hjá læknum eru þetta einungis aukatekjur, auk þess sem lyfsalar, a. m. k. í Reykjavík, verða að reikna með mjög hárri húsaleigu og öðrum starfrækslukostnaði.

Þá sagði hv. þm., að jeg hefði ekki bent á leið til þess að gera lyfjaskrána sanngjarnari en hún er nú. Um þetta eru glöggar upplýsingar í brjefi Læknafjelagsins. Þar segir svo, meðal annars:

„Oss virðist þó, að heilbrigðisstjórninni ætti ekki að vera það ofvaxið, að vita um sannvirði lyfja með því skipulagi, sem nú er, annaðhvort með því að fá að rannsaka innkaupsreikninga lyfjabúðanna eða með því að leita upplýsinga frá útlöndum, að svo miklu leyti sem reikningar lyfjaverslunar ríkisins hrökkva ekki til þess að vita um verð á öllum lyfjategundum.“

Að þetta hefir ekki verið gert, bendir ótvírætt á vanrækslu heilbrigðisstjórnarinnar.

Annars get jeg felt mig við dagskrá hv. 6. landsk. og mun greiða atkv. með henni, því að hún fer einmitt í sömu átt og jeg hefi bent á að fara eigi í þessu máli.