19.04.1929
Efri deild: 49. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í C-deild Alþingistíðinda. (2586)

60. mál, einkasala á lyfjum

Halldór Steinsson:

Þegar þetta frv., eða annað samhljóða þessu, var borið fram hjer á Alþingi 1921, þá lágu til þess einkum þrjár ástæður. Í fyrsta lagi þóttu meðalágæðin ekki nógu trygg á stríðstímunum, og öðru lagi þótti ekki örugt nema lyfjavöntun gæti orðið í landinu þá og þegar. Í þriðja lagi þótti lyfjaverðið óhæfilega hátt. Úr þessu átti frv. 1921 að bæta. Nú eru tvær af þessum ástæðum fallnar burtu. Lyfin eru nú vönduð og nægilega mikil, og ekki þarf að búast við meðalaskorti, ef að líkindum lætur. En þá er þriðja ástæðan eftir, sú að meðulin sjeu dýr, og þeirri ástæðu er nú flaggað í sambandi við þetta frv. Það má vel vera, að lyfin sjeu óþarflega dýr, en sú leið, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, stefnir ekki í rjetta átt, og er mjög hæpið að leiði til lækkunar lyfjaverðsins. Jeg vil í því sambandi benda á álit Læknafjelags Íslands, sem meiri hlutinn hefir látið prenta með nál. sínu. Fjelagið telur hæpið, að einkasalan bæti lyfjaverðið, og leggur á móti frv. af ýmsum ástæðum. Þetta álit sjerfróðra manna er því rík sönnun þess, að tilgangi frv. yrði tæplega náð, þótt þessi leið væri farin.

Hv. frsm. meiri hl. kvaðst eiga bágt með að átta sig á niðurstöðu brjefs Læknafjelagsins. Jeg get nú ekki betur sjeð, en að njðurstaða brjefsins sje í fullu samræmi við alt inntak þess. Fullkomin andúð gegn frv. skín út úr hverri línu brjefsins, og stjórn fjelagsins er frv. mjög andvíg. Það hefir verið stiklað á sumum línum brjefsins hjer við umræðurnar, og jeg ætla þá líka að stikla á öðrum línum þess, til þess að brjefið geti alt komið í Þingtíðindunum. Þá vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp aðra málsgr. brjefsins. Hún hljóðar svo:

„Fjelagið vill þá fyrst benda á, að hæpið er, að landið geti tekið einkasölu á umbúðum o. þvíl. Undir þetta heyrir margt, sem allar almennar verslanir mega versla með og nota má til annars en lækninga eða hjúkrunar, t. d. grisja (gaze).“

Jeg skal benda á, að það er ótal |margt fleira en grisja, sem almennar verslanir versla með, en heyrir til lækninga og hjúkrunar, það er fjöldi áhalda og umbúða, og væri það óneitanlega hart, að taka leyfi af verslunum til þess að versla með slíkar vörutegundir. Og þótt fjelagið álíti verð á lyfjum óþarflega hátt, þá telur það þetta frv. engan veginn leið til þess að fá lyfjaverðið lækkað. Hv. frsm. minni hl. las upp kafla úr brjefinu, þar sem bent er á hina einu skynsamlegu leið til þess að fá verðið lækkað. Jeg sje því ekki ástæðu til að lesa það upp aftur. Síðar í brjefinu segir svo: „Mikil líkindi virðast oss ekki til þess, að einkasalan standi betur að vígi með að gera lyfin ódýrari. Vjer viljum þannig benda á: 1.) Að ólíklegt er að betri innkaup fáist á flestum lyfjum, þó þau væru keypt í heild fyrir alt landið.“ Ennfremur segir í brjefinu: „Mikill aukakostnaður hlyti að fylgja einkasölunni. Forstöðumaður hennar þyrfti að sjálfsögðu að vera sjálfstæður lyfjafræðingur, sem ekki ræki neina lyfjabúð, og hann þyrfti að launa. Gott og mikið húsnæði þarf fyrir allan lyfjaforðann. Mikið fje yrði bundið í versluninni, og vexti þarf að greiða af því. Talsvert af lyfjum yrði ónýtt við geymslu (of gömul).“ Brjefið endar síðan með þessum orðum: „Að öllu athuguðu teljum vjer hæpið, að einkasalan bæti lyfjaverðið frá því sem vera mætti með núverandi skipulagi, og getum því ekki mælt með frv., þrátt fyrir nokkra kosti.“

Mjer er ekki ljóst, hvað meiri hl. hefir þótst græða á því að láta prenta brjefið með nál. sínu. Jeg sje ekkert í brjefinu, sem verulega styður þeirra mál, en hinsvegar ærið margt, sem sterklega mælir gegn frv. Enda er það aðalatriði, að hægt sje að færa lyfjaverðið niður, og Læknafjelagið bendir á, að það megi gerast með því að setja sanngjarnari taxta. Og enginn minsti vafi er á því, að með núverandi skipulagi má hæglega komast að lyfjaverðinu erlendis, og með því finna rjettlátan grundvöll til þess að byggja lyfjataxtann á. Og ennfremur efa jeg ekki, þrátt fyrir ummæli landlæknis, að lækka megi lyfjaverðið, ef hyggilega er að farið. Jeg hefi ekki heyrt neinn lækni tala um, að þetta væri sjerstaklega örðugt, en hvað lyfjabúðirnar snertir, þá fylgja þær taxtanum, og sjá eðlilega ekki ástæðu til þess að selja lyfin ódýrara en þar er fyrirskipað.

Hv. frsm. meiri hl. bar saman verð á lyfjum hjer í bæ og úti um land. Sem dæmi tók hann asperintöflur, og hafði það eftir einhverjum lækni, að slíkar töflur kostuðu í innkaupi 36 au. danska, eða sem næst 50 au. íslenskum. Jeg verð að segja, að sá læknir hefir fengið betri innkaup en venjuleg eru. Minsta kosti hefi jeg aldrei fengið asperíntöflur fyrir nálægt því svo lágt verð, og mjer þætti annars gaman að vita, hver þessi læknir er, sem hv. frsm. er að vitna í. Jeg hefi skift við áfengisverslun ríkisins, og mjer hafa þessar töflur verið reiknaðar á minst 100% hærra verð en þetta. Og satt að segja á jeg erfitt með að skilja í þessu lága verði læknisins. Jeg efast þó alls ekki um, að hv. þm. skýri rjett frá. (JÞ: Glösin eru ef til vill minni). Jeg býst við, að landlækni væri nokkurnveginn í lófa lagið, að komast að hinu raunverulega lyfjaverði, en jeg veit ekki til, að hann hafi gert hina minstu tilraun til þess. Ef þetta væri gert, væri lyfjaokur um leið nokkurnveginn útilokað, því enginn myndi eiga undir slíku, ef öllum væri opin leið að vita hið raunverulega verð lyfjanna.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að jeg hefði haldið því fram við 1. umr., að lyfin væru ekki dýr, af því að samkepni væri frjáls. Þetta er eigi rjett með farið. Jeg sagði ekki, að lyfin væru ódýr, en einungis að lyfin þyrftu ekki að vera dýr, og þau þurfa þess ekki, ef eftirlitið er nægilegt, þ. e. a. s. ef settur er sanngjarn, ákveðinn lyfjataxti og sjeð um að farið sje eftir honum.