19.04.1929
Efri deild: 49. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í C-deild Alþingistíðinda. (2587)

60. mál, einkasala á lyfjum

Jón Jónsson:

Jeg vil gera nokkra grein fyrir, hvað felst í till. þeirri til rökst. dagskrár, sem jeg hefi flutt. Ætlun mín er, að fela ríkisstjórninni að sjá um, að endurskoðun á lyfjataxtanum fari fram hið bráðasta. Ef dagskrártill. þessi verður samþykt, þá ber stjórninni að taka þetta sem eindreginn vilja deildarinnar. Ennfremur er til þess ætlast, að stjórnin athugi alla hugsanlega möguleika til þess að færa lyfjaverðið niður, án þess þó að vörugæði rjeni, t. d. hvort sú leið, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, sje heppileg eða fær. Og hvað því viðvíkur, að erfitt sje að endurskoða lyfjataxtann og finna hið raunverulega lyfjaverð, þá hefir minni hl. bent á, með skýrskotun til álits Læknafjelagsins, að slíkt sje ekki meiri örðugleikum bundið en svo, að vel sje tækilegt. Jeg geri því fastlega ráð fyrir, að ef till. mín verður samþykt, þá muni ekki alllítið ávinnast, og álít jeg þetta mál þá eftir atvikum sæmilega afgreitt af þessu þingi.