19.04.1929
Efri deild: 49. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í C-deild Alþingistíðinda. (2588)

60. mál, einkasala á lyfjum

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Þetta margumrædda og upplesna brjef Læknafjelagsins virðist ætla að reynast alveg ótæmandi og óþrjótandi náma. Báðir málspartar sækja þangað sitt hvað, sínu máli til stuðnings. Brjefið tvístígur á milli þess, að verðið sje óhæfilega hátt, og hins, að setja megi í hagkvæmari taxta. Loks klykkir það út með þessum margupplesnu orðum: „Að öllu athuguðu virðist oss hæpið, að einkasalan bæti lyfjaverðið o. s. frv.“ Já, þeir eru langt frá því vissir um að einkasalan kynni ekki að bæta lyfjaverðið, en þeir telja það bara hæpið. Af þeim sökum geta þeir ekki ljeð frv. fylgi sitt, enda þótt þeir játi, að það hafi „nokkra kosti“. Mjer finst best að strika brjefið út sem röksemdir af beggja hálfu, því að innihald þess vegur nokkurnveginn salt.

Þá er einungis umsögn landlæknis, sem nokkurs er nýt, enda situr það illa á læknum deildarinnar, að gera lítið úr yfirmanni þeirra með því að taka ekki fult tillit til þess, sem hann leggur til málsins, og gefa í skyn, að hann hafi ekki hugsað þetta mál til hlítar. Jeg vil þó leyfa mjer að lesa upp kafla úr áliti landlæknis, eða athugasemdum hans, með frv. 1921. En með því að þetta álit hefir verið lesið upp við 1. umræðu þessa máls, vil jeg biðja skrifarana að taka það ekki upp, en hv. deildarmenn hafa hinsvegar gott af að heyra það afur, til frekari skilnings og athugunar. — Hvernig yrði það nú í framkvæmdinni, þegar landlæknir ætti að fara að rannsaka innkaupsverð lyfjanna? Jú, hann gengi t. d. niður í Reykjavíkur Apótek og spyrðist fyrir um innkaupsverð lyfjanna. Og til hvers ætti svo að nota þær upplýsingar? Auðvitað til þess eins, að færa verðið niður. Er þá eðlilegt að treysta á þær upplýsingar, sem eiga að verða til þess að þröngva kosti þeirra, sem gefa þær. Jeg segi nei, en ef einkasalan hefði slíka verslun alla með höndum, þá væru reikningar og velviljaðar upplýsingar ávalt fyrir hendi, og þá fyrst væru nokkur tök á að vita hið sanna lyfjaverð, og þá væri hægt að selja almenningi þau með sanngjörnu verði. Auk þess hefði einkasalan mikið verkefni við ýmsar rannsóknir, sem landlæknir getur ekki komist yfir. Býst jeg við, að þar væri ærið verk fyrir 1 mann. Auk þessa hefði einkasalan ýmislegt fleira á takteinunum, og m. a. væri ekki lítið verk að reikna út sannvirði lyfjanna áður en seld væru. En ef landlæknir ætti að finna sannvirði lyfja, yrði hann að byggja það á upplýsingum lyfsalanna sjálfra, og á slíkt væri aldrei að treysta. T. d. myndi honum verða sýndir innkaupsreikningar, þar sem meðulin væru reiknuð með verði, sem ekki væri ástæða til að vefengja. En þá ber á það að líta, að um áramót eru reikningar gerðir upp, og venjulega gefinn mikill afsláttur. Um hann þyrfti landlæknir ekkert að vita, og er ekkert víst, að hann fengi að vita um hann. En slíkur afsláttur getur orðið afarmikill af lyfjum. Jeg get ekki betur sjeð, en að þessar ástæður landlæknis sjeu ærið sterk rök fyrir þessu frv.

Þá langar mig til að svara hv. þm. Snæf. nokkrum orðum. Hann var á móti frv. 1921, og hann var einn þeirra manna, sem sáu svo um, að það sæi ekki dagsins ljós. (HSteins: Ekki rjett). Jæja, ætli það láti nú ekki nærri. Jeg hefi það einhvernveginn á tilfinningunni. Hv. þm. talaði um, að læknar fengju ekki alment eins góð innkaup á lyfjum og þessi læknir, sem jeg gat um. Um það get jeg ekki borið, en þetta tilfelli sýnir glögt, hve verðið er óhæfilegt hjer í Reykjavík. Þessi aspirín-glös, sem læknirinn keypti, voru af sömu stærð og hjer er venjulegast.

Þá sný jeg mjer að hv. 6. landsk. með dagskrártill. sína. Hann sagði, að mikið væri komið undir því, sem stjórnin segði um málið. En stjórnin er ekki viðstödd og getur því ekkert lagt til málanna, og þar af leiðandi mun hún ekki telja sig bundna af þessari dagskrá, þótt samþykt verði. — Jeg bið afsökunar á, að jeg tók ekki eftir hæstv. forsrh. Hann situr þarna úti í horni, og er spursmál, hvort maður þarf að taka eftir honum annarsstaðar en í sæti sínu. Ef stjórnin segir ekkert um málið, þá er dagskrá hv. 6. landsk. mjög þægileg og notaleg leið til þess að smeygja sjer undan að greiða atkv. um mál, sem þeim er illa við, en þora samt ekki að drepa. Till. er neikvæð lausn á málinu, en jeg sje ekki neina möguleika fyrir stjórnina að bæta úr ástandinu, sem nú er, nema farin sje sú leið, er frv. gerir ráð fyrir.

Þá var hv. frsm. minni hl. að tala um hina reyndu og ráðsettu menn, en jeg um hina ungu og duglegu. Jeg ætla aðeins að minna hv. þm. á þá reglu, er erlend stórfyrirtæki hafa nú alment tekið upp. En það er að láta hina „reyndu og ráðsettu“ þoka sæti fyrir hinum ungu, áhugasömu og duglegu mönnum. Þetta hefir þótt gefast vel, sem og að líkindum ræður, enda þótt þeir verði að greiða gömlu mönnunum töluverð eftirlaun. (JóhJóh: Hvað er etatsráð Andersen gamall). Jeg býst við, að hann hafi þessa sömu reglu, að láta gömlu mennina fara og taka aftur unga í þeirra stað.

Þá var hv. þm. Seyðf. að afsaka landlækni, og sagði, að það væri ekki von, að hann vildi ganga á móti þessu afkvæmi sínu, af því að það væri nú svo, að enginn vildi bera barn sitt út. Út af þessum ummælum hv. þm. vil jeg benda honum á, að það hefir samt komið fyrir hjer á Alþingi, að þingmaður hefir að þessu leyti borið barn sitt út, og á jeg þar við hv. 1. þm. Skagf., flokksbróður hv. þm. Seyðf., þegar hann sjálfur gekk af tóbakseinkasölunni dauðri, sem hann þó hafði verið faðir að á þinginu 1921. En landlæknir er bara staðfastari, þar sem hann, þrátt fyrir það þó að hann sje í Íhaldsflokknum, vill ekki ganga á móti þessu barni sínu frá 1921.